Laugardagur 13.04.2013 - 23:12 - FB ummæli ()

Vímuefnanotkun er heilbrigðisvandamál!

Fyrir rúmum 40 árum lýsti Richard Nixon yfir stríði gegn því sem kallast ólögleg vímuefni og neyslu þeirra. Skera ætti upp herör gegn vandanum, banna vímuefnin og refsa þeim sem kæmu nálægt þeim. Sú stefna í vímuefnavörnum breiddist út um heim allan. Síðan þá er löngu ljóst að “stríðið gegn fíkniefnum” er löngu tapað og sú aðferð að siga lögreglu á ólánsöm ungmenni sem þyrftu miklu frekar stuðning og skilning skilar minna en engum árangri enda hefur dreifing vímuefna og notkun vaxið jafnt og þétt allan banntímann.

Vímuefnaneysla er að sjálfsögðu varhugaverð og getur verið mikið böl fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið allt. Ofneysla vímuefna og fíkn er þó fyrst og fremst heilbrigðisvandamál en ekki glæpur. Ef við á annað borð skilgreinum fíkn sem sjúkdóm eins og við gerum er kemur að áfengissýki þá er fíkn í ólögleg vímuefni líka sjúkdómur. Því vill Dögun að litið verð á fíkniefnaneyslu sem heilbrigðisvandamál frekar en glæpsamlega hegðun.

Mikilvægt er að mannréttindi fíkla séu virt og fíkniefnaneytendum gert kleift að taka virkan þátt í samfélaginu eftir aðstæðum hvers og eins en þeir séu ekki jaðarsettir í undirheima þar sem lögum og reglum er vikið til hliðar og mannréttindi gilda ekki. Dögun vill afglæpavæða (e. decriminalize) fíkniefnaneyslu með sambærilegum hætti og gert hefur verið í Portúgal og víðar þar sem neytendum er boðin aðstoð en þeim ekki refsað eða þeir lokaðir inni.

Dögun leggur áherslu á að nálgast fíkniefnavandann með skaðaminnkun og mannúð að leiðarljósi en ekki valdbeitingu, forvirkum rannsóknarheimildum og refsiaðgerðum dómstólanna. Samfélaginu ber siðferðisleg skylda til að sinna þörfum þeirra sem ekki vilja eða geta hætt neyslu fíkniefna þannig að þeir og samfélagið allt verði fyrir sem minnstum skaða.

Hér á Íslandi er skaðaminnkandi nálgun þegar að ryðja sér til rúms, t.d. með verkefni Rauða krossins, Frú Ragnheiði, en betur má ef duga skal.

Börn í vanda eru líka börnin okkar og þeim ber að hjálpa ekki útskúfa.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is