Föstudagur 12.04.2013 - 15:31 - FB ummæli ()

Ljónynjurnar

Í gærkvöldi var ég á skemmtilegum fundi á vegum Femínistafélags Íslands um konur í stjórnmálum en ég hafði verið beðin um að ávarpa fundinn. Í tilefni þess fór ég að hugsa um Dögun og hvernig við vinnum en einnig hvers vegna ég fór að skipta mér að stjórnmálum fyrir síðustu kosningar.

Ég upplifði hrunið sem árás á heimili mitt og allt mitt líf. Öryggi fjölskyldu minnar var ógnað. Lánin hækkuðu upp úr öllu valdi og atvinnuöryggi okkar hjóna var langt í frá tryggt. Myndum við hafa þetta af? Gætu börnin mín stofnað hér fjölskyldur, búið hér áfram og átt gott líf í vændum.

Ég er alin upp í Hjálparsveit skáta og nú þurfti björgunar við og þá var ekki eftir neinu að bíða. Og mér fannst ég heldur ekki hafa neinu að tapa. Því að vera borgari fylgja ekki einungis réttindi heldur líka skyldur og það er skylda okkar að grípa í taumana og veita stjórnvöldum aðhald þegar þess þarf. Og þess þurfti vorið 2009 og þess þarf enn.

Í kosningunum 2009 urðu fleiri konur þingmenn en nokkru sinni fyrr. Eftir að strákarnir höfðu sett landið á hausinn var konunum hleypt í tiltektina, þó bara 27 af 63 þingmönnum. Karlarnir voru enn í meirihluta. Síðan þá hafa þrjár konur sagt af sér og karlar komið inn í staðinn. Nú hafa margir áhyggjur af því að bakslag komi í baráttuna og færri konur komist inn.

Dögun er jafnréttissinnaður flokkur. Við höfum flatan strúktúr og viljum hafa allt okkar starf eins lýðræðislegt og hægt er. Allt málefnastarf er unnið í opnum hópum og þar eiga að vera tveir ábyrgðarmenn, einn karl og ein kona, vegna þess að okkur þykir svo mikilvægt að bæði kynin komi að öllu málefnastarfi. Fyrir vikið er jafnréttisstefnan okkar sennilega karlmiðaðri en ella og töluvert mikil áhersla á að rétta hlut einstæðra feðra en minna talaðu um klámvæðinguna og slíkt eins og ég held að sé í jafnréttisstefnu sumra framboða.

Eitt af stóru málunum okkar eru skuldamál heimilanna og ég held að þau höfði gríðarsterkt til kvenna og kannski líka þessi flati strúktúr sem hentar konum held ég betur – Ég gæti trúað að hann sé minni þröskuldur fyrir margar konur en hefðbundinn píramídi sem þarf að klífa.

Alla vega raðaðist þannig á framboðslista hjá okkur að 4 af 6 oddvitum eru konur. 52% frambjóðanda á landsvísu eru konur, 55% frambjóðenda í efstu 10 sætunum og 53% í efstu 5. Það var lagt upp með að hafa fléttulista og alveg jafnt kynjahlutfall en þegar listarnir voru að fyllast stóðum við frammi fyrir því að það vantaði bara karla. Við vorum eiginlega komin með allt of margar konur.

Dögun er ljónynjuframboð – þegar öryggi heimilisins er ógnað er okkur að mæta.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is