Laugardagur 06.04.2013 - 16:17 - FB ummæli ()

Ég hef áhyggjur!

Eins dásamleg og mér finnst gróskan í framboðsmálum landans vera þessa dagana þá verð ég að viðurkenna að staðan veldur mér einnig áhyggjum. Þær eru til komnar vegna reynslu minnar síðustu fjögurra ára af stjórnmálastarfi.

Borgarahreyfingunni var vorkunn og ég held, eftir á að hyggja, að hún hafi verið dæmd til að springa í loft upp stuttu eftir kosningar. Hún var stofnuð skömmu fyrir kosningar og þar var allt reiðasta fólkið á landinu sem sammældist um örfá stefnumál; Lýðræðisumbætur, leiðréttingu á skuldum, efnahagsmál, auðlindir í þjóðareigu og spillinguna burt. Um önnur stór mál eins og ESB náðist ekki samstaða um og er stefnuskráin því þögul um þau. Hver og einn frambjóðandi átti að fylgja sinni sannfæringu þegar kom að öðru en stefnumálunum. Það virkaði ágætlega í kosningabaráttunni en svo fór allt á hliðina þegar greidd voru atkvæði um ESB í þinginu eins og kunnugt er.

Sú gróska og fjöldi nýframboða sem nú er staðreynd gleður mitt lýðræðissinnaða hjarta og mér sýnist kjósendur hafa marga nýja, fína valkosti til að kjósa um. Það sem ég hef áhyggjur af er hins vegar að mér virðist sem frambjóðendur einhverra framboðanna ekki endilega eiga svo mikinn samhljóm með flokknum sem þeir bjóða sig fram fyrir, eða öfugt, og ég velti fyrir mér hvernig unnið hafi verið að stefnuskrá þeirra og á hvaða forsendum fólk hefur boðið sig fram.

Dögun var formlega stofnuð fyrir rúmu ári en undirbúningurinn hefur staðið mun lengur. Fyrir stofnfundinn var hópurinn sem samanstóð af fólki úr ýmsum áttum, úr stjórnlagaráði og úr fjórflokknum og svo þremur stjórnmálasamtökum í heild, búinn að koma sér saman um þær málefnaáherslur sem flokkurinn ætlaði að sammælast um. Sú kjarnastefna var samþykkt á seinni stofnfundi okkar, 18. mars 2012. Það er ekkert launungamál að þegar hún var samþykkt ákváðu hörðustu ESB andstæðingarnir sem höfðu tekið þátt í undirbúningnum að vera ekki með í Dögun þar sem meirihlutinn taldi að lýðræðissinnað stjórnmálaafl ætti að treysta þjóðinni til þess að ákveða hvort Ísland ætti heima í ESB eða ekki. Þess vegna er ekki fólk í Dögun sem er tíðrætt um landráð en þar eru margir sem er á móti aðild og aðrir með. Við erum hins vegar sammála um að það sé þjóðarinnar að útkljá málið.

Stjórnmálasamtök þurfa nefnilega að mínu mati að snúast um ákveðna hugmyndafræði og málefnalegan samhljóm en ekki bara þekktar persónur þótt þær kunni að vera frábærar, vinsælar og sópa til sín fylgi. Innan Dögunar var uppi ágreiningur um þetta sem olli því að okkar kæri vinur Lýður Árnason ákvað að hverfa frá borði og stofna Lýðræðisvaktina ásamt fleirum. Hann orðaði það þannig að þegar kæmi að stefnumálum þyrftu allir að kyngja einhverjum ógeðsdrykk og að það væri nauðsynlegt til að fá vissa einstaklinga um borð. Því vorum við ekki sammála. Við vorum t.d. ekki tilbúin að gefa afslátt af kjarnastefnunni okkar sem kveður á um „tafarlaust afnám verðtryggingar“ og skipta verðtryggingunni bara út fyrir aðra gerð verðtryggingar eins og stefna Lýðræðisvaktarinnar kveður nú á um. Eftir að hafa skoðað svör frambjóðenda Lýðræðisvaktarinnar á kosningavef DV virðast þau út og suður um þetta efni sem þó er sennilega eitt heitasta kosningamálið í komandi kosningum. Þar er spurt:

Hversu sammála eða ósammála ertu eftirfarandi fullyrðingu: Afnema á verðtryggingu á neytendalánum í íslenskum krónum.

Þorvaldur Gylfason, oddviti vaktarinnar í Reykjavík norður er sá eini sem segist vera því ósammála. Viktor Orri Valgarðsson, Kristín Ósk Wium og Lýður Árnason segja „Hvorki né“ og þau Lýður og Kristín skýra það með vísun í stefnuna. Viktor Orri sagðist ekki hafa nægilega þekkingu á málinu en segir að honum sýnist sú leið sem er að finna í stefnu þeirra skynsamlegri en hreint afnám.

Ástrós Signýjardóttir, Friðrik Hansen Guðmundsson, Þórður Már Jónsson, Finnbogi Vikar og Sjöfn Rafnsdóttir segjast hins vegar öll mjög sammála því að afnema eigi verðtryggingu á neytendalánum og það gerir Örn Bárður Jónsson líka en vísar í stefnuna sem kveður þó ekki á um afnám.  Íris Erlingsdóttir segist einnig mjög sammála og bætir við:

Bankar á Íslandi eiga alveg að geta komist ágætlega af, rétt eins og bankar í öðrum löndum heimsins, án þess að ríkisvaldið veiti þeim sömu stöðu og spilavítum, þ.e. að húsið vinni alltaf.

Þórir Baldursson, Jenný Stefanía Jensdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir, Víðir Benediktsson og Sigríður Stefánsdóttir segjast öll sammála fullyrðingunni. Sigríður segir: “ Með aðferð skv. stefnu Lýðræðisvaktarinnar“ og Jenný Stefanía:

Verðtrygging, þar sem skuldir eru tryggðar en laun ekki, gengur ekki upp. Vandinn felst fyrst og fremst í a) verðbólgunni b) íslensku krónunni. Með gjaldmiðilsbreytingu gætu vextir lækkað og verðtrygging úr sögunni. Skilst að 60% lántakenda hafi nú þegar kosið verðtryggingu með fótunum og tekið óverðtryggð (vaxtaokur) lán.

Jónas Guðmundsson og Eyþór Jóvindsson vilja ekki svara en Eyþór segir:

Þekki hagfræðina á bakvið þetta ekki nægilega vel til að geta gert mér upp afstöðu. En er það ekki svo að þegar hagstjórn er góð er verðtryggingin ekki með vesen?

Aðrir frambjóðendur í fyrstu fimm sætum hafa ýmist ekki svarað spurningum DV eða ekki þessari en hún bættist við síðar.

Ég held að ásetningur frambjóðenda Lýðræðisvaktarinnar sé góður og þar þekki ég margt vandað hugsjónafólk og suma tel ég til vina minna. Mér sýnist þau hins vegar ekki hafa unnið heimavinnuna sína nægilega vel og áherslan hafi fremur verið á að fá þekkt andlit til liðs við framboðið en að ná málefnalegri samstöðu á öllum sviðum, jafnvel þegar um er að ræða aðalmál þessara kosninga.

Aðrir hópar sem við í Dögun höfum á einhverjum tímapunktum áttum í viðræðum við í einhverri mynd eru sumir þeirra sem nú mynda Flokk heimilanna en þó alls ekki allir. Þar virtist mér áherslan vera á að mynda eins máls flokk og að í öðrum málum ætti þingmaður eða frambjóðandi bara við sína samvisku um hvernig hann greiðir atkvæði. Sú hugmyndafræði er okkur sem tókum þátt í Borgarahreyfingunni kunnugleg og eins og ég benti á hér að framan virkaði hún ágætlega til að koma fólki á þing en ekki sem skyldi eftir að þangað var komið. Eins og ég hef skilið fólk í þessum hópi hefur mér virst sem önnur stefnumál en skuldamál standi í vegi fyrir því að það hafi haft áhuga á að vinna með Dögun þótt leiðréttingar á skuldum heimilanna, afnám verðtryggingar og breytt skipan húsnæðislána séu í raun okkar aðalstefnumál. Innan Flokks heimilanna er reyndar að finna einstaklinga sem unnu með Dögun fram að stofnfundi en gátu ekki sætt sig við lýðræðislega nálgun er kemur að ESB.

Tvisvar hef ég verið þess heiðurs aðnjótandi að vera í útvarpsþætti með talsmönnum Flokks heimilanna. Í fyrra skiptið var það í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni en þar var Halldór frá Holti og lýsti sig algjörlega mótfallinn nýrri stjórnarskrá. Í seinna skiptið var það í þættinum Vikulokunum á Rás 1 en þar var það Inga Karen Ingólfsdóttir sem sagðist aðspurð ekki geta verið í Dögun þótt flokkurinn hennar væri sammála Dögun um leiðréttingar lána og afnám verðtryggingar því það væru önnur mál sem þau væru mótfallin. Hún fór ekki nánar út í hvaða mál það væru en í þættinum kom fram að henni hafi fundist stjórnarskrármálið dæmi um ranga forgangsröðun.

Ég var því nokkuð hissa þegar ég hlustaði á Pétur Gunnlaugsson og Arnþrúði Karlsdóttur kynna flokkinn í þættinum Bítið á Bylgjunni. Þar sagði Arnþrúður að Flokkur heimilanna væri ekki eins máls flokkur sem er þvert á það sem mér skyldist. Á heimasíðu flokksins er þó lítið að finna um önnur mál en kjör heimilanna og efnahagsmál að því undanskyldu að örfáar setningar er þar að finna um líta beri til fleiri kosta en stóriðju er kemur að nýtingu orkuauðlindanna. Þarna er ekkert um sjávarútveg, heilbrigðismál, ESB eða nýja stjórnarskrá. Engu að síður fjallaði Pétur um stjórnarskrána í kynningunni. Það kæmi ekki mikið á óvart þar sem Pétur sat í Stjórnlagaráði og ég veit að málið er honum hugleikið ef ekki hefði verið fyrir andstöðu Halldórs frá Holti og Ingu í fyrri þáttum. Verður maður því ekki að spyrja sig um hvað þessi flokkur er í raun og hvort hann viti það sjálfur?

Ég vil taka það fram að ég hef ekkert á móti Flokki heimilanna eða þeim einstaklingum sem þar starfa, ég er bara að reyna að átta mig á þessu. Ég vil líka geta þess að mér virðist sem fleiri en Dögun hafi unnið opið og lýðræðislega að stefnumálum sínum. Píratarnir hafa verið næstum jafn lengi að og við og þar fer hugmyndavinna og ákvarðanataka fram í gegnum netið. Hugmyndafræði Píratana lá einnig fyrir í byrjun enda innflutt og því var ekki byrjað á núlli. Það besta við Píratana er að þeir hafa náð til ungs fólks sem hingað til hefur ekki fundið sig á hinum pólitíska vettvangi og það er frábært.

Þá hefur hinn merki aðgerðarsinni Sturla Jónsson viljað láta reyna á einstaklingsframboð sem hann telur að stjórnarskráin heimili. Hann býður þó fram lista en aðeins í einu kjördæmi. Hann hefur breytt nafni Framfaraflokksins í „Sturla Jónsson“ og það finnst mér ágætt hjá honum því kjósendur eiga rétt á að vita að ekki er um hefðbundinn stjórnmálaflokk að ræða heldur sérframboð hans sjálfs. Með listanum er tryggt að hann eigi sér varamenn á þingi komist hann inn.

Ég horfi lítið á sjónvarp en danski þátturinn Borgen er þó meðal þess sem ég missi helst ekki af. Í þeim þáttum sem nú eru sýndir er aðalpersónan, Birgitte Nyborg, að stofna nýjan stjórnmálaflokk. Í upphafi fylktist fólk að og útkoman varð kaos og mýgrútur hugmynda sem samræmdust engan veginn. Aðalpersónan endaði á að reka alla áhugasömu sjálfboðaliðana út. Ég mæli ekki með því en spyr hvort ekki sé rétt að gera þá kröfu að stjórnmálasamtök sem hafa haft heilt kjörtímabil til að búa sig undir kosningar standi fyrir ákveðna hugmyndafræði og málefni sem séu flokknum, frambjóðendum hans og grasrótinni sameiginleg?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is