Miðvikudagur 03.04.2013 - 21:59 - FB ummæli ()

Að halda í verðtrygginguna

Nú er kosningabaráttan formlega hafin og við frambjóðendur reynum eins og við getum að tala við sem flesta um okkar hjartans mál. Eitt af mínum er afnám verðtryggingar og reyndar ætla ég líka að leiðrétta lán heimilanna.

En hvernig? er spurt. Og af hverju má ekki leyfa fólki að velja verðtryggð lán ef það endilega vill svoleiðis? Ætlum við að afnema samningsfrelsið?

Það er nauðsynlegt að útrýma verðtryggingunni úr hagkerfinu því hún lamar stjórntæki Seðlabankans, stýrivextina, því þeir bíta ekki á verðtryggðan hluta hagkerfisins og er því beitt af enn meiri hörku en ella. Því eru vextir hér mun hærri en gengur og gerist. Þá beinlínis veldur hún verðbólgu því um hver mánaðarmót verða til peningar úr engu sem bókfærast sem eign fjármálafyrirtækja þegar lánin okkar hækka og bankarnir lána þá ekki bara einu sinni út heldur margfallt. Þar með eykst peningamagn í umferð án þess að raunveruleg verðmæti verði til og það veldur verðbólgu sem svo aftur hækkar lánin. Þetta er ekkert öðruvísi en þegar gull- eða silfurpeningar voru þynntir með óæðri málmum hér áður fyrr. Þess vegna getum við ekki haldið þessu áfram auk þess sem sterkar líkur eru á að verðtryggingin sé hreinlega ólögleg eins og hún er framkvæmd.

Bent hefur verið á fjölmargar leiðir til að leiðrétta lánin og nefnum við þær nokkrar á síðu Dögunar. Uppáhaldið mitt er skiptgengisleiðin sem Friðrik Jónsson benti fyrst á en Lilja Mósesdóttir hefur líka talað fyrir sem og Hagsmunasamtök heimilanna.

Það sem mér finnst hins vegar erfitt að skilja er hvernig þeir sem vilja halda í verðtrygginguna sem og krónuna ætla að fara að því, þrátt fyrir vafa um lögmæti. Og þeir hinir sömu ætla að skapa stöðugleika í leiðinni! Væri ekki ráð að spyrja hvernig þeir ætli að fara að því?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is