Mánudagur 25.03.2013 - 23:19 - FB ummæli ()

Allt, ekkert eða lítið – staðan í stjórnarskrármálinu

Nú er pattstaða í þinginu.

Þingfundur hófst kl. 1:30 í dag og rædd voru nokkur samkomulagsmál. Næsta mál á dagskrá er „hin tárvota sáttatillaga“ Árna Páls, Katrínar Jakobsdóttur og Bjartar framtíðar. Það fæst ekki rætt. Ekki heldur málið þar á eftir; þingsályktun um skipun nefndar sem heldur málinu áfram. Þess í stað er búið að fresta fundi sex sinnum. Fyrir þinginu liggur dagskrárbreytingartillaga sem verður að taka fyrir á þessum fundi. En þessi fundur má þó samkvæmt þingsköpum ekki standa lengur en til átta. Það var fyrir nokkrum tímum. Hægt er að láta þingfund standa lengur ef samkomulag er um slíkt eða greidd um það atkvæði í þingsal. Ekkert samkomulag er og ekki var farið fram á atkvæðagreiðslu um lengd þingfundar í dag. Fundurinn er því ólöglegur en verður þó að afgreiða mál!

Þess er vandlega gætt að ræða stjórnarskrármál ekki of mikið og því er ekki fundað. Ef fundað hefði verið þessa tvo daga í síðustu viku sem ekki voru nýttir, um stjórnarskrármál væri hægt að tala um málþóf. Þess í stað erum við með mælendaskrá með nöfnum þingmanna sem enn hafa ekki komist að. Mig langar að heyra í sumum þeirra en veit ekki hvort af því verður.

En hvað er mögulegt í stöðunni? Tvær breytingartillögur hafa verið lagðar fram við tárvotu sáttatillöguna. Ég á aðra þeirra, allt plaggið eins og það kom frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Hin er frá þingmönnum stjórnarflokkana og inniber auðlindaákvæðið eins og meirihlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gekk frá því. Ég var reyndar með fyrirvara og breytingartillögu um það þar sem ég vil nota orðalagið „fullt gjald“ en ekki „eðlilegt gjald“. Í minni breytingartillögu er orðalagið „fullt gjald“ eins og stjórnlagaráð lagði upp með en að öðru leyti er ekki hnikað frá niðurstöðu nefndarinnar.

Mér finnst að þetta þing eiga að afgreiða málið í heild. Það er að mínu mati siðferðisleg skylda þeirra sem voru kjörnir, meðal annars út á þetta mál að klára það þannig að næsta þing geti afgreitt það. Hugsanlega myndi það fella málið en það yrði þá bara svo að vera. Við bindum nefnilega aldrei hendur næsta meirihluta. Það hefur verið nefnt við mig að draga breytingartillöguna til baka. Ég hef ekki verið svag fyrir því og mér finnst algjört lágmark að þingið afgreiði alla vega það sem það spurði þjóðina um í þjóðaratkvæðagreiðslunni, þ.e. beina lýðræðið, jafnt vægi atkvæða, persónukjör og auðlindaatkvæðið. Meirihluti kjósenda sagði já við öllum þessum spurningum og einnig um þjóðkirkjuna en það ákvæði er auðvitað þegar inni í stjórnarskránni. Ég hef sagt það og stend við það að mér finnst aumingjaskapur að klára þetta ekki.

Nokkrar leiðir eru hugsanlegar en málið er í hnút vegna þess að það er í raun ekki meirihluti fyrir neinni þeirra. Því þyrfti meirihlutinn að leita til sjálfstæðismanna og framsóknar eftir liðstyrk. Þar hefur verið litið til eldri tillagna þeirra um breytingarákvæðið sem felur í sér aukinn meirihluta á þingi og að 40% kosningabærra manna þyrfti svo að samþykkja nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það þýðir að ef mjótt er á mununum þyrfti tæplega 80% kosningaþátttöku. Það er að mati færustu erlendu sérfræðinga sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur fundað með og rætt málið við alltof hár þröskuldur. Þess má geta að í síðustu forsetakosningum tóku aðeins 69,3% þeirra sem voru á kjörskrá þátt. Næðist slík samstaða yrði ákvæðið væntanlega samþykkt á næsta þingi einnig en hvort það auðveldaði stjórnarskrárbreytingar er vafamál. Ljóst er að þær þyrftu þá að fara fram samhliða öðrum kosningum til að auka kjörsóknina. Slíkt er ekki æskilegt og myndi auk þess alltaf búa til tímapressu í þinginu líkt og nú er.

Önnur leið væri að gefast upp og fallast á tárvotu sáttatilöguleiðina. Til þess þyrfti Hreyfingin að vera með og væntanlega yrði að nota 71. gr. þingskapa til að ná atkvæðagreiðslu í sjötta sinn og ég fengi aldrei að hlýða á ræður þeirra þingmanna sem enn hafa ekki náð að halda sína fyrstu ræðu. Gallinn við þessa leið er að við vitum ekkert hvernig þeir sem setjast næst inn á þing og myndu væntanlega samþykkja breytinguna verða innréttaðir. Viljum við gefa þeim þessa heimild til að breyta sjálfri stjórnarskránni, í raun á hvaða veg sem þeir kjósa? Reyndar þyrfti hún að fara fyrir þjóðina líka sem er ákveðinn öryggisventill.

Eins væri hægt að samþykkja breytingarákvæðið og auðlindaákvæðið. Bent hefur verið á að þá væru minni líkur á að næsta þing myndi samþykkja stjórnarskrárbreytinguna og þá væri málið á byrjunarreit. Auðlindaákvæðið er eitt það mikilvægasta því það tryggir þjóðinni bæði eignarrétt og arð af auðlindum landsins. Einmitt þess vegna er ekki sátt um það. Sumum hentar nefnilega betur að leyfa fáum útvöldum að njóta fyrir málamyndagjald. En kannski er það ekki ókostur að minni líkur væru á að ná einhverri breytingu í gegn ef auðlindaákvæðið væri með. Næsta þing sem fær málið til afgreiðslu getur nefnilega engu breytt. Það þarf bara að taka málið til samþykktar eða synjunar. Það getur svo haldið áfram að vinna að stjórnarskrárbreytingum ef það kýs að gera það og hvaða þingmaður sem er getur lagt heildarplaggið fram og það myndi ég svo sannarlega gera. Ef breyting sem fæli í sér bæði styttri leið að breytingu á stjórnarskrá og auðlindaákvæði væri samþykkt myndi það þýða að meirihluti þings vildi að auðlindirnar væru í þjóðareigu og þjóðin ætti að fá arðinn af þeim. Slíkum meirihluta myndi ég treysta til að vinna málið áfram. Ef breytingin yrði hins vegar felld byggi sá meirihluti við sömu leikreglur og nú gilda. Því fólki, sem ekki gæti hugsað sér að samþykkja auðlindaákvæði og myndu því ganga gegn vilja 74% kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 20. október s.l., myndi ég ekki vilja hafa auðveldað að breyta stjórnarskrá vegna þess að það hefði þá sýnt að því væri engan veginn treystandi til þess.

Ef til vill er auðlindaákvæðið nauðsynlegur öryggisventill ef breyta á breytingarákvæðinu.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is