Miðvikudagur 20.03.2013 - 21:11 - FB ummæli ()

Menn eða mýs

Eftir fjögur ár á þingi kemur það manni því miður ekki á óvart hvernig staðan á þeim stað er nú í lok þessa undarlega kjörtímabils. Fyrirsagnir síðustu daga eru t.d. „Gerir ráð fyrir umræðum fram á nótt“,  „Stjórnarskrármálið komið í öngstræti“, „Vantar skýran meirihluta“, „Illa farið með tíma Alþingis“ og „Ásakanir um skemmdarverk í stjórnarskrármálinu“. Margar eru beinar tilvitnanir í orð þingmannanna sjálfra enda falla gífuryrðin á báða bóga oft á dag. Þetta gerist allt saman á þingi sem sjálft ályktaði þann 28. september 2010 „að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu“ og „að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og [Alþingi leggi] áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur“.

Það verkefni sem þingmenn standa nú frammi fyrir, þ.e. að samþykkja nýja stjórnarskrá, virðist þeim því miður ofviða. Og ekki hjálpar þegar andstæðingar málsins, svo sem Birgir Ármannsson, ræða fjálglega um það úr ræðustól þingsins að þeir séu ekki bundnir af þjóðaratkvæðagreiðslunni um stjórnarskrármálið þar sem hún hafi einungis verið ráðgefandi. Það er gríðarlega alvarlegt að þingmenn telji sig þess umkomna að hunsa vilja þjóðarinnar og sýnir enn betur mikilvægi þess að við setjum okkur ný stjórnlög þar sem fólkinu eru tryggð aukin völd og betri tæki til að veita þinginu og þingmönnum aðhald. Ég minni á að við erum í samningaviðræðum við Evrópusambandið um aðild að því. Án stjórnarskrárbreytinga verður þjóðaratkvæðagreiðslan um samninginn einungis ráðgefandi. Og á Alþingi sitja þingmenn sem segjast ekki bundnir af ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslum.  Sú staða er óásættanleg.

Nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar virðist álíta það æðsta form jafnaðarmennsku að láta valta yfir sig. Hann virðist alls ekki vilja nota þann möguleika sem er innbyggður í þingsköp að meirihluti þingsins geti stöðvað málþóf og krafist atkvæðagreiðslu um mál. Ég hef nú verið á mörgum fundum um ævina en þingfundirnir eru þeir einu þar sem ekki þykir við hæfi að stöðva endalausar umræður um ekki neitt. Að mínu mati er það ekki ofbeldisverk að stöðva umræðu sem komin er út í rugl. Það er nauðsynlegt. Þessi grein þingskapanna hefur þó ekki verið notuð síðan 1949 og feimnin við hana því ekki nýtilkomin.

Nú má enginn skilja mig með þeim hætti að ég vilji að ekkert sé hlustað á minnihlutann og að hann eigi engu að ráða. Svo er ekki. Stjórnarandstaðan á hverjum tíma gegnir mikilvægu hlutverki í lýðræðissamfélagi. Hennar er að benda á það sem betur má fara og hún þarf að hafa neyðarhemil til að grípa í þegar í óefni stefnir. Hún á hins vegar ekki að troða upp í þingsal allan sólarhringinn, koma í veg fyrir að stjórnvöld komi málum sínum í gegn og í raun taka sér neitunarvald í öllum málum. Og samkvæmt þingsköpum á hún einmitt ekki að hafa það. Sá meirihluti sem setið hefur þetta kjörtímabil virðist hins vegar alls ekki hafa manndóm í sér til að stöðva málþófið.

Í síðustu Alþingiskosningum fengu þau framboð sem vildu nýja stjórnarskrá 76,3% atkvæða. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 20. október s.l. vildu 2/3 kjósenda að tillögur stórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá og kjósendur sögðu já við öllum hinum spurningunum líka. Getur umboð Alþingis til að klára málið orðið skýrara? Hvort erum við menn eða mýs?

Greinin birtist fyrst í DV 20. 3. 2013.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is