Þriðjudagur 19.03.2013 - 22:43 - FB ummæli ()

Samræðu- og sáttapólitík

Nú hefur ný kynslóð formanna stjórnmálaflokka stigið fram á sjónarsviðið, nýir, ungir og ferskir og allt verður strax betra … eða hvað?

Klukkan 19:57 í kvöld barst mér eftirfarandi tölvupóstur:

Forseti vill upplýsa þingmenn um eftirfarandi:
 
Samkomulag er um að í kvöld verði eftirfarandi mál tekin á dagskrá og rædd, en atkvæðagreiðslu um þau að lokinni umræðu verður frestað:
4. Tekjuskattur, 670
5. Starfsmannaleigur, 606.
6. Sameining rannsóknanefnda, 609.
8. Almenn hegningarlög
10. Niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar
12. Efnalög
15. Alþjóðleg þróunarsamvinna
18. Lokafjárlög
28. Þjóðminjasafn
31. Gjaldeyrismál
 
Jafnvel verða tekin nokkur mál í viðbót, það mun koma í ljós síðar í kvöld.
 
með kveðju,
Þetta er nokkuð sérstakt þar sem Hreyfingin er þingflokkur á Alþingi og venjan er að þegar svonefndu samkomulagi er náð sé það í samráði við þingflokksformenn. Hreyfingin er einmitt með einn slíkan, Birgittu Jónsdóttur og meira að segja tvo til vara, mig sem er varaformaður og Þór Saari sem gegnir virðulegu embætti ritara.
86. grein þingskapalaga hljóðar svo:

Forseti skal hafa reglulega samráð við formenn þingflokka, eða fulltrúa þeirra, um skipulag þingstarfa og leggja fyrir þá til umfjöllunar starfsáætlun þingsins og áætlanir um þingstörf hverrar viku.
Enn fremur skal forseti hafa samráð við formenn þingflokka um fyrirkomulag umræðna um mikilvæg mál ef ætla má að umræður verði miklar. [[Forseti getur þá, með samþykki allra þingflokka, ákveðið áður en umræða hefst að ræðutími skuli vera annar en þingsköp ákveða, svo og hve lengi umræðan má standa. Þegar þannig er samið milli þingflokka um umræðutíma skal skipta honum sem næst því að hálfu jafnt milli þingflokka og að hálfu skal hafa hliðsjón af því hve margir þingmenn eiga aðild að hverjum þingflokki, en forseti ákveður þá ræðutíma þingmanna utan flokka.]2) Um slíka ákvörðun skal þó leita samþykkis þingfundar ef a.m.k. þrír þingmenn krefjast þess.]3)
Forseti og forsætisnefnd skulu leita samráðs við formenn þingflokka um þær reglur sem þeim er falið að setja samkvæmt lögum þessum.]4)
Forseti skal sjá um að þingflokkum og einstökum þingmönnum innan þeirra sé búin starfsaðstaða og hafa um það samráð við formenn þingflokkanna. Sama gildir um þingmenn utan flokka.

Í þetta skiptið var ekki leitað samráðs við Hreyfinguna, þingflokksformann hennar, varaþingflokksformann né ritara. Þingmönnum Hreyfingarinnar var heldur ekki boðið á fund formanna flokkana sem haldinn var í dag.

Það má segja ýmislegt um stjórnunarstíl Jóhönnu og Steingríms sem er hvorki ungur né ferskur en þau höfðu þó á langri pólitískri ævi lært að það er ljótt að skilja útundan. Síðustu fjögur ár hafa samningaviðræður í þinginu aldrei farið fram án þess að Hreyfingin ætti fulltrúa við borðið. Þar til nú. Til hamingju Ísland með „leiðtoga framtíðarinnar“.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is