Mánudagur 18.03.2013 - 20:46 - FB ummæli ()

Töfrabrögð og skuldir

Síðastliðið laugardagskvöld sat ég að spjalli með vini mínum. Hann sagði mér að þann mánuðinn hefði hann fengið 340.000 krónur útborgaðar eftir skatta. Hann býr með konu sinni og dóttur í þriggja herbergja íbúð sem þau keyptu árið 2000, áttu þá 5 milljónir en tóku restina að láni til 20 ára. Nú þegar þau hafa borgað eftir bestu getu í tæp 13 ár eiga þau ekki neitt í íbúðinni, hafa neyðst til að lengja lánið þannig að enn á eftir að greiða af því næstu 14 árin og samkvæmt síðasta greiðsluseðlinum voru verðbæturnar á lánið þann mánuðinn 380.000 krónur eða kr. 40.000 hærri en útborguð laun vinar míns.

Hvaðan komu þessar 380.000 krónur, hvernig urðu þær til? Þær urðu til í tölvukerfi bankans og juku eign hans að sama skapi. Bankinn getur svo lánað þær út, ekki bara einu sinni heldur nokkrum sinnum. Við hverja lánveitingu eykst peningamagn í umferð án þess að raunveruleg verðmæti samfélagsins aukist og það eykur verðbólguna og hækkar verðtryggðu lánin okkar.

Þetta eru sannkölluð töfrabrögð, reyndar bara í þágu fjármagnseigenda. Fyrir okkur hin er þetta þrældómur.

Látum engan segja okkur að ekki sé hægt að afnema verðtryggingu. Verkefnið er að koma hér á efnahagskerfi án töfrabragða.

 

* Viðbót 19. mars 2013 kl. 9:32: Nokkrir hafa efast um söguna hér í athugasemdakerfinu. Fram kemur að viðkomandi hafi greitt „eftir bestu getu“ eins og það er orðað í þrettán ár en neyðst til að lengja í láninu. Rétt er að það komi fram að þær skuldir sem nú hvíla á íbúðinni eru ekki eingöngu tilkomnar vegna hins upphaflega húsnæðisláns heldur hafa erfiðleikar á borð við atvinnumissi spilað inn í. Það breytir ekki punktunum: Skuldir sem hvíla á hóflegri þriggja herbergja íbúð eru ekki sjálfbærar, þ.e. meira bætist við höfuðstóllinn en af honum er greitt og maður með ágæt laun á ekki séns að halda í við verðbæturnar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is