Föstudagur 15.03.2013 - 23:21 - FB ummæli ()

Traust

Ekkert er eins brothætt og traust. Það tekur langan tíma að byggja það upp og lítið feilspor getur rústað því. Alþingi er rúið trausti eftir það sem gengið hefur á síðustu misserin. Sennilega væri eitthvað að þjóðinni ef það treysti þinginu og stjórnmálamönnum eftir það sem á undan er gengið. En ástandið er óviðunandi og verður að breytast.

Margt hefur farið miður á þessu kjörtímabili þótt við höfum ekki þurft að upplifa álíka hamfarir og á því sem var á undan. Ég mun aldrei fyrirgefa það hvernig bankarnir hafa verið endurreistir á kostnað skuldsettra heimila og ekki heldur að tækifærin til að leiðrétta forsendubrestinn sem olli stökkbreytingu lánanna okkar skulu ekki hafa verið nýtt. Ég mun aldrei fyrirgefa það að heil kynslóð fólks er nú tæknilega gjaldþrota, eignir hennar og ævisparnaður hefur gufað upp. Allt þetta má skrifa á núverandi stjórnvöld.

Það er hins vegar ekki hægt að segja að ríkisstjórnin beri ábyrgð á því að hugsanlega séum við að glutra niður einstöku tækifæri til að endurskoða stjórnarskrána í heild sinni. Stjórnarskráin er mál fólksins og mál þingsins, ekki ríkisstjórnarinnar.

Eftir að rannsóknarnefnd Alþingis hafði skilað skýrslu sinni fór fram mikil og merkileg vinna í þinginu. Markmiðið var að læra af skýrslunni og tryggja að aldrei aftur gæti svona nokkuð gerst. Við ætluðum að bæta okkar vinnubrögð og verkferla, bæta stjórnmálamenninguna og fara yfir þá löggjöf sem nauðsynlegt var talið að laga. Alþingi ályktaði þann 28. september 2010 í kjölfar þeirrar vinnu og þar stendur meðal annars:

„Alþingi ályktar að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.

Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur.“

Þingið samþykkti einnig að fram skyldi fara endurskoðun á hinum ýmsu lögum á tilgreindum sviðum. Þar var endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins að sjálfsögðu fyrst nefnd. Þeirri endurskoðun virðist þingið nú vera að klúðra sem eykur vart á traust þess.

Og maður hlýtur að spyrja, hvað sé að þessu þingi? Af hverju getur þingið ekki klárað þetta mál? Ég á sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og málið er fullbúið. Við höfum fengið til okkar færustu sérfræðinga, innan lands og utan og velt við hverjum steini. Menn segja að það sé ekki tími til að klára málið en það er rugl, það er víst tími. Af hverju skyldu þingmenn ekki vinna út kjörtímabilið?

Það væri þyngra en tárum taki ef Alþingi tekst ekki að samþykkja málið á þessu þingi. Auðvitað þarf það næsta að samþykkja líka en þá geta kjósendur líka valið flokka í næstu kosningum eftir því hvar þeir standa í þessu máli. Þrír þingmenn í formannsbrókum hafa lagt fram fallega þingsályktun um að klára málið á næsta kjörtímabili. Ég spyr, af hverju ættu kjósendur að treysta því að nýtt þing ynni eftir henni þegar reynslan frá 28. september 2010 sýnir að þingmenn virða ekki einu sinni eigin ályktanir.

Og traust á Alþingi mun ekki vaxa á meðan það stendur ekki við eigin ályktanir og skuldbindingar.

Greinin birtist fyrst í DV 13. mars 2013 undir fyrirsögninni „Alþingi er rúið trausti“.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is