Miðvikudagur 13.03.2013 - 12:03 - FB ummæli ()

Millistétt á klettasyllu

Fyrir stuttu barst mér bréf sem mér finnst lýsa stöðu og margra í kringum mig vel. Ég birti hér hluta úr því með leyfi bréfritara. Persónugreinanlegum atriðum hefur verið breytt.

Ég er kennari til 15 ára  ásamt því að vera að bæta við mig meistaragráðu.  Konan mín er háskólamenntuð og í góðri stöðu hjá stóru fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Við erum mjög heppin að því leyti að við höfum haldið atvinnu okkar allan tíman frá hruni. Það sem hinsvegar hefur hitt okkur illa fyrir eru þær stórkostlegu hækkanir sem hafa orðið á verðtryggðum lífeyrissjóðslánum okkar. Langt umfram allar launahækkanir.

Fyrir nokkrum árum vorum við hjónin við nám í Svíþjóð einn vetur og leið mjög vel þar. Það var aldrei spurning hvort við kæmum heim en nú eru farnar að renna á okkur tvær grímur. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að það eigi að láta okkur fyrir róða. Erum við fjölskyldan ásættanlegur fórnarkostnaður?  Og fyrir hvað?

Við tölum öll sænsku og með góða menntun og gott tengslanet. Við gætum gefið allt upp á bátinn hér og byrjað upp á nýtt í nágrannalandi og samt borgað fasteignalán okkar fyrr niður en núverandi lán sem við höfum borgað af í 5 ár. Er það eðlilegt?

Er eðlilegt að höfuðstóll láns hækki um u.þ.b. kr. 400.000 í einum mánuði þrátt fyrir að þú borgir af því um kr. 180.000?

Millistéttin er fallinn fram af bjargbrún og situr á klettasyllu.

Það þýðir ekki að segja að „Haltu þér fast, björgunarsveitin (ESB) kemur eftir nokkur ár!“ Við þurfum úrræði núna.

Það þýðir ekki að senda fólki nesti niður á sylluna (skattafsláttur, séreignasparnaður).

Við eigum þessar fínu björgunarsveitir og það þarf bara að láta reipi að síga niður á sylluna og toga fólk upp.

Ég er ekki að segja að afnám verðtryggingar sé svarið. En það þarf að leiðrétta þennan forsendubrest.

Annars munum við missa fólk á besta aldri til annarra landa sem taka fagnandi á móti öllum þessum mannauð og bjóða þeim sanngjarnt umhverfi að búa í.

Kær kveðja,

X

Ég gæti ekki verið meira sammála. Við þetta verður ekki búið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is