Mánudagur 11.03.2013 - 23:35 - FB ummæli ()

Í lok dags

Í dag var tillaga Þórs Saari um vantraust á ríkisstjórnina loks afgreidd og felld. Það kom svo sem ekki á óvart þó ég hefði gert ráð fyrir minni mun og jafnvel að tillagan félli á jöfnu. Þetta var óttalegt leikrit eins og svo margt annað sem við höfumst að í þinginu og það er auðvitað heilmikið til í því að á síðustu dögum þinsins sé tímanum ekki vel varið í svona lagað. Á móti má benda að á föstudaginn stóð yfir töluvert lengri umræða um frumvarp um dreifingu á gjalddögum, svo nauðaómerkilegt mál að efnahags- og viðskiptanefnd var sammála um að skila inn  nefndaráliti upp á fimm línur þar sem lagt var til, fyrirvaralaust, að málið yrði samþykkt óbreytt. Það er því ljóst að tíminn og nýting hans er afstæð á Alþingi og umræðan um vantraust hafði í það minnsta meira skemmtigildi en sex og hálf klukkustund um tolla og vörugjöld.

Þór var alveg á eigin vegum með þetta vantraust. Hvorki ég né Birgitta studdum framlagninu þess. Ég skil hins vegar af hverju hann gerði það og ég studdi það í atkvæðagreiðslu enda mun ég aldrei geta fyrirgefið þessari ríkisstjórn að hafa endurreist bankakerfið á kostnað skuldsettra heimila. Mér fannst það hins vegar ekki tímabært vegna þess að ég er ekki búin að gefast upp í þessu máli þótt Þór sé orðinn úrkula vonar um að ný stjórnarskrá verði samþykkt á þessu þingi. Ég er hins vegar þrjóskari en andskotinn. Ég neita að trúa því að stjórnarþingmenn og þeir þingmenn utan flokka sem segjast styðja málið ætli að svíkja loforð sín og ganga gegn skýrum vilja meirihluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu. En ég treysti líka á þrýsting frá venjulegu fólki, að það láti þingmenn vita að það láti ekki bjóða sér svona framkomu.

Það liggur fyrir að málið er fullbúið. Það er þessa þings að ræða það og samþykkja til að mynda pressu á það næsta að samþykkja það líka. Þannig gerum við stjórnarskrána að kosningamáli. Ekki með tárvotum draumum um sjötugsafmæli á Þingvöllum.

Þetta mál er ekki búið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is