Sunnudagur 10.03.2013 - 23:49 - FB ummæli ()

Skuldamál heimilanna + ný stjórnarskrá = Sönn ást

Það gengur á með ýmsu. Kosningaloforð um minna vesen hljóma kannski freistandi en eru því miður ekki raunhæf því hér er allt í steik. Eftir hrunið var bankakerfið endurreist í nánast óbreyttri mynd með útblásnum skuldum heimilanna og vogunarsjóðum afhent skotleyfi á þau. Það gengur ekki en það kostar vesen að breyta því. Og enn meira vesen ef við ætlum að hafa það þannig. Og stjórnmálin og stjórnkerfið er í molum. Það þarf að laga. Sem er vesen. Svo er það snjóhengjan ógurlega, gjaldeyrishöftin og blankheit ríkissjóðs. Þetta er tómt vesen og verður næstu árin. Það er eins gott að horfast bara í augu við það.

Ég hef verið í stjórnmálum í fjögur ár. Lungan úr þeim tíma hefur fólk komið að máli við mig vegna þess að það hefur viljað sameina öll öfl utan fjórflokksins í eitt. Ég viðurkenni að ég hef verið treg í taumi.

Við tölum gjarna um fjórflokkinn en jafnan hafa flokkarnir verið fimm og jafnvel sex. Í þeim fimmta eru óánægðir. Óánægðir með kvótakerfið, óánægðir með Sjálfstæðisflokkinn, óánægðar með karlveldið og óánægðir með hrunið.  Ég hef viljað sjá nýtt landslag í íslenskum stjórnmálum þannig að nýir flokkar byggi á dýpri hugmyndafræði og stefnumörkun en óánægju með það sem fyrir er. Og þá dugar ekki að sammælast um lægsta samnefnara og láta gott heita. Ég myndi vilja sjá nýjan hægri flokk, nýjan kommaflokk, landsbyggðarflokk og raunverulegan græningjaflokk. Ekki vegna þess að ég ætli sjálf að vera í þeim öllum heldur vegna þess að ég vil raunverulegar breytingar og mér finnst að fólk eigi að geta fundið skoðunum sínum farveg í nýjum flokkum alveg óháð því hvort ég sé sammála þeim. Ef við höldum áfram að kjósa fjórflokkinn þá breytist ekkert.

En svo er það raunveruleikinn. Hvenær erum við að deila kröftum okkar of víða? Og hér er svokölluð 5% regla við lýði (eitt af því sem myndi breytast með nýrri stjórnarskrá) en hvergi á byggðu bóli er hærri þröskuldur fyrir framboð til að ná inn á þing. Og þá er spurning hvort ekki sé rétt að fólk vinni saman, sérílagi ef það er svona frekar sammála en hitt.

Fyrir einu og hálfu ári hófust þreifingar á órólega væng íslenskra stjórnmála. Á aðalfundi Borgarahreyfingarinnar var samþykkt tillaga þess efnis að reynt væri að fara í samstarf við fleiri stjórnmálaöfl og einstaklinga með framboð í huga. Við borðið settust auk BH, Hreyfingin, Frjálslyndi flokkurinn, auk einstaklinga úr stjórnlagaráði. Fleiri ráku reyndar inn nefið og enn fleiri var boðið að borðinu. Dögun fæddist. Formið á Dögun var vísvitandi haft þannig að auðvelt yrði fyrir fleiri samtök að ganga til liðs við okkur.

Síðan þá höfum við verið iðin við kolann og mikil vinna hefur farið í stefnumótun og hugmyndavinnu í lýðræðislegu ferli enda lítum við svo á að stjórnmálasamtök eigi að snúast um stefnu og hugmyndafræði en ekki einstakar persónur. Við höfum verið að vanda okkur og sú stefna sem er að líta dagsins ljós og verður fullunnin og samþykkt á landsfundi næstu helgi er afrakstur samræðu margra.

Eins og landsmenn hafa tekið eftir verða framboð fyrir næstu alþingiskosningar fleiri en oft áður. Ég held að það sé ágætt því nýjum flokkum fylgir gróska og frjósemi sem gagnast okkur öllum, hvort sem flokkarnir ná þeim árangri að fá menn kjörna eður ei. Við hljótum samt að spyrja okkur hvort einhverjum þessara nýju afla væri ekki betur borgið með nánari samvinnu, ýmist samruna eða kosningabandalagi. Nú þegar málefnin liggja í grófum dráttum fyrir er ekki erfitt að sjá að í sumum tilfellum er meira sem sameinar en sundrar.

En ýmislegt hefur líka verið gert til þess að sundra grasrótinni. Því hefur t.d. verið haldið fram að ný stjórnarskrá sé á kostnað skuldamála heimilanna og jafnvel gefið í skyn að þingið sé svo upptekið af henni að það hafi ekki haft tíma til að leiðrétta skuldir heimilanna og afnema verðtryggingu. Það er fjarri lægi. Á Alþingi hefur einfaldlega ekki verið meirihluti fyrir því að fara í nauðsynlegar aðgerðir til að leiðrétta forsendubrestinn og afnema verðtryggingu. Ætli mönnum hafi ekki þótt það of mikið vesen. Það kemur nýrri stjórnarskrá ekkert við. Hún er hins vegar bráðnauðsynleg því hún tekur á þeim gríðarlega kerfisvanda sem við erum að glíma við.

Við verðum að laga Ísland. Það verður ekki gert án réttlætis og sanngirni í lánamálum heimilanna. En ný stjórnarskrá er ekki gæluverkefni heldur lífsnauðsynlegur samfélagssáttmáli sem veitir borgurunum réttindi og setur stjórnvöldum skýran ramma. Og síðast en ekki síst tryggir hún þjóðinni arðinn af auðlindunum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is