Mánudagur 04.03.2013 - 19:20 - FB ummæli ()

Loforðið

Nú eru að verða komin fjögur og hálft ár síðan allt hrundi. Síðan þá hefur margt breyst en þó ekki. Ýmislegt hefur gerst en samt erum við enn á byrjunarreit í margvíslegum skilningi. Ég vona að enginn móðgist þótt ég líki hruninu og afleiðingum þess fyrir íslensku þjóðina við áfall, sorg og sorgarferli. Þannig upplifði ég það að minnsta kosti. Þótt ýmsar blikur hafi verið á lofti þá kom það sem reiðarslag. Allt sem við höfðum tekið sem gefinn hlut reyndist byggt á lygi. Allir sem við treystum til að gæta hags okkar virðast hafa brugðist. En einhvern tímann verðum við að setja punkt og horfa fram á veginn.

Sorgarferlið

Þótt enginn bregðist nákvæmlega eins við áfalli hefur sorgarferlið verið skilgreint og framvinda þess virðist svipuð hjá flestum. Fyrsta kemur lost eða vantrú – fólk á erfitt með að trúa því að þetta hafi í raun og veru gerst. Næst kemur viðbragðastig þar sem fólk neyðist til að horfast í augu við raunveruleikann og reyna að skilja hann. Þriðja stigið er úrvinnsla og það fjórða skilningur. Hvort tveggja lýsir ágætlega því sem unnin var með skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og umræðum í kjölfarið sem, vinnu sérstaks saksóknara sem við sjáum enn ekki fyrir endann á og vinnunni við nýja stjórnarskrá. Fimmta stigið er svo sátt. Og þangað erum við ekki komin enn.

Öll í sama báti

Þegar ég settist inn á þing trúði ég ekki öðru en að nú tæki samhentur hópur saman höndum og færi að moka flórinn. Það blasti við að hagsmunir okkar allra færu saman. Nú þyrftum við að horfa á heildina. Hagsmunir eða staða einstakra manna skiptu ekki máli í því samhengi. Það er einmitt þannig sem rústabjörgun fer fram. Eða loðnuvertíð ef menn vilja þá líkingu frekar.

Biðraðirnar endalausu

Að halda að allir myndu róa í sömu átt var fremur barnalegt af mér. Á þingi eru mörg stór egó og ýmsir hagsmunir sem toga í spotta bak við tjöldin. Svo finnst sumum ágætt að halda málum bara í endalausu ferli. Það hafa verið örlög margra mála sem ýmsum finnst ljómandi gott að fá ekki niðurstöðu í. Lausnin á skuldavanda heimilanna var að senda alla í röðina hjá umboðsmanni skuldara (ja nema kúlulánafólkið sem fékk skuldastöðu sína “lagaða að greiðslugetu” eins og það var kallað). Og fiskveiðistjórnunarmálum var skipað í nefnd á nefnd ofan og svo kom út niðurstaða sem var þvert á öll loforð um innköllun kvótans. Og svo er það stjórnarskráin. Langt ferli sem menn virðast ætla að láta stranda á ímynduðum tímaskorti vegna þess að þeir vilja ekki atkvæðagreiðslu um málið.

Loforðið

Fyrir fjóru og hálfu ári, þegar allt hrundi og við sáum að líf okkar var byggt á blekkingum lofaði ég sjálfri mér að gera allt sem ég gæti til að laga Ísland.  Ég elska landið mitt og þá þjóð sem hér býr. Hér vil ég búa og hér vil ég að börnin mín og systkinabörn geti vaxið úr grasi og lifað í réttlátu samfélagi þar sem sátt ríkir um skiptingu lífsins gæða og þar sem allir sitja við sama borð. Ný stjórnarskrá er sáttmálinn okkar, lýsing á því hvernig við viljum hafa samfélagið okkar. Hún var sáttaboð stjórnarflokkanna sem og Framsóknarflokksins og Borgarahreyfingarinnar fyrir síðustu kosningar. Stendur það loforð?

Mitt loforð stendur.

Greinin birtist fyrst í DV 4. mars 2013.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is