Sunnudagur 03.03.2013 - 21:30 - FB ummæli ()

(Ó)lán og vextir

Ég vil afnema verðtrygginguna en það er ekki nóg. Það er okkur lífsspursmál að koma hér á heilbrigðu lánaumhverfi að hætti siðmenntaðra þjóða. Unga fólkið okkar kærir sig ekki um að vera skuldaþrælar, millistéttin er að kikna og ævisparnaður heillrar kynslóðar er gufaður upp.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er að finna fögur fyrirheit um að “dregið verði úr vægi verðtryggingar í lánaviðskiptum samhliða auknu framboði óverðtryggðra íbúðalána.” Með góðum vilja má segja að við þetta loforð hafi verið staðið. Vissulega hafa fjármálafyrirtæki farið að bjóða óverðtryggð lán og margir hafa skipt yfir, ýmist úr áður gengistryggðu láni eða verðtryggðu. Mörgum hefur þó verið hafnað vegna þess að þeir hafa ekki staðist greiðslumat.

Sá munur er á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum að í þeim síðarnefndu eru vextirnir staðgreiddir. Og samkvæmt þeim skilmálum sem mér skilst að bankarnir séu að bjóða núna þá getur hann einhliða hækkað vextina að einhverjum tíma liðnum. Af þessu hef ég miklar áhyggjur, ekki síst eftir að hafa setið opinn fund með seðlabankastjóra og aðalhagfræðingi bankans nýlega. Þar voru þeir nefnilega meðal annars að fjalla um verðbólguhorfur og stýrivexti. Og horfur eru á hárri verðbólgu og háum stýrivöxtum. Sérstaklega var rætt að þar sem stýrivextirnir væru frekar glatað hagstjórnartæki þyrfti að beita þeim af meiri hörku. Lántakendur hinna óverðtryggðu lána geta því átt von á hraustlegri vaxtahækkun þegar fjármálafyrirtækið má breyta vöxtum sínum ef ekkert er að gert. Og munu þeir geta staðið undir því að greiða þá?

En af hverju virka stýrivextirnir ekki til að slá á þenslu? Ólafur Margeirsson hagfræðingur hefur fjallað töluvert um það í pistlum sínum á Pressunni. Það er einmitt vegna allra verðtryggðu lánanna. Þeir sem eru með verðtryggð lán eru í skjóli, þótt það skjól sé álíka skammgóður vermir og að pissa í skóinn sinn. Greiðslubyrði lána þeirra þyngist ekki í réttu hlutfalli við vexti og verðbætur, þeir greiða alltaf hlutfallslega jafnháa greiðslu þótt lánið sjálft hækki, því vextir og verðbætur umfram greiðsluna bætast við höfuðstólinn eins og nýtt lán.

Staðan er því sú að eitt tæki Seðlabankans virkar ekki þar sem stór hluti landsmanna er með sínar helstu lánaskuldbindingar í verðtryggðum lánum og því virkar hækkun stýrivaxta ekki til að slá á þenslu. SÍ þarf því að beita stýrivöxtunum “af hörku” eins og það var orðað. Vextir verða því háir og áfram gert ráð fyrir töluverðri verðbólgu sem gerir fyrirtækjum erfitt fyrir og dýrtíðin eykst. Og fólkið með óverðtryggðu lánin getur átt von á myndarlegum “glaðningi” þegar bankinn má hækka vexti.

Það sér hver maður að þetta gengur ekki upp. Það dugar ekki að “draga úr vægi verðtryggingar” – við verðum að losna við hana alveg. Það eru ástæður fyrir því að aðrar þjóðir hafa ekki boðið þegnum sínum upp á svona lánaumhverfi og margt bendir til þess að það standist ekki lög. Látum engan segja okkur að verðtryggingin sé ekki vandamál, látum engan segja okkur að hún sé nauðsynleg, látum engan ljúga því að okkur að hún sé sniðug uppfinning. En afnám verðtryggingar er ekki nóg, ein og sér. Við þurfum að byggja upp sambærilegan lánamarkað og fyrirfinnst í flestöllum öðrum löndum þar sem hagsmunir neytenda eru í fyrirrúmi.

Greinin birtist fyrst á vefritinu www.svipan.is 2. mars 2013.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is