Laugardagur 02.03.2013 - 14:50 - FB ummæli ()

Listin að fresta

Í hádegisfréttum RÚV lýsti hinn nýbakaði formaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason (sá hinn sami og Árna Páls-lögin eru kennd við) því yfir að ekki takist að klára stjórnarskrármálið á þessu þingi.

Mig minnir að það hafi verið Henri Queuille sem sagði að stjórnmál væru list þess að fresta ákvörðunum þangað til þær skiptu ekki lengur máli. Ef þau orð hafa einhverntímann átt við þá er það í stjórnarskrármálinu. Málið í heild og öll sú vinna sem í það hefur verið lögð, og hún byggir á áratuga starfi ýmissa nefnda og sérfræðinga, hefur markvisst verið töluð niður. Það finnst mér ekki sanngjarnt og raunar harla ómerkilegt. Ótal steinar hafa verið lagðir í götu málsins, það tafið og öllum brögðum beitt til að koma því í tímaþröng.

En er málið í tímaþröng í þinginu? Þegar hefur verið talað um nýja stjórnarskrá í þinginu í um 130 klukkustundir frá 2009. Allar nefndir þingsins hafa haft málið á sínu borði, rýnt einstaka þætti þess og skilað niðurstöðum. Leitað hefur verið til sérfræðinga, innanlands sem utan og athugasemdir þeirra teknar til greina. Fyrir liggja ítarleg lögskýringagögn í formi nefndarálita. Og kosningar verða ekki fyrr en 27. apríl. Andskotinn hafi það, það er nægur tími til að klára þetta mál ef menn vilja.

Og þá hljótum við að spyrja okkur hvort það sé kannski einmitt málið. Vilja menn ekki nýja stjórnarskrá þar sem auðlindir eru í þjóðareigu (og erfiðara að gauka þeim að styrktaraðilum), atkvæðavægi er jafnt og völd hins almenna borgara eru aukin? Vilja menn ekki sýna raunverulega afstöðu sína í þingsal?

Ef það er rétt segir það ansi mikið um Árna Pál. Og þá blasir það við að eini munurinn á Árna Páli Árnasyni og Bjarna Benediktssyni er sá að Bjarni siglir ekki undir fölsku flaggi. Við vitum alveg hverjum hann gegnir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is