Miðvikudagur 27.02.2013 - 11:48 - FB ummæli ()

Þorum að breyta

Hér varð hrun, ekki svokallað, heldur alvöru. Og það var ömurlegt enda miklu skemmtilegra að halda að maður sé ríkur og allir vegir færir en að horfa á aleiguna gufa upp í verðbólguskoti, missa vinnuna eða sjá á eftir vinum og ættingjum flýja land. En í hruni felast líka tækifæri og frelsi til að hugsa hlutina upp á nýtt og byggja upp eins og við helst viljum.

Í öllu óðagotinu vildum við ríkisstjórnina burt en gleymdum að segja hvað við vildum í staðinn. Og árið 2009 kusum við of snemma því við áttuðum okkur ekki fullkomnlega á hvað hafði gerst eða hvar ábyrgðin lá. Og hlutirnir gerðust hratt og tíminn til að búa til nýja stjórnmálaflokka var af skornum skammti. Árið eftir, þegar rannsóknarnefnd Alþingis hafði skilað okkur skýrslunni góðu skildum við loks hvernig í þessu öllu lá. Enda fékk fjórflokkurinn skell í sveitarstjórnarkosningunum stuttu síðar.

Í næstu kosningum ætlum við aftur að kjósa fólk til að sinna samfélagsþjónustu á Alþingi. Það hefur sýnt sig að fjórflokkurinn getur ekki ráðist í nauðsynlegar breytingar vegna þess að hann er hluti af vandanum og þótt þar sé víða gott fólk sem reynir sitt besta liggja ræturnar of djúpt í Gamla Íslandi. Því finnst mér við þurfa að skapa nýtt landslag í íslenskum stjórnmálum. Kjósendur eiga að geta valið nýtt fólk og nýja flokka sem ekki eru múlbundnir hagsmunaöflum eins og þeir gömlu. Og rétti tíminn er núna. Nú þegar hefur það frjóa starf sem unnið er í grasrótinni borið ávöxt og nokkrir nýir flokkar litið dagsins ljós. Einn þeirra heitir Dögun – Stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Þar hefur verið mótuð kjarnastefna sem felur í sér lýðræðisumbætur, öflugar aðgerðir í þágu heimilanna, uppstokkun á stjórn fiskveiða og skipan auðlindamála, siðvæðingu stjórnsýslu og fjármálakerfisins og lagalegt réttlæti og uppgjör við hrunið. Fjöldi málefnahópa eru svo að störfum sem eru að móta heilsteypta stefnu á fleiri sviðum og eru þeir opnir öllum sem vilja taka þátt í að byggja nýtt og réttlátara samfélag.

Mig langar að hvetja þig sem þetta lest til að gefa nýju flokkunum séns. Ég trúi því að fólk geti starfað í stjórnmálum af hugsjón og áhuga en ekki til að mylja undir sjálft sig. Ég trúi því vegna þess að ég hef tekið þátt í þannig starfi og veit hvað það er sem knýr fólk áfram. Valið er í raun einfallt: Ef við viljum áfram Alþingi sem nýtur einungis traust 10% þjóðarinnar skulum við kjósa flokka sem hafa þjálfað sitt fólk í að rífast, tefja framgöngu allra mála og fylgja foringjanum. Ef við viljum alvöru breytingar hljótum við að velja einhvern nýjan valkost. Það þarf hugrekki til að breyta, jafnvel þótt núverandi ástand sé óbærilegt. Hefur þú það?

Greinin birtist fyrst á vefritinu Svipan.is 24. febrúar 2013.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is