Miðvikudagur 20.02.2013 - 11:56 - FB ummæli ()

Ef lygin er endurtekin nægilega oft …

Morgunblaðið gerir enn eina tilraun til að jarða stjórnarskrármálið í dag. Stærsta fyrirsögnin á forsíðunni er tilvitnun í Vigdísi Hauksdóttur, „Stjórnarskrármálið búið“. Í „frétt“ á mbl.is er rætt við Vigdís og eru orð hennar samhljóma því sem birtist á prenti. Vigdís segir:

„Málið er í raun og veru búið. Ég held að allir viðurkenni það en því er haldið í öndunarvél vegna stuðnings Hreyfingarinnar við þessa ríkisstjórn,“

Og svo:

Hún segir engar viðræður fara fram um framhald málsins, fregnir um það í fjölmiðlum hafi aðeins verið spuni. Í tillögu sem lögð var fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í gær er gert ráð fyrir fjórðu breytingu meirihlutans á auðlindaákvæði stjórnarskrárfrumvarpsins.

Nú er ég því vön að gera þurfi fyrirvara við orð Vigdísar. Hins vegar hljóta það að vera nýmæli þegar engin að fjórum setningum sem hafðar eru eftir henni, ýmist beint eða óbeint eru sannar.

Leiðrétting númer 1: Málið er ekki búið.

Leiðrétting númer 2: Hreyfingin styður ekki ríkisstjórnina og er ekki með hana í öndunarvél. Hreyfingin styður öll góð mál, hvaðan sem þau koma. Hreyfingin hefur t.d. átt gott samstarf við Framsóknarflokkinn um skuldavanda heimilanna og afnám verðtryggingar og sömuleiðis í ICESAVE-málinu, þar stóðu bæði Hreyfingin og Framsókn upprétt allan tímann og það án þess að Hreyfingin væri með Framsókn í öndunarvél.

Leiðrétting númar 3: Það hafa víst verið viðræður á milli Framsóknar og stjórnarflokkanna. Framsókn sendi Ágúst Þór Árnason og Skúla Magnússon fyrir sína hönd. Þeir Ágúst Þór og Skúli áttu sem kunnugt er sæti í stjórnlaganefndinni sem m.a. undirbjó þjóðfundinn og skilaði afar góðri skýrslu til stjórnlagaráðs sem það byggði sína vinnu á. Framsókn virðist sem sagt vilja sniðganga allt sem hefur verið unnið í málinu síðustu tvö árin eða svo; Þjóðfundinn, kosningar til stjórnlagaþings, störf stjórnlagaráðs, þjóðaratkvæðagreiðsluna og alla vinnu þingsins við málið. Það finnst mér dónaskapur.

Leiðrétting númer 4: Vinna stendur yfir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, m.a. við auðlindaákvæðið því auðvitað viljum við hafa það skothelt. Engin niðurstaða er komin í hvernig hugsanleg breytingartillaga mun líta út en einn nefndarmaður lagði fram tillögu að orðalagi sem verið er að skoða.

Ekki var fleira haft eftir Vigdísi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is