Mánudagur 18.02.2013 - 23:15 - FB ummæli ()

Fyrir rétt tæpum 20 árum …

Það heyrist oft að það hafi verið algjör óþarfi að endurskoða mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Það er nefnilega „nýbúið“ að því. Því er jafnvel haldið fram að Stjórnlagaráð hafi farið út fyrir umboð sitt með því að hreyfa við þeim kafla. Það er ekki rétt því þótt mannréttindakaflinn hafi ekki verið tilgreindur sérstaklega sem verkefni ráðsins þá hafði það heimild til að leggja fram þær tillögur sem það vildi og taldi sig þurfa.

Fyrir 20 árum kjagaði ég um eins og gangandi lifrapylsukeppur en var þó aðallega í því að hvíla mig daginn út og inn. Nokkrum dögum síðar fæddist frumburðurinn eftir erfiða meðgöngu og fæðingu. Örþreyttri móðurinni var trillað inn á fæðingadeild, nýburanum inn á vökustofu og faðirinn sendur heim! Í fimm daga dvöldu móðir og barn á spítala eins og flest allar nýbakaðar mæður á þessum tíma. Heimsóknartími var 30 mínútur á dag eftir hádegi og þá gátu vinir og ættingjar litið við og horft á nýburann í gegnum gler og svo var sérstök pabbastund í klukkutíma á kvöldið. Þá fékk pabbinn að halda á barninu, skipta á því og sinna því. Eina klukkustund af hverjum 24 fékk hann að vera með nýfæddu afkvæmi sínu. Annars var hann bara í vinnunni eða heima að skúra. Og ekkert fæðingarorlof fyrir pabba.

Í dag finnst okkur þetta fáránlegt. Auðvitað eiga feður að eiga jafnan rétt og mæður til að mynda tengsl við nýburann þessa fyrstu daga. Auðvitað á nýburinn líka rétt á að vera með foreldrum sínum og þá föður ef móðirin er ekki í standi til að hugsa um hann eftir fæðinguna. Eru það ekki sjálfsögð mannréttindi mæðra, feðra og barna?

Hinn „glænýji“ mannréttindakafli núgildandi stjórnarkrá er frá 1995 og er því orðinn 18 ára gamall. Hann var ekki dreginn upp úr hatti á því ári heldur var hann mótaður árin á undan. Hann er því ekki svo langt frá syni mínum í aldri.

Átján til tuttugu ár eru kannski ekki svo langur tími. Þó hefur svo ótalmargt gerst og breyst síðan þá. Sonur minn hefur vaxið úr grasi og breyst í ungan mann. Fólk er hætt að reykja inni. Næstum hvert heimili er nettengt og stór hluti tilveru okkar fer fram eða byggir á þessari nýju tækni. Okkur finnst ekki sjálfsagt að fatlað fólk sé vistað á stofnunum. Pabbar geta tekið fæðingarorlof á við mæður. Karlalið Breiðabliks er hætt að falla niður um deild annað hvert ár. Hommar og lesbíur geta gengið í hjónaband. Fólk breytir um kyn. Það hefur hlýnað og við getum ekki lengur farið á skíði í Kerlingafjöllum eða Hveradölum. Kona hefur orðið forsætisráðherra. Við höfum þó enn ekki unnið Júróvisjón en höldum ótrauð áfram að reyna.

Eftir önnur tuttugu ár munum við þurfa að endurskoða mannréttindakaflann á nýjan leik og við eigum að gera það. Heimurinn breytist og mennirnir með. Þær breytingar sem nú hafa verið lagðar til eru bæði tímabærar og þarfar. Það er ekki eftir neinu að bíða.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is