Fimmtudagur 07.02.2013 - 16:03 - FB ummæli ()

Án umræðu

Nú er kosningabarátta framundan og flokkarnir, gamlir sem nýir, munu leggja fram stefnumál sín og sýna hvað þeir standa fyrir. Þannig hefur fulltrúalýðræði hér á landi virkað; við veljum þá sem bjóða best og við treystum helst. Sigurvegarar kosninganna semja svo sín á milli stjórnarsáttmála þar sem slegið er af ítrustu kröfum og orðalagið haft þannig að báðir geta sætt sig við það. “Klassík” úr stjórnarsáttmála er að loforð annars flokksins sem hinn er ekki svo hrifinn af verður orðið að loforði um að flytja frumvarp um málið sem svo dagar uppi í þinginu.

Fyrir kjósendur væri svo miklu æskilegra að drög að stjórnarsáttmála væru opinber fyrir kosningar en ekki eftir. Þá væri auðveldara fyrir þá að átta sig á hvað yrði mögulega framkvæmt og hvað ekki. En hér á landi er hefðin sú að menn gangi óbundnir til kosninga sem þýðir að þeir geti lofað út í loftið og kennt svo samstarfsflokknum um að ekki sé hægt að efna loforðin.

En sumu er ekki einu sinni lofað og það er eiginlega verra. Sumt af því sem stjórnmálamenn gera er nefnilega lítið sem ekkert rætt en dúkkar svo upp sem blákaldur raunveruleiki. Ég minnist þess alla vega ekki að það að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð hafi verið kosningaloforð. Eða það að styðja Bandaríkin í stríði. Eða að samþykkja Icesave-samning Svavars Gestssonar sem þó var tilbúinn fyrir kosningarnar 2009. Og það hefur heldur aldrei verið kosningamál að Ísland verði olíuþjóð. Eini þingmaðurinn sem vogaði sér að ræða það á gangrýninn hátt, Kolbrún Halldórsdóttir, datt út af þingi í kjölfarið.

Engu að síður hefur ráðherra úr flokki Kolbrúnar, Steingrímur J. Sigfússon, formaður “umhverfisflokks” landsins handsalað samninga um leit og nýtingu á hugsanlegri olíu. Það hefur gerst án nauðsynlegrar lýðræðislegrar umræðu. Ég get ekki svarað fyrir kjósendur Vinstri-Grænna en mér þykir afar ólíklegt að þeir hafi kosið hann til að einkavæða leit og vinnslu á olíu í lögsögu Íslands.

Það eru bæði kostir og gallar við olíuleit og vinnslu hér við landið og við höfum ekkert rætt hverjir þeir eru eða hvað við viljum í raun gera. Og það er erfitt að taka ákvörðun þegar upplýsingar liggja ekki fyrir. Umfram allt er þetta stór ákvörðun, ef til vill ein sú stærsta sem við sem þjóð getum tekið, og þeir stjórnmálamenn sem nú stýra skútunni hafa ekkert umboð til að taka hana fyrir okkur að svo stöddu.

Hugsanleg olíuleit og vinnsla er mál að þeirri gerð og stærð að það ætti að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um það og við ættum að flýta okkur hægt. Við þurfum að gefa okkur tíma til að kynna málið vel fyrir almenningi, draga fram allar upplýsingar, ræða það í þaula og taka svo loks ákvörðun um næstu skref, ákvörðun byggða á upplýsingum og lýðræðislegum skoðanaskiptum.

Lýðræði er nefnilega svo miklu meira en að kjósa fólk á þing á fjögurra ára fresti. Lýðræði er samtal sem leiðir til ákvarðanatöku. Og það samtal hefur ekki farið fram í stóra olíumálinu.

Greinin birtist fyrst á vefnum www.svipan.is þann 5. febrúar 2013.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is