Fimmtudagur 31.01.2013 - 20:02 - FB ummæli ()

Sátt um nýja stjórnarskrá?

Nú er önnur umræða um frumvarp til stjórnarskipunarlaga hafin á Alþingi og enn sem komið er er hún bæði áhugaverð og að mestu málefnaleg. Mörgum er tíðrætt um að sátt verði að ríkja um stjórnarskrárbreytingar. Í sögulegu samhengi hefur það þó ekki alltaf verið svoleiðis enda fjallar stjórnarskráin um völd, réttindi og skiptingu kökunnar. Það væri sennilega eitthvað að ef allir væru sáttir.

Ég er sammála því að æskilegt sé að sem flestir séu sáttir og meðal annars vegna þess fannst mér góð hugmynd að spyrja þjóðina hvort hún væri sátt. Þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram 20. október á síðasta ári og niðurstöður hennar voru nokkuð afgerandi. Þjóðin var sátt við að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá.

Og það skiptir að mínu mati mestu að þjóðin sé sátt. Mér finnst skipta minna máli hvort alþingismenn eða hagsmunasamtök séu sátt.

Eitt þeirra mikilvægu atriða sem eru í frumvarpinu að nýju stjórnarskránni er jafnt vægi atkvæða, sannkölluð mannréttindi! Tveir þriðju hlutar kjósenda voru því sammála að vægi atkvæða eigi að vera jafnt. Það er þó alveg ljóst að margir þingmenn væru ekki á þingi ef atkvæðivægi væri jafnt. (Ætli ég sjálf sé ekki gott dæmi um það enda 10. (og því síðasti) þingmaður suðurkjördæmis). Þess í stað væru flokkssystkini þeirra á höfuðsborgarsvæðinu þingmenn. Og það er fullkomnlega skiljanlegt að þeir séu ósáttir. Það er líka fullkomnlega skiljanlegt að LÍÚ sé ósátt við auðlindaákvæðið.

Ég held að þeir sem óska eftir því að fullkomin sátt ríki um nýja stjórnarskrá verði að hugleiða hvað sú sátt myndi kosta.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is