Miðvikudagur 30.01.2013 - 22:39 - FB ummæli ()

Undan hælnum?

Við unnum Icesave, við öll, hvar sem við stóðum í málinu á hverjum tíma. Þessu erfiða máli er nú loksins lokið. Davíð sigraði Golíat og þessum skuldum einkaaðila var ekki skellt á skattborgara landsins.

Sigurinn í Icesave-málinu er sigur fólksins, sigur samstöðunnar sem og samvinnunnar og sigur hins beina lýðræðis. Margir bentu á að málið hentaði illa í þjóðaratkvæðagreiðslu. Til þess væri málið of flókið (ja eða þjóðin of vitlaus). En þjóðin setti sig inn í málið, hlustaði á rök með og á móti, las greinar, fór yfir útreikninga og kynnti sér málið með óháðu kynningarefni fyrir atkvæðagreiðslurnar. Og hún stóðst prófið og hafði rétt fyrir sér.

En í bankahruni er oft langt í réttlætið. Það er ekkert réttlátt við stökkbreyttar skuldir heimila og fyrirtækja. Það er ekkert réttlátt við gjaldþrot Seðlabankans sem við öll þurfum að greiða fyrir með hærri sköttum og minni samneyslu. Og það er ekkert sanngjart við það með hvað hætti bankarnir voru einkavæddir á sínum tíma og heldur ekki hvernig þeir voru endurreistir og afhentir vogunarsjóðum. Og þótt nú sé tími til að gleðjast skulum við ekki gleyma því að við erum öll að greiða fyrir þetta bölvaða hrun með einum eða öðrum hætti.

Framundan eru ærin verkefni. Enn er langt í réttlætið þegar kemur að lánum heimila og margra fyrirtækja. Þar þarf að fara í almennar aðgerðir, annað er hvorki sanngjarnt né réttlátt. Og verðtryggingu þarf að afnema því það gengur ekki að skuldsett heimili þurfi alltaf að bera áhættuna af efnahagslegum óstöðugleika. Svo þurfum við að finna lausn á snjóhengjuvandanum og gjaldeyrishöftunum. Kostnaðnum af þessu öllu hefur með einum eða öðrum hætti verið velt yfir á okkur borgarana.

Það ætti öllum að vera ljóst að íslensk stjórnvöld voru undir gífurlegum þrýstingi frá öðrum löndum og alþjóðastofnunum um að taka á sig þá skuld sem nú hefur verið kveðið úr um að við áttum aldrei að þurfa að bera. Það er nefnilega ekki vel séð að þjóð geri uppreisn með þessum hætti. Nú vitum við hvernig tilfinning það er að vera undir hælnum á þeim stóru og sterku og eiga ekki í nein hús að venda. Við skulum ekki gleyma hvernig það var og heldur ekki því að fjölmargar þjóðir hafa verið í þeirri stöðu áratugum saman og verða áfram nema eitthvað mikið breytist. Þar ber okkur siðferðisleg skylda til að tala þeirra máli.

Það er margt merkilegt í Icesave-málinu. Tvisvar sameinaðist þingið og í bæði skiptin var það til góðs. Sumarið 2009 smíðaði Alþingi fyrirvara við Svavars-samninginn sem tengdu hagsmuni Íslands við hagsmuni kröfuhafanna. Þótt Bretar og Hollendingar hafi hafnað þeirri lausn held ég að slíkir fyrirvarar gætu nýst víðar í samningum ríkja á milli. Allir flokkar sem og þau grasrótarsamtök og einstaklingar sem höfðu barist gegn samningunum voru svo kallaðir að borðinu þegar kom að því að verja sig fyrir EFTA dómstólnum. Það varð líka til góðs. Af þessu ættum við að læra.

Við eigum enn í miklum vanda og það standa á okkur ýmis spjót þótt aðrar þjóðir og alþjóðastofnanir séu ekki á bak við þá heldur kröfuhafar og vogunarsjóðir. Ef við ætlum að standast þann þrýsting og ráðast í þær aðgerðir sem fara þarf í þurfum við öll að standa saman og sýna hvað í okkur býr.

 

Greinin birtist fyrst í DV 30. janúar 2013.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is