Mánudagur 14.01.2013 - 20:57 - FB ummæli ()

Stöðvum spekilekann

Nú hefur fjöldi hjúkrunarfræðinga sagt upp störfum hjá Landspítalanum. Þeir sem skoðað hafa starfsumhverfi þeirra og launakjör skilja hvers vegna. Eftir nokkurra ára háskólanám duga launin ekki fyrir lífinu. Auk þess er lánaumhverfið hér á landi þannig að hver og einn fasteignakaupandi þarf að greiða nokkrum sinnum fyrir eignina og leigumarkaðurinn hér er ekki fýsilegur.

Ég hef stundum birt hér á blogginu mínu bréf sem send eru til þingmanna þegar mér hefur fundist efni þeirra eiga erindi til fleiri. Hér er eitt slíkt frá einum af þeim fjölmörgu hjúkrunarfræðingum sem nær ekki endum saman, birt með leyfi bréfritara en persónugreinanlegum atriðum hefur verið breytt:

Kæri alþingismaður

Ég vona að þú og þín fjölskylda hafið átt gleðileg jól og að árið framundan verði ykkur farsælt.

Ég átti mjög notaleg og gleðileg jól í faðmi fjölskyldunnar og í faðmi vinnunnar, ég slepp reyndar vel þessi jólin, nýársmorgun og næturvakt á jóladag komu í minn hlut – auk virku daganna og helgarinnar.

Ég er einstæð móðir, háskólamenntuð með bsc í hjúkrunarfræði og þar að auki með framhaldsnám á masterstigi.  Ég er hámenntuð, ég bý í eigin húsnæði, sem ég keypti 2007 á 23 milljónir og átti þá hlut í því. Ég hef alltaf borgað mínar skuldir og meira að segja greitt aukalega inn á lánin mín, samt sem áður standa skuldir mínar nú í 27.099.801 krónum.

Launin mín á Landspítala eftir 12 ára starf, meðlag og barnabætur duga ekki fyrir daglegum rekstri heimilisins, að meðaltali á ég eftir um 30 þúsund um hver mánaðarmót sem fer í mat, lækniskostnað, fatakaup og aðra almenna framfærslu. Bíll er munaðarvara sem ég hef ekki leyft mér að eiga síðast liðin tvö ár. Þetta er ekki há upphæð.

Það sem hefur haldið mér á floti síðasta ár er norska ríkið. Það borgar nefnilega hjúkrunarfræðingi í afleysingum ansi góð laun og þar eru möguleikar á aukavinnu. Þetta er farið að taka toll af mér þar sem ég hef eytt öllum fríum mínum og þjappað vöktum til að fara í þessar ferðir. Dóttir mín þolir þær ekki enda er henni komið fyrir hjá ættingjum og vinum á meðan, eins og það sé ekki nóg að hún þurfi að vera í pössun tvær til fjórar nætur í hverri viku á meðan ég tek vaktir hérna heima. Faðir hennar flutti til Svíþjóðar ásamt konu sinni, þau eru ekki á leiðinni heim í bráð þar sem þeirra biðu miklu verri kjör.

Á næsta ári koma inn hjá mér afborganir af námslánum, ég á eftir að borga skatt af norskum tekjum ársins 2012 (sem eru reiknaðar upp í topp hér heima á íslandi) og lánin mín eiga eftir að hækka enn frekar. Ég er komin í vítahring, get ekki séð fram á að geta borgað upp lánin sem eru með veð í eign ættingja. Ekki sel ég íbúðina mína fyrir skuldum. Ég er föst.

Ég get ekki haldið áfram að flakka svona á milli landa og vinna tvöfalda vinnu. Eina ráðið til að ná endum saman er að rífa dóttur mína frá vinum, skóla og tómstundastarfi, leigja íbúðina mina út, flytja til Svíþjóðar þar sem ég hef bakland og fá mér vinnu þar. Þaðan er líka styttra að skreppa til Noregs til að ná í aukapening fyrir innborgun á lánin. Auk þess er vinnuvikan styttri þar. Ég hef því sagt upp starfi mínu á Landspítala.

Ég sé ekki fyrir mér að verðtryggingin verði leiðrétt, að lánin mín standi í stað og að launin mín hjá Landspítala háskólasjúkrahúsi hækki svo ég geti lifað af hér heima. Eiginlega hlakka ég ekki til ársins 2013.

Ég vildi óska þess að alþinginsmenn gætu gert eitthvað til að breyta þessu svo að almenningur í landinu geti lifað hér heima.

Kærar kveðjur,

XXXX

Hjúkrunarfræðingar og aðrir sem starfa við heilbrigðisþjónustu eru heppnir því menntun þeirra er alþjóðleg og veruleg eftirspurn er eftir starfskröftum þeirra í útlöndum. Það er ekki heppilegt fyrir okkur hin sem kunnum að þurfa á þjónustu þeirra að halda og ekki hagkvæmt fyrir samfélagið sem varið hefur bæði miklu fé og mannauði til menntunar þeirra og þjálfunar.

Hjúkrunarfræðingar eru ekki eina stéttin sem nær ekki endum saman en kjör þeirra hafa dregist töluvert aftur úr kjörum annarra ríkisstarfsmanna. Það er óþolandi að sjá að launahækkanir skila sér ekki til dæmigerðrar kvennastéttar en laun t.d. viðskiptafræðinga hjá ríkinu hækka mun meira.

Ein mikilvægasta kjarabarátta dagsins í dag er þó sanngjörn leiðrétting á lánum heimilanna og afnám verðtryggingar. Það skiptir litlu þótt launin hækki ef lánin éta upp allar kjarabætur framtíðarinnar. Við eigum ekki að þurfa að vera eins og hamstrar á hjóli. Við erum manneskjur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is