Föstudagur 11.01.2013 - 15:29 - FB ummæli ()

Alltaf í boltanum

Ég hef gaman af íþróttum og held að okkur sé öllum bæði hollt að hreyfa okkur og leika okkur. Þegar best lætur sameina íþróttir það tvennt og reyndar svo miklu meira. Þegar verst lætur eru íþróttir milljarðaiðnaður þar sem menn eru seldir og keyptir og sá sem er ríkastur raðar upp sigurstranglegasta liðinu, ekki ósvipað og í stjórnmálunum.

Þegar vel tekst til er ánægjulegt að fylgjast með börnum og unglingum þroskast í íþróttum. Þegar sex ára krakkar byrja að spila fótbolta eru markmiðin skýr. Boltinn á að fara í markið og þau eru saman í liði sem reynir að koma honum í þetta mark. Stundum fer boltinn óvart í hitt markið en það er allt í lagi. Aðferðin til að skora er þannig að allir leikmenn (nema kannski markmaðurinn) fara í boltann, alltaf. Allir eru í sókninni og allir í vörninni. Svo örmagnast þau eftir öll hlaupin og meðal annars þess vegna eru leikirnir hafðir mjög stuttir. Það er ekkert leikkerfi en þó oftast mikil leikgleði.

En þau læra og það er gaman að vera foreldri sem fylgist með liðinu og einstaka leikmönnum þroskast og þróast og þjálfarann jafnt sem liðsmenn læra inn á styrkleika og veikleika hvers og eins. Leikmennirnir skipta með sér verkum, læra að stóla hver á annan, meta eigin getu og færni og … spila saman sem alvöru lið! Og það er ekki lítils virði að læra það.

Og þá komum við að stjórnmálunum. Stundum finnst mér stjórnmálin vera eins og fótboltinn hjá sex ára börnum. Stundum fara allir í boltann.

Við erum auðvitað fámenn þjóð og þingmenn fáir í samræmi við það. Verkefni stjórnmálanna eru þó ekki endilega léttvægari en hjá milljónaþjóðum og því margt og mikið sem íslenskir þingmenn þurfa að setja sig inn í. Og verkefnin hvíla á færri herðum. En skipulagið er heldur ekki nógu gott. Í grunninn er þó kerfið ágætt; málefnum er skipt niður á fastanefndir og sætum þar skipt á þingflokka. Þannig ætti að vera nokkuð tryggt að innan hvers flokks sé góð yfirsýn og þekking sem fulltrúar hans í nefndum þingsins miðla áfram og sjónarmið allra flokka koma fram í þingnefndum. Og þetta virkar ágætlega þótt á því séu undantekningar. Þegar komið er í þingsalinn gilda hins vegar önnur lögmál, sérstaklega þegar málin eru stór (ja eða ákveðið er að blása þau út, það gerist líka). Talsmenn flokkanna eru þá ekki endilega þeir sem hafa verið að vinna málin og eru best inni í þeim heldur formenn eða vonarstjörnur flokksins. Í fámenninu höfum við komist upp með að semja ekki um ræðutíma eða málsmeðferð. Hún er því oft tilviljanakennd og óútreiknanleg. Gífurlegum tíma er varið í að flytja ræður um sum mál. Þá gleyma menn sér í leikgleðinni og allir þurfa að fá að segja hvað málið sé gott eða slæmt og það jafnvel oft. Sumum finnst líka svo gaman að geta ráðið dagskránni með mali sínu því eins og allir vita er aðeins hægt að ræða eitt mál úr pontunni í einu. Svo eru mál afgreidd á færibandi fyrir þinghlé, í sumum tilfellum án nægilegrar umræðu.

Og þetta finnst mér svo vont því umræður í þingsal – sem er í raun eini vettvangurinn sem fólk getur fylgst með störfum Alþingis – eru svo mikilvægar. Þar eigum við að takast á með orðum og rökum, draga fram kosti og galla, vera skýrmælt og hnitmiðuð svo þeir sem á hlýða eigi auðvelt með að meðtaka það sem við segjum. Þeir sem þekkja málefnið vel hafa oft mikið fram að færa þótt þeir eigi ekki sæti í þeirri fagnefnd sem fjallar um málið og þá er sérstaklega mikilvægt að á þá sé hlustað. Og félagar geta skipt með sér verkum í yfirgripsmiklum málum þannig að það séu ekki allir að segja það sama en tryggt að farið sé yfir allar hliðar málsins. Stundum er umræðan í þingsal einmitt þannig og því veit ég að við bæði getum og kunnum þetta.

En stundum er allt uppi í loft, umræðan óskipulögð, allir tala um sömu hlutina, ræða kannski ræðuna sem flutt var á undan eða jafnvel ótengd mál. Og mikilvæg atriði koma ekki fram vegna þess að fólk skipuleggur sig ekki. Markmiðið er ekki endilega að umræðan nái yfir allar hliðar málsins heldur taki langan tíma. Í stað þess að sumir spili vörn og aðrir sókn fara allir í boltann og leikurinn stendur þar til bæði liðin örmagnast.

Allir þingmenn þurfa að hafa góða yfirsýn, setja sig inn í þau mál sem þingið hefur til afgreiðslu og mynda sér skoðun á þeim. En þeir þurfa ekki allir, alltaf, að tjá sig um allt. Í löndunum í kringum okkur eru leikreglurnar á þann veginn að tími umræðunnar er fyrirfram ákveðinn og skipt niður á flokka. Flokkarnir senda sína hæfustu menn í umræðuna og þeir koma undirbúnir því þeir vissu að málið væri að komast á dagskrá. Við þetta búum við ekki hér þótt allir ættu að sjá í því skynsemina og hagræðið. Hvernig væri að breyta því og fara að spila í alla vega 3. flokki?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is