Mánudagur 31.12.2012 - 11:32 - FB ummæli ()

Um áramót

“Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Ísland er frjálst og fullvalda réttarríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.

Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.

Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.

Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.”

 

Á þessum aðfaraorðum hefst frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem nú er til umfjöllunar á Alþingi. Nýr samfélagssáttmáli er í bígerð. Um áramót er góður siður að staldra við og horfa bæði fram á við og til fortíðar. Líta í kringum sig, læra af því sem gert hefur verið og sjá hvar tækifæri framtíðarinnar liggja. Við ættum að láta þessi aðfaraorð vísa okkur veginn.

»«

Líf okkar flestra breyttist við hrunið 2008. Þegar ég horfi til baka þakka ég fyrir að okkur var hrundið af þeirri vegferð græðgi og sjálfselsku sem samfélag okkar var á þótt við höfum enn ekki fundið jafnvægi og réttlæti. Á árunum eftir aldamótin var Ísland að verða “alþjóðleg fjármálamiðstöð” án þess að mikil lýðræðisleg umræða hefði farið fram um það. Valdhafarnir gott sem gáfu fjármálastofnanir ríkisins og teningunum var kastað í spilavítinu. Og allt þetta gerðist án þess að þjóðin hefði verið spurð álits eða spurð að því í hvernig samfélagi hún vildi búa. Og án þess að upplýst væri um hvað fælist í þessari “alþjóðlegu fjármálamiðstöð” og hvaða áhætta væri í henni fólgin fyrir þjóðarbúið. Við vorum bara ríkasta þjóð í heimi og áttum að þakka fyrir það.

Kannski það sé einkenni á íslenski þjóðarsál að vera ginnkeypt fyrir skyndigróða og töfralausnum. Einu sinni átti allt að reddast með fiskeldi og loðdýrarækt. Ein jólin áttum við öll að finna sæluna í fótanuddtæki. Og okkur hefur verið bjargað þegar kannski hefði verið farsælla til langs tíma litið að við kæmum sjálf undir okkur fótunum. Við fengum Marshall aðstoð, herstöð sem veitti okkur umtalsverðar tekjur og svo tóku álverin við sem ein “allsherjar – hvað sem það kostar – lausn.” Haustið 2008 var orðið á götunni það að við fengjum hraðferð inn í Evrópusambandið sem myndi veita okkur skuldaaflausn eins og skot. Það varð nú ekki og erfitt að sjá nú að það sé eitthvað sem ESB vilji eða geti. Nú velti ég því fyrir mér hvort olía við Íslandsstrendur sé næsta kvikkfix sem eigi öllu að redda. Við höfum frétt að meiri líkur en minni séu á því að olía sé á Drekasvæðinu og íslensk stjórnvöld hafa þegar boðið olíuleitina úr, reyndar ekki í fyrsta sinn. Þetta hefur allt saman gerst án mikillar umræðu. Stöku frétt skýtur upp kollinum og rætt er við nokkra karla. Erfitt er fyrir hinn almenna borgara að átta sig á um hvað er í raun og veru að ræða. Hvað fellst í olíuleit og hvernig fer hún fram? Getur hún verið áhættusöm fyrir lífríkið? Hvað fellst í heimild til olíuleitar? Ef olía finnst, hvað gerum við við arðinn af þeirri auðlind? Verður hann þjóðarinnar eða fer hann til þeirra sem unnu í olíuleitarhappdrættinu? Fer það saman við hreina ímynd okkar að verða kannski olíuríki? Og ef olía finnst, getum við ákveðið að vinna hana ekki?

Öllum þessum spurningum og mun fleiri til þyrfti að svara áður en lengra er haldið. Við sem þjóð þurfum að finna leiðir til þess að ræða málin án gífuryrða, leggja fram upplýsingar og raunverulega skilja þær og fá fram þjóðarvilja. Eða ætlum við að vakna upp einn daginn sem olíuríki, með kostum þess og göllum án þess að það hafi verið rætt frekar en að eyjan okkar fagra yrði “alþjóðleg fjármálamiðstöð”?

Sumar ákvarðanir eru svo stórar að það er ekki réttlætanlegt að kjörnir fulltrúar véli um þær og ráði niðurstöðunni einir. Sumt er þannig að landsmenn allir ættu að þurfa að kynna sér málin og mynda sér skoðun áður en farið er af stað. Lýðræði er nefnilega svo miklu meira en að kjósa á nokkurra ára fresti. Lýðræði byggir á samræðunni um leiðir og lausnir og sameiginlegri ákvarðanatöku. Og svo samræðan geti farið fram þurfum við upplýsingar sem við getum treyst.

»«

Eitt hinna stóru mála samtímans er stjórnarskráin okkar og breytingar á henni. Þegar allt hrundi fannst mér sem samfélag okkar byggði á veikum stoðum. Fyrir mér voru það þó engin ný sannindi að við Íslendingar höfðum í raun aldrei ákveðið hvernig samfélag við ætluðum að byggja. Hlutirnir gengu hér sinn vanagang, í stað kóngs komu innlendir herrar en fáir dróu vald þeirra í efa eða töldu sig geta haft beinan aðgang að ákvarðanatökunni nema í gegnum flokksklíkurnar. Hér hefur verið stunduð fyrirgreiðslupólitík þar sem öllum lífsins gæðum var úthlutað í gegnum flokksaðild eða ættartengsl en þó oftast hvoru tveggja. Ég vil ekki búa í svoleiðis samfélagi. Ég vil búa í landi þar sem öllum eru tryggð jöfn tækifæri en þú uppskerð eins og þú sáir.

Eftir hrunið varð krafan um nýja stjórnarskrá hávær. Okkur skorti þennan samfélagssáttmála og samræðuna um hvernig þjóðfélag við vildum byggja. Nú erum við vonandi á síðustu metrunum við skapa hann, með margþættu ferli þar sem almennum borgurum hefur verið tryggð aðkoma á hverju stigi. Þetta ferli hefur vakið athygli og aðdáun víða um heim og þykir til fyrirmyndar þótt hér heima hafi sumir allt á hornum sér. Og þjóðin sagði sína skoðun í þjóðaratkvæðagreiðslu og reyndist ánægð með plaggið. Nú er það þingsins að hlusta og klára verkið.

Við getum margt lært af stjórnarskrárgerðinni. Þetta opna ferli til ákvarðanatöku ættum við að nota mun oftar, ekki síst þegar kemur að stóru málunum. Og við getum nagað okkur í handarbökin að hafa ekki oftar spurt þjóðina hvert hún vildi halda. Ég held að það hafi verið óráð að spyrja þjóðina ekki hvort rétt væri að sækja um aðild að ESB sumarið 2009 og það er að koma í bakið á okkur núna. Þjóðaratkvæðagreiðsla um það stórmál hefði tryggt þjóðinni hlutlausar upplýsingar um hvað í umsókn og aðild fælist áður en haldið var af stað. Umræðan virðist því miður oft á villigötum þegar að því kemur og hræðsluáróður áberandi. Hefði þjóðin ákveðið að sækja skyldi um aðild hefðu stjórnvöld haft mun skýrara umboð við samningsborðið og það ekki verið undir geðþótta einstakra ráðherra komið hvernig gengi. Hefði þjóðin ákveðið að sækja ekki um værum við sennilega að íhuga aðrar leiðir þegar kemur að efnahags- og gjaldmiðilsmálum, leiðir sem ef til vill verða þær sem við þurfum að feta okkur ef samningar við ESB nást ekki eða ef þjóðin hafnar þeim þegar á hólminn er komið. Þess í stað erum við föst í ferli sem við vitum ekki hvort og þá hvenær leiðir til ásættanlegrar niðurstöðu.

»«

Stóra verkefnið á næsta kjörtímabili verður að gera þjóðfélagið réttlátara en í því finnst mér ríkisstjórnin hafa brugðist. Það verður ekki gert nema með leiðréttingu á skuldum heimilanna og með því að koma húsnæðislánum hér í sambærilegt horf og á hinum Norðurlöndunum. Efnahagskreppur einkennast af eignatilfærslum og það er alveg ljóst hverjir bera birgðarnar í okkar samfélagi. Hrein eign Íslendinga á aldrinum 30-45 ára féll frá því að vera 137 milljarðar króna niður í 8 milljarða í mínus á árunum 2006 til 2011. Hún sem sagt þurrkaðist út og heil kynslóð stendur eftir eignalaus. Það er óásættanlegt og verður að laga. Því miður hafa tækifærin til þess runnið okkur úr greipum eitt af öðru og sífellt flóknara verður að vinda ofan af vitleysunni. Það verður samt að gera það og til þess eru enn færar leiðir. Og verðtryggingin verður að fara. Leiðrétting lána og afnám verðtryggingar er forsendan fyrir þeirri þjóðarsátt sem við verðum að ná.

»«

Ísland er að mörgu leyti land tækifæranna. Við erum rík af auðlindum, ágætlega menntuð og ættum að geta haft það svo gott. Það er verkefni okkar sem byggjum Ísland að skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð.

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. 12 2012.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is