Fimmtudagur 20.12.2012 - 12:12 - FB ummæli ()

Að trúa á það góða

Nú eru að renna upp tímar gleði og gjafmildi, hátíð ljóss og friðar er í vændum.

Ég er jólabarn allt árið. Ég trúi á það góða í fólki, alla vega þar til annað kemur í ljós. Ég trúi því að við getum breytt heiminum og bætt samfélagið. Ég trúi því að við getum breytt okkur sjálfum og bætt okkur og haft góð áhrif á alla í kringum okkur. Ég trúi á brosið, kærleikann, fyrirgefninguna, vináttuna, samhyggðina og þakklætið. Og ég trúi á þetta allt því ég hef ákveðið að gera það.

Jólin eru dásamleg. Á jólunum sýnum við okkar bestu hliðar. Við minnum vini og ættingja á að okkur þyki vænt um þau með því að senda þeim kveðju. Við gefum fjölskyldu og vinum gjafir og þiggjum aðrar á móti. Við þökkum fyrir okkur. Við tökum okkur frí og ferðumst jafnvel langar vegalengdir til að njóta samvista við ættingja og vini. Við leggjum daglegt strit og amstur til hliðar, sút og sorg, gerum allt hreint og skreytum. Og svo tökum við á móti gestum, brosum, föðmumst og kyssumst, borðum saman kærleiksmáltíð og eigum góða stund í kyrrðinni.

Þó veit ég að það eiga ekki allir gleðileg jól. Fyrir því eru ótal orsakir sem við þurfum að takast á við – ekki bara fyrir jólin heldur allt árið. Auðvitað skiptast alltaf á skin og skúrir og stundum er demba um jólin. Öðru er hægt að breyta. Fátækt er staðreynd á Íslandi, félagsleg vandamál líka og það er verkefni okkar allra að snúa því við alla daga ársins.

Um hátíðirnar gefst kjörið tækifæri til að velta fyrir okkur hvernig samfélagi við viljum búa í og hvað við getum gert til að það verði að veruleika. Viljum við halda áfram að búa í landi sem stjórnað er af ættarveldum, hagsmunaklíkum og miðaldra körlum í jakkafötum eða viljum við skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð? Viljum við hafa frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum samfélags okkar? Viljum við að stjórnvöld vinni að velferð íbúa landsins, efli menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis? Viljum við efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða og einsetja okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni?

Framtíðin er í okkar höndum. Völdin líka. Það er á ábyrgð okkar allra að láta í okkur heyra í lýðræðislegri umræðu, láta vita þegar okkur mislíkar og hrósa þegar vel tekst til. Og til þess að breyta þurfum við að trúa því að samfélagið geti batnað. Án þeirrar trúar er baráttan fyrirfram töpuð. Við þurfum líka að læra að hlusta á önnur sjónarmið og taka tillit til þeirra, virða skoðanir annarra og læra að vinna með þeim sem við erum ekki endilega sammála. Og viðurkenna að það eru til margar leiðir að farsælli niðurstöðu.

Tilveran getur verið ævintýralega skemmtileg ef við látum eftir okkur að standa með sjálfum okkur, brosa til náungans, segja fólkinu okkar hvað okkur þykir vænt um það og vinna saman að réttlátara og sanngjarnara samfélagi. Bráðum rennur upp nýtt ár, ár nýrra tækifæra. Trúum á það góða og látum verkin tala.

 Greinin birtist fyrst í DV 19. 12. 2012.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is