Sunnudagur 16.12.2012 - 19:34 - FB ummæli ()

Hið séríslenska bull

Oft er því haldið fram að ekki megi breyta einhverju eða að hlutirnir þurfi að vera nákvæmlega eins og þeir hafa verið síðustu ár og áratugi vegna séríslenskra aðstæðna. Hinar séríslensku aðstæður eru oftar en ekki fámennið og að landið okkar sé eyja og langt frá öðrum löndum. Þess vegna verðum við að hafa sumt á allt annan veg en annars staðar í hinum siðmenntaða heimi.

Samningar við Evrópusambandið varpa ljósi á þetta. Við biðjum um undanþágur frá hinu og þessu eða aðlögunartíma. Og það getur vel verið réttlætanlegt. Ég læt lesendum eftir að dæma um það en meðal þess sem við viljum fá að gera áfram er að selja sprútt í Fríhöfninni í Keflavík (vegna félagslegra aðstæðna og ríkrar hefðar), banna ferðamönnum að koma með eins mikið vín og almennt flytja má á milli landa ESB (vegna þess að áfengissala er mikilvægur liður í tekjuöflun ríkissjóðs), banna innflutning á lifandi dýrum og vissum búfjárafurðum (vegna sýkingarhættu) og við viljum geta lagt lægri virðisaukaskatt á vegtolla (sem ég skil reyndar ekki af hverju á að vera mikilvægt) svo eitthvað sé nefnt.

Þegar minnst er á séríslenskar aðstæður er ástæða til að staldra við og velta fyrir sér vel og lengi hvor rökstuðningurinn eigi rétt á sér eða hvort við séum búin að koma okkur upp einhverju bullkerfi sem við ættum frekar að reyna að vinda ofan af en réttlæta. Ein þessara séríslensku „lausna“ er verðtryggingin því þótt verðtryggðar fjármálaafurðir finnist víða fyrir fagfjárfesta t.d. verðtryggð ríkisskuldabréf, hefur engri annarri þjóð dottið í hug að verðtryggja neytendalán og ýmislegt sem bendir til þess að það sé hreinlega bannað í hinu fyrrnefnda Evrópusambandi.

En af hverju að verðtryggja húsnæðislán landsmanna? Við höfum búið við óðaverðbólgu í þessu landi og sparifé landsmanna og lífeyrissjóða brann upp. Verðtryggingin var því hugsuð sem eins konar brunatrygging á sparifé og laun því upphaflega voru laun einnig verðtryggð. Með einu pennastriki var hún svo afnumin á launum svo fordæmi eru svo sannarlega fyrir afnámi verðtryggingar á Íslandi.

Nú hefur velferðarráðherra lagt fram hugmynd að annars konar brunatryggingu. Við eigum, verði hugmyndinni að veruleika, að geta keypt okkur tryggingu gegn verðbólgunni. Kostnaðurinn við lánin, sem þó er óvíða hærri á byggðu bóli, á að hækka en í staðinn hækka lánin ekki eins mikið í næsta hruni. Skýrslu um málið og glærur þar sem hlaupið er á helstu atriðum má finna á vef Velferðarráðuneytisins. Þar eru settar fram helstu forsendur fyrir hugmyndinni. Þar segir: “Vaxtastig í hverju landi ræðst bæði af grunngerð efnahagslífsins og förnum vegi í hagstjórn. Það er ekki hægt strika yfir þessa sögu með [því að] lögsetja ákveðið vaxtastig án þess að valda missetningu fjármagns sem mun kalla fram verulegan velferðarkostnað fyrir samfélagið í heild sinni.” Það er sem sagt útilokað að breyta neinu án þess að allt fari fjandans til. Afsakið, en ég leyfi mér að efast um þá fullyrðingu.

Í skýrslunni er greint frá því að “þakið” kosti. Það virðist ekki hvarfla að höfundi að einhver annar en lántakandi beri þann kostnað einn. Þeir sem græða á verðtryggingunni eru, auk fjármálafyrirtækja, sparifjáreigendur en ekki síst lífeyrissjóðirnir. Þar er einnig að finna séríslenska vitleysu. Í flestum löndum er svokallað gegnumstreymiskerfi. Þeir sem greiða í lífeyrissjóði ávinna sér réttindi en fjármunirnir eru notaðir til að greiða þeim sem þurfa á að halda hverju sinni. Hér erum við með svotil séríslenska lausn – við söfnum í sjóði og reynum að geyma féð í áratugi án þess að tapa og verðtryggjum heila klabbið. Það hefur reyndar ekki gengið neitt sérstaklega vel og nú er svo komið að sjóðina vantar hundruði milljarða til að geta staðið við skuldbindingar sínar.

Er ekki kominn tími á að hætta þessu bulli og læra af reynslu annarra þjóða? Verðtryggingin er ekki náttúrulögmál. Hún er séríslenskt bull.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is