Miðvikudagur 05.12.2012 - 12:16 - FB ummæli ()

Hvað varð um endurskoðun á starfsháttum þingsins?

Mér finnst illa komið fyrir Alþingi Íslendinga, mér finnst sorglegt í hvaða stöðu við erum komin. Það er eins og við þingmenn ráðum ekki við hlutverk okkar, náum ekki að vinna saman eða sameinast um nokkurn skapaðan hlut. Málþóf er kannski ágætis tómstundaiðkun á góðæristímum en eins og ástandið er núna er þessi hegðun algjörlega ólíðandi. Við sem hópur sem á að vera að vinna þjóðinni gagn höfum brugðist þeim sem kusu okkur.

Það er enginn sem getur breytt Alþingi nema þingmennirnir sjálfir og þeir ákváðu einmitt að gera það. Í lok sumars  2010 ályktuðum við, öll samhljóma, með öllum greiddum atkvæðum, þingsályktun um þann lærdóm sem við ætluðum að draga af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar stendur meðal annars:

Alþingi ályktar að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.

Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur.

Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.

Þetta er ályktun Alþingis. Og við verðum að breytast, við getum ekki haft hlutina svona. Við verðum að komast upp úr hjólförunum. Það skiptir engu máli hvernig hlutirnir voru einu sinni og hver talaði lengst þá. Það sem skiptir máli er hvernig þeir eru núna, hvað við þurfum að gera til að laga málin og hvernig við viljum hafa hlutina í framtíðinni.

Staðan núna er algjörlega óásættanleg og þingmenn allir þurfa að horfast í augu við þann vanda og taka á honum. Það breytir þessu enginn nema hinir kjörnu fullltrúar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is