Sunnudagur 02.12.2012 - 23:23 - FB ummæli ()

Málþóf og barnaskapur

Það er auðvelt að hneykslast á þeim gjörningi sem átti sér stað á Alþingi á föstudagskvöldið. Tveir miðaldra karlmenn gengu fram fyrir púltið með blað sem á stóð málþóf. Tók 4 sekúndur. Og gerði allt vitlaust.

En ég skil þá svo vel. Hversu lengi höfum við öll þurft að bíða vegna skyndilegrar og óvæntrar tjáningarþarfar þingmanna. Þjóðþrifamál hafa ekki komist á dagskrá eða ekki verið afgreidd vegna þess að pontan var hertekin af þessu liði sem virðir ekki lýðræðislega kjörinn meirihluta og telur sig hafa neitunarvald í öllum málum. Og svo fannst mér þetta fyndið, ég get ekki að því gert.

En auðvitað var þetta barnalegt. En það er miklu fáránlegra að leggja undir sig ræðustól Alþingis með ótal 40 mínútna ræðum og fullum andsvörum án þess að hafa nokkuð til málanna að leggja. Það er hreinlega óþolandi og á ekki að líðast.

Fjárlög eru á ábyrgð stjórnarmeirihlutans hverju sinni. Mér skilst að það sé algjört einsdæmi að málþófi sé beitt á þau enda eru þau forsendan fyrir ríkisrekstrinum. Fjárlagavinnan er tímafrek og oft hafa þau verið samþykkt rétt fyrir jólahlé og jafnvel í tímaþröng. Í haust var verklagi á þinginu breytt, meðal annars til að gefa fjárlögunum betri tíma og klára þau fyrr. Þingið var sett 11. september í stað 1. október áður. Menn þóttust sammála um að ekki væri góður bragur á að klára fjárlögin í þessari tímapressu. Menn voru líka sammála um hvernig umræðan ætti að fara fram. Lagt var til af ágætum fjárlaganefndarmanni sjálfstæðismanna að fyrsta umræða tæki tvo daga en ekki einn fram á nótt og að henni væri skipt niður eftir málaflokkum þar sem fagráðherrar kæmu og ræddu um það sem tilheyrði þeirra ráðuneyti. Þetta var gert og tókst vel. En nú stendur önnur umræða. Samkvæmt starfsáætlun átti hún að fara fram 22. nóvember en beiðni kom frá nefndinni að henni yrði seinkað um viku en nóg væri að 3. umræðu yrði seinkað um einn dag því nefndin var sammála um að litlar breytingar yrðu gerðar milli 2. og 3. umræðu. Nú er þetta allt í uppnámi, 2. umræða stendur enn og menn þykjast hafa margt við fjárlögin að athuga. Og vegna málþófs var ekki hægt að mæla fyrir tekjuhlutanum á föstudaginn og koma skattamálunum til nefndar og umsagna. Það finnst mér ómerkilegt.

En auðvitað þarf að ræða fjárlög. Ólíkt Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki lagði Hreyfingin til breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið. Við leggjum til að endursamið verði um vaxtakostnað ríkisins sem er skelfilegur enda skuldirnar ósjálfbærar og fjármunir settir í fjársveltar sjúkrastofnanir. Og búið er að mæla fyrir tillögunni í ræðu, það gerði Þór Saari fyrir okkur enda treystum við Birgitta honum ágætlega til að koma sjónarmiðum Hreyfingarinanr fram með skýrum hætti. Og það er galið að ætlast til þess að allir þingmenn tjái sig um fjárlögin en Illugi Gunnarsson mæltist til í Silfri Egils í dag að fjölmiðlar könnuðu hvers vegna sumir þingmenn hefðu enn ekki sett sig á mælendaskrá um þetta mikilvæga mál.

Á Íslandi eru þingmenn fáir og við höfum komist upp með mun óskipulagðara þing en fjölmennari þjóðþing gætu nokkurn tíma. Í Svíþjóð eru þingmenn 349 talsins og augljóst að þeir geta ekki allir haldið 40 mínútna ræður um fjárlögin sín. En talsmenn flokkana gera það. Ætli sænskir fjölmiðlar gangi á röðina og spyrji hina þingmennina hvers vegna í ósköpunum þeir láti þetta mál afskiptalaust? Er ekki skynsamlegt að skipta með sér verkum? Ég hefði haldið það. En nei, allir verða að fá að tala eins og í leikskólanum.

En um hvað er málþófið? Varla um fjárlögin fyrst engar breytingatillögur koma fram. Málþóf eru nefnilega ekki alltaf um málið sem rætt er heldur eitthvað annað mál sem ekki má komast á dagskrá eða menn eru að reyna að semja um. Tekjuöflunarmál ríkisstjórnarinnar hafa ekki komist á dagskrá en það mun gerast fyrr en síðar. Málin sem ekki mega komast á dagskrá er rammaáætlunin, sjávarútvegsmálin og svo er verið að reyna að hafa áhrif á málsmeðferðina í stjórnarskrármálinu. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er búin að fjalla um það mál í meira en ár, hefur fengið til sín ótal gesti, sérfróða sem áhugamenn. Þjóðin vill nýja stjórnarskrá og er sátt við tillöguna að mestu leyti. Sem þýðir að Sjálfstæðisflokkurinn og sá hluti Framsóknarflokksins sem búinn er að gleyma eigin kosningaloforðum töpuðu. En nú á að reyna að eyðileggja málið í þinginu og það er ljóst að besta leiðin til þess er að tefja málið svo mikið að ekki verði hægt að afgreiða það í vor. Einhvers staðar heyrði ég að stjórnmál snérust um að tefja mál svo mikið að þegar þau loks kæmust í gegn skiptu þau ekki lengur máli. En stjórnarskráin skiptir máli og þjóðin bæði vill og þarf nýja stjórnarskrá.

En þetta þarf ekki að vera svona, hægt er að stöðva ofbeldi stjórnarandstöðunnar með því að beita 71. gr. þingskapa sem hljómar svo:

71. gr.

Ef umræður dragast úr hófi fram getur forseti úrskurðað að ræðutími hvers þingmanns skuli ekki fara fram úr ákveðinni tímalengd.

Forseti getur stungið upp á að umræðum sé hætt og einnig getur forseti lagt til, hvort heldur í byrjun umræðu eða síðar, að umræðum um mál skuli lokið að liðnum ákveðnum tíma. Eigi má þó, meðan nokkur þingmaður kveður sér hljóðs, takmarka ræðutíma við nokkra umræðu svo að hún standi skemur en þrjár klukkustundir alls. Tillögur forseta skulu umræðulaust bornar undir atkvæði og ræður afl atkvæða úrslitum.

Sömuleiðis geta níu þingmenn krafist þess að greidd séu atkvæði um það umræðulaust hvort umræðu skuli lokið, umræðutími eða ræðutími hvers þingmanns takmarkaður.

Nú hefur verið samþykktur takmarkaður umræðutími eða ákveðinn ræðutími hvers þingmanns og skal þá forseti skipta umræðutímanum í heild sem jafnast á milli fylgismanna og andstæðinga máls þess sem er til umræðu, án þess að hann sé bundinn við í hvaða röð þingmenn hafa kvatt sér hljóðs, eða milli flokka ef hentara þykir.

Ákvæði þessarar greinar ná einnig til ræðutíma ráðherra.

Til þess þarf hins vegar níu þingmenn eða forseta með bein í nefinu og meirihluta á þingi sem myndi samþykkja tillöguna. En við ætlum kannski að vera bara áfram í sandkassanum?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is