Föstudagur 23.11.2012 - 22:40 - FB ummæli ()

Vonlausa stríðið

“Hið alþjóðlega stríð gegn fíkniefnum hefur tapast með skelfilegum afleiðingum fyrir einstaklinga og samfélög um heim allan.” Á þessum orðum hefst skýrsla sem kom út í júní í fyrra. Að henni standa engir aukvisar en hún er unnin af Global Commission on Drug Policy á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og meðal skýrsluhöfunda eru menn eins og Kofi Annan  fyrrverandi aðalritari SÞ, Thorvald Stoltenberg fyrrum utanríkisráðherra Noregs, George Paoandreou þá forsætisráðherra Grikklands, Ruth Dreifuss fyrrverandi forseti Sviss og fleiri kanónur á sviði alþjóðastjórnmála og mannréttinda.

Í grundvallaratriðum er ég sammála niðurstöðum þessa ágæta plaggs. Stríðið gegn fíkniefnum sem Nixon lýsti yfir fyrir meira en 40 árum hefur reynst algjörlega misheppnað og þær aðferðir sem áttu að stemma stigu við vandanum hafa gert meiri skaða en gagn. Milljónir manna hafa verið fangelsaðir með hörmulegum afleiðingum fyrir þá og þeirra nánustu án þess að það hafi haft nokkur áhrif á framboð eða eftirspurn á fíkniefnum. Í framleiðsluríkjunum geysa stríð vegna þessara mála, í Mexíkó deyja árlega þúsundir manna í átökum tengdum fíkniefnaframleiðslu og útflutningi. Þá hefur verið bent á að ástandið ýti undir útbreiðslu HIV veirunnar.

Stríðið gegn fíkniefnum hefur valdið gífurlegum skaða, skert mannréttindi fíkla og jaðarsett þá. Það hefur skapað gríðarstóran, alþjóðlegan undirheimamarkað með fíkniefni sem stjórnað er af fólki sem virðist nánast ósnertanlegt. Á meðan eru þeir sem neðstir eru í keðjunni; neytendur, götusalar og burðardýr, skilgreindir glæpamenn þótt í mörgum tilfellum séu þeir frekar fórnarlömb en eiginlegir gerendur og skaði enga nema sig sjálfa.

Í mínum huga er fíkniefnavandinn heilbrigðisvandi. Ef fíkn er á annað borð sjúkdómur (og það tel ég að sé) þá er öll vímuefnafíkn sjúkleg, ekki bara fíkn í löglega vímugjafa. Og sjúku fólki þarf að hjálpa og allir eiga rétt á að lifa með reisn. Þá virðist í sumum tilfellum lítið samræmi á milli skaðsemi fíkniefna og lagalegrar stöðu þeirra. Fá fíkniefni valda meiri skaða en áfengi, bæði hjá þeim sem hefur misst stjórn á neyslu sinni og umhverfi hans.

En hvað er þá til ráða? Í fyrsta lagi þarf að „afglæpavæða“ fíkniefnaheiminn. Það á ekki að taka fast á þeim sem eru neðstir í keðjunni svo lengi sem þeir skaði ekki aðra. Skoða þarf af fullri alvöru hvort hægt sé að taka fíkniefnamarkaðinn yfir, t.d. með einhverju stigi lögleiðingar mýkri efna og dreifingu neysluskammta á harðari efnum beint til fíkla. Á meðan hagnaðarvonin í fíkniefnainnflutningi og dreifingu er eins mikil og hún er mun markaðurinn lifa góðu lífi og halda áfram að stækka. Fíkniefnaheimurinn eins og hann er nú er meginstoð skipulagðrar glæpastarfsemi, hér sem annars staðar.

Efla þarf heilbigðisþjónustu fyrir neytendur fíkniefna. Sprautur og sprautunálar þurfa að vera ókeypis fyrir þá sem á þeim þurfa að halda til að stemma stigu við útbreiðslu sjúkdóma á borð við HIV og lifrarbólgu og fíklar ættu aldrei að þurfa að óttast að leita til læknis eða lögreglu. Fólk ætti ekki að þurfa að stunda glæpsamlegt líferni til að fjármagna neysluna, það kemur á endanum niður á samfélaginu öllu. Í mörgum tilfellum er hægt að koma í veg fyrir dauðsföll vegna ofneyslu með aðgengi að heilbrigðisstarfsfólki og gæðaeftirliti með efnunum. Og við þurfum fjölbreyttari meðferðarúrræði. Gott starf er unnið hjá SÁÁ og víðar en það hentar ekki endilega öllum.

Við þurfum að halda áfram með öflugar forvarnir en forðast hræðsluáróður sem engu skilar hvort sem er. Hlúa þarf sérstaklega að þeim sem standa höllum fæti og eru í áhættuhópum. Og við megum ekki vera hrædd við að tala um þetta, kryfja vandann og leggja til leiðir til úrbóta. Ég kalla eftir yfirvegaðri og opinni umræðu um þessi mál. Förum yfir reynslu landa sem reynt hafa aðrar leiðir til að stemma stigu við vandanum, svo sem Portúgal og nokkurra annarra Evrópulanda sem og Kanada, og reynum að læra af því sem þar hefur gengið vel.

Ráðumst á vandann með mennskuna að vopni en ekki vígbúinni lögreglu, forvirkum rannsóknarheimildum og aukinni hörku.

Greinin birtist fyrst í DV 23. 11. 2012.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is