Sunnudagur 18.11.2012 - 19:06 - FB ummæli ()

Stór áfangi

Á föstudaginn var nýju þingskjali dreift á Alþingi, frumvarpi til stjórnskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Við erum sem sagt komin þetta langt í ferlinu. Til hamingju öll! Kominn tími til segja sumir en í raun erum við á hárréttum tíma miðað við að stjórnarskrárbreyingar eru það síðasta sem samþykkt er á einu kjörtímabili – að samþykkt lokinni ber að rjúfa þing, kjósa á nýjan leik og svo þarf nýtt þing að samþykkja plaggið líka. Það vona ég að verði raunin og ætla að gera allt sem í mínu valdi stendur til að svo verði.

Það plagg sem nú er lagt fyrir er frumvarp stjórnlagaráðs að lokinni yfirferð sérfræðingahóps sem fór yfir skjalið frá sjónarhóli lögspekinga; markmiðið var að skoða hvort þarna væri eitthvað sem lögfræðilega gengi ekki upp eða rækist hvert á annars horn. Hópurinn skilaði niðurstöðu sinni til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í síðustu viku og mér finnst þau á heildina litið hafa unnið gott verk innan síns umboðs.

Þó eru nokkur atriði sem ég set spurningarmerki við og veit að þingið og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mun fara betur yfir hvort breytingarnar feli í sér efnislegar breytingar sem ekki var lagt upp með að yrðu gerðar. Það fyrsta felst í að síðari hluti 13. gr. um eignarréttinn og að honum fylgi skyldur er felldur út og fluttur ásamt öðrum takmörkunum á réttindum í 9. gr. Ég vil að eignarétti fylgi skyldur og mér finnst þetta vera efnisbreyting.

Eins hefur verið bent á viðbót við 24. gr. þar sem segir að virða skuli rétt foreldra til að tryggja að menntun barna þeirra sé í samræmi við trúar og lífsskoðanir þeirra. Í þessu held ég að hjóti að felast efnisbreyting en hugsanlega er hún komin úr einhverjum þeirra alþjóðlegu sáttmála sem við höfum samþykkt. Það þarf nefndin nú að skoða.

Þá er ég ekki sátt við meðferðina á 14., 15. og 16. greinum sem fjalla um tjáningar- og upplýsingafrelsi (áður skoðana- og tjáningarfrelsi), upplýsingarétt og frjálsa og upplýsta þjóðfélagsumræðu (áður frelsi fjölmiðla). Í þessum þremur greinum er töluvert fært á milli innbirgðis og fara þarf vel yfir að ekkert vanti. Í raun finnst mér 15. greinin sem slík betri eftir yfirferð lagahópsins en nú snýr hún bara að rétti borgarana til upplýsinga frá hinu opinbera. Það að öllum sé frjáls að  safna og miðla upplýsingum er fært í 14. grein en ég er ekki sannfærð um að nýtt orðalag þar nái utan um hugmyndina en þar er talað um að öllum sé „frjálst að leita eftir, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum“ en ég sakna orðsins „safna“ úr 15. gr. eins og hún var. Alvarlegast finnst mér þó að 3. mgr. 14. gr. um netfrelsið er tekin út en hún hljómar svo: „Stjórnvöld skulu tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu. Óheimilt er að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður við tjáningarfrelsi.“

Árið 2008 dvaldi ég í nokkra mánuði í Kína. Á þeim tíma var ég sjálfstætt starfandi í bókabransanum og tók því bara tölvuna með. Það er jú net í Kína … eða ekki. Netið í Kína virkar nefnilega ekki eins og hér heima. Á þessum tíma var ég t.d. að safna myndefni fyrir kennslubók í félagsfræði og vantaði myndir af mótmælum. (Ári síðar átti ég nóg af slíku í fjölskyldualbúminu en ekki þá). Um leið og ég sló inn orði eins og „protest“ í myndabankana fraus netið. Og í nokkra daga, á meðan órói var í Tíbet og mótmæli víða um heim í aðdraganda ólympíuleikanna, komst ég ekki inn á neina fréttamiðla, ekki einu sinni Moggann (sem kommúnistar á Íslandi hafa reyndar löngum vitað að væri stórhættulegur fjölmiðill). Þá ættum við öll að muna arabíska vorið þegar hreinlega var slökkt á netinu dögum saman til að gera mótmælendum erfiðara fyrir að skipuleggja sig. Svona lagað má aldrei gerast á Íslandi og þess vegna finnst mér ekki bara mikilvægt heldur hreinlega lífsnauðsynlegt að tryggja netfrelsi í nýrri stjórnarskrá. Þessar þrjár greinar þarf að skoða vel og við þurfum að vera þess fullviss að það sem þjóðfundurinn, stjórnlagaráð og svo þjóðin sjálf kaus í þjóðaratkvæðagreiðslu sé að finna í þessu plaggi.

Þá má einnig benda á að eftir yfirferð lagatæknanna er frumvarpið ekki eins hljómfagurt. Frumvarp stjórnlagaráðs er á fallegri og tærri íslensku og hefur ákveðinn tón. 5. gr. hét t.d. Skyldur borgaranna en ber nú heitið Gildissvið. Kannski er það skýrara en hitt er fallegra.

Frumvörp fara í gegnum þrjár umræður á Alþingi áður en þau eru endanlega samþykkt og verða að lögum og það er góð og gild ástæða fyrir því. Í meðförum þingsins berast okkur oft góðar ábendingar sem bregðast þarf við. Því gefst færi á að færa þessi atriði og hugsanlega fleiri aftur í það horf sem lagt var upp með. Og leiðarljós okkar í þinginu er alveg skýrt – frumvarp stjórnlagaráðs liggur fyrir og meirihluti kjósenda vildi leggja það til grundvallar nýrri stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 20. október.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is