Þriðjudagur 16.10.2012 - 22:31 - FB ummæli ()

Læknisvottorð fyrir lántöku

Lánamálin á Íslandi eru auðvitað út úr kú. Þurfi maður á láni að halda stendur valið á milli vont, verra og verst. Og stundum er ekki einu sinni hægt að átta sig á því þegar lánið er tekið hversu slæmt það er. Fæstir gerðu ráð fyrir hruni og verðbólguskoti þegar þeir tóku húsnæðislán sem nú hafa stökkbreyst – hvort sem þau voru gengistryggð eða verðtryggð. Og sum gengistryggðu lánin koma kannski til með að lækka einhvern tímann – önnur ekki vegna þess að þeir sem þau tóku fóru í annan banka sem var með öðruvísi eyðublöð. Alþingi tók að sér að breyta vaxtakjörum þeirra lánasamninga afturvirkt og skellti um 20% vöxtum á þau þrjú ár í röð. Gaman. Niðurstaða mín eftir að hafa verið með nefið ofan í lánamálum fólks síðustu fjögur árin er sú að þetta er allt saman galið og klikkað.

En nú hefur komið fram alveg ný útgáfa af klikkuðum lánum. Smálánin. Og þeir sem þau veita virðast ekki alveg í lagi sjálfir því samkvæmt frétt á Vísi í dag verður geðfötluðum einstaklingum ekki lengur lánað fé. Í fréttinni segir:

Auk þess verður lokað á lán til geðfatlaðra einstaklinga. Þetta var ákveðið í gær á fundi Útlána, regnhlífarsamtaka smálánafyrirtækja.

Nú langar mig að vita hvernig lánveitendurnir ætla að sigta út hverjir úr viðskiptavinahópnum eru heilir á geði og hverjir ekki. Ætla þeir að krefjast læknisvottorðs? Eða meta þeir þetta bara í gegnum síma? Og átta  mennirnir sig ekki á fordómunum og mismununinni sem í þessu felst? Ég er alls ekki að mælast til þess að nokkur maður taki lán á Íslandi – og alls ekki smálán – en þetta er ekki hægt. Það er bara þannig.

Í stjórnarskránni (þeirri gömlu) segir:

65. gr.

Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Og þeirri sem kosið verður um á laugardaginn:

6. gr. Jafnræði.

Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litar­ háttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Stoppum bullið og gefum skýr skilaboð á laugardaginn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is