Mánudagur 15.10.2012 - 22:11 - FB ummæli ()

Ný stjórnarskrá gegn spillingu

Stundum er sagt að stjórnarskráin hafi ekki valdið hruninu. Það er alveg rétt en við sem lentum í þeim ósköpum öllum og viljum nýtt og betra samfélag hljótum að spyrja okkur hvort hægt sé að koma í veg fyrir þá spillingu sem átti drjúgan hlut í hruninu með stjórnarskrárbreytingum. Ég tel minnst þrennt vera í tillögum stjórnlagaráðs sem vinnur gegn spillingu.

Í fyrsta lagi skiptir miklu að valdmörk og hlutverk séu skýr. Þannig er það ekki nú og í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er fjallað um hvernig menn fóru með málefni ríkisins utan formlegs vettvangs stjórnmála og stjórnsýslu. Ákvarðanir sem ríkisstjórn, studd af upplýstu þingi, hefði átt að taka voru teknar af tveimur mönnum sem voru kannski ekki einu sinni á fundi. Enginn getur lesið núgildandi stjórnarskrá án þess að þekkja til og dregið upp sæmilega skýra mynd af því hvernig við höfum hlutina hérna. Þegar valdmörk eru ekki skýr er erfitt og jafnvel útilokað að benda á þegar einhver fer út fyrir sinn ramma.

Þá er réttur almennings til upplýsinga styrktur svo um munar. Í 14. gr. er kveðið á um skoðana- og tjáningarfrelsi og þar segir „Stjórnvöld skulu tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu. Óheimilt er að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður við tjáningarfrelsi.“

15. greinin fjallar um upplýsingarétt og er nýmæli:

Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum.

Stjórnsýsla skal vera gegnsæ og halda til haga gögnum, svo sem fundargerðum, og skrásetja og skjalfesta erindi, uppruna þeirra, ferli og afdrif. Slíkum gögnum má ekki eyða nema samkvæmt lögum.

Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af. Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur.

Söfnun, miðlun og afhendingu gagna, geymslu þeirra og birtingu má aðeins setja skorður með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem vegna persónuverndar, friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. Heimilt er í lögum að takmarka aðgang að vinnuskjölum enda sé ekki gengið lengra en þörf krefur til að varðveita eðlileg starfsskilyrði stjórnvalda.

Um gögn sem lögbundin leynd hvílir yfir skulu liggja fyrir upplýsingar um ástæður leyndar og takmörkun leyndartíma.

16. greinin fjallar svo um frelsi fjölmiðla, sú 17. um frelsi lista og fræða og svo framvegis.

Þetta skiptir öllu. Ef við höfum engin tæki eða tól til að komast að því hvað er að gerast á bak við luktar dyr í stjórnarráðinu og víðar, getum við ekkert gert. Greinarnar er hluti af mannréttindakaflanum – upplýsingafrelsið er skilgreint sem mannréttindi okkar. Ég hef ekki heyrt neinn mæla á móti þessum nýju greinum en ég hef heyrt marga andstæðinga nýrrar stjórnarskrár segja að það hafi nú alveg verið óþarfi að endurskoða mannréttindakaflann. Mig grunar að það sé vegna þessara ákvæða. Það er einhvern veginn ekki hægt að vera á móti þeim opinberlega en ef maður hefur eitthvað að fela eru þær andstyggilegar!

Þá er einnig kveðið á um margvíslega aðra upplýsingaskyldu stjórnvalda, t.d. vegna umhverfis og náttúru sem og fjárhagslegra hagsmuna þingmanna og ráðherra og þeim gert að veita þinginu réttar upplýsingar. Einnig er skylt að veita upplýsingar um styrki til stjórnmálasamtaka og frambjóðanda og réttur fjárlaganefndar þingsins til upplýsingaöflunar styrktur.

Þriðja atriðið sem ég vil nefna sem eitt þeirra sem er vopn í baráttu gegn spillingu er auðveldara inngrip almennings í stjórnmálin og stjórnsýsluna. Mörg okkar vöknuðu upp við vondan draum veturinn 2008-9 þegar við áttuðum okkur á að við gætum ekkert gert annað en að vera með læti við Alþingishúsið. Á 21. öldinni hljótum við að geta komið okkur saman um betri aðferðir til að fá okkar fram. Með því að hluti þjóðarinnar geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu eða lagt fram þingmál erum við að tryggja aðkomu almennings að lagasetningu og stjórnun landsins. Menn geta líka lagt fram tillögu um þingrof eða að einstakir ráðherrar víki ef þörf krefur. Þetta getum við ekki nú.

Hrunið var mannanna verk en það er óþarfi að láta annað eins henda aftur. Lærum af því sem gerðist. Mætum öll á kjörstað þann 20. október og gefum þinginu skýr skilaboð.

 

Greinin birtist fyrst í DV 10. október 2012. 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is