Laugardagur 13.10.2012 - 19:50 - FB ummæli ()

Tilraunin Ísland

Síðustu vikur hefur hin stórglæsilega Dögunarrúta verið á ferðinni um landið ásamt fólki frá SaNS að kynna og ræða frumvarp stjórnlagaráðs og hvetja fólk til að kjósa. Stundum hef ég fengið að koma með en yfirleitt komast færri en vilja. Síðustu helgi vorum við á Vesturlandi og í Borgarnesi rakst ég á kassa fullan af bókum sem eldri borgarar í bænum eru að selja og rak að sjálfsögðu nefið ofan í hann í leit að dýrgripum og fann – meðal annars bók sem heitir Tilraunin Ísland í 50 ár – erindasafn, en það var Listahátið í Reykjavík sem gaf verkið út árið 1994 í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Í bókinni eru margar skemmtilegar greinar ritaðar í tilefni lýðveldisafmælisins en athyglisverðastur þykir mér þó pistill Ólafs Þ. Harðarsonar „Tilraunin um smáríkið Ísland: Þáttur stjórnmálanna“ því hún fjallar að mörgu leyti um það sem við erum að fást við núna og reyna að laga en frá öðru sjónarhorni, öðrum tíma og ekki í skugga hruns eða þess dægurþras sem nú einkennir umræðuna. Í eftirmála ritstjóra, þeirra Kristjáns Kristjánssonar og Valgarðs Egilssonar, er greinin endursögð í stuttu máli í eftirfarandi orðum:

Kjarninn i grein Ólafs Þ. Harðarsonar er að framfarir hafi orðið á Íslandi þrátt fyrir vonda stjórnarhætti og misvitra stjórnmálamenn. Veikt embættismannakerfi hafi alla öldina verið dragbítur á fagleg vinnubrögð, þess í stað hafi þróast umfangsmikið ríkisafskiptakerfi, byggt á hentistefnu og fyrirgreiðslupólitík stjórnmálamanna á atkvæðaveiðum, en án snefils af skynsamlegri stefnumótun: „Tilraunin um smáríkið Ísland hefur miklu frekar tekist vegna þess að við höfum unnið í happdrættinu en vegna þess að við höfum unnið skynsamlega á sviðum stjórnmála og hagstjórnar.“ Glópalán okkar stafar af því manna sem okkur hefur hlotnast af himnum, eða öllu heldur úr hafinu – en hversu lengi endist það?

En grípum niður í grein Ólafs:

Markaði stofnun lýðveldisins á Íslandi árið 1944 þau tímamót að eðlilegt sé að greina lýðveldistímann sérstaklega og spyrja: Tókst tilraunin um lýðveldið? Eða er eðlilegra að miða við annað tímabil?

Lýðveldisstofnunin markaði auðvitað tímamót: Ísland varð lýðveldi og tók stjórn utanríkismála í eigin hendur. En stjórnmálakerfið breyttist ekki mikið. Ekki var þjóðinni færð ný stjórnarskrá heldur voru gerðar lágmarksbreytingar á þeirri gömlu; helstar þær að innlendur forseti kom í staðinn fyrir danskan kóng. Innlenda stjórnkerfið, t.d. þing, ríkisstjórn, embættiskerfi, stjórnmálaflokkar og hagsmunasamtök höfðu mótast fyrir 1944 og breyttust lítt eða ekki við stofnun lýðveldis.

Færa má rök fyrir því að hvað innlenda stjórnskipan varðar hafi heimastjórnin 1904 markað miklu meiri tímamót en lýðveldisstofnunin. Þá varð til íslenskt framkvæmdavald og embættiskerfi. Þingræðið hélt líka innreið sína og átti þátt í tilkomu stjórnmálaflokka. Eftir 1904 réðu Íslendingar að verulegu leyti eigin málum sjálfir.

Önnur mikilvæg tímamót urðu 1918, þegar Ísland varð frjálst og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku. Eftir það var vafalaust að Ísland var sjálfstætt ríki sem gæti slitið öll tengsl við danska stjórnkerfið eftir 25 ár. Í framhaldinu var svo komið á fót íslenskum hæstarétti árið 1920. Þar með voru þrjár meginstoðir ríkisvaldsins orðnar innlendar: löggjafarvaldið, framkvæmdavaldið og dómsvaldið. Með fullveldinu hvarf einnig eitt megindeilumál íslenskra stjórnmála áratugina á undan, sambandið við Dani. Ný flokkaskipan sá dagsins ljós, byggð á afstöðu til innanríkismála.

Ólafur bendir svo á að hvorki innlenda stjórnmálakerfið né önnur helstu svið þjóðlífsins hafi tekið miklum breytingum 1944. Auðvitað hafi miklar breytingar orðið en þær hafi bæði verið fyrir og eftir þessi tímamót. Hann bendir á að:

Þegar Íslendingar fengu innlendan ráðherra 1904 fylgdi þingræðið með í kaupunum. Í kjölfarið fylgdi stofnun íslensks stjórnarráðs og vísir að embættiskerfi myndaðist. Strax í upphafi mátti greina eitt megineinkenni íslenska stjórnkerfisins sem haldist hefur allar götur síðan: Stjórnmálamenn voru fyrirferðamiklir og réðu miklu um flesta hluti, en sjálfstætt embættiskerfi var veikt.

Ólafur greinir frá því að í nágrannalöndum okkar hafi lýðræðiskerfin sem voru að þróast í kringum aldamótin 1900 fengið embættiskerfin í arf frá einveldinu. Hinir nýju, þjóðkjörnu fulltrúar sem settust á þing og í ríkisstjórnir þurftu því að eiga við embættiskerfi sem var íhaldssamt, reglufast og byggði á langri hefð enda hafði það verið lengi í þróun:

Í reyndinni varð til stjórnarform, sem var eins konar sátt hinna nýju, lýðræðislegu hugmynda sem stjórnmálamenn voru fulltrúar fyrir  og hins menntaða einveldis, sem þróað hafði kerfi embættismanna og regluveldis.

Á Íslandi í byrjun aldarinnar tók innlent embættiskerfi við af dönsku framkvæmdavaldi og hér varð engin sátt af þessu tagi. Stjórnmálamennirnir sjálfir, sem margir voru hetjur úr sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, drottnuðu ekki bara á löggjafarþinginu heldur réðu þeir líka framkvæmdarvaldinu; embættismenn, sem margir voru pólitískt skipaðir, urðu fremur þjónar stjórnmálamanna en sjálfstæðir embættismenn sem lutu almennum reglum og gátu verið talsmenn faglegra sjónarmiða. Regluveldi, sem m.a. felur í sér verkaskiptingu, stigskiptingu valds og ópersónulega stjórnsýslu, átti erfitt uppdráttar. Hvers vegna skyldu menn sem áttu erindi við ríkisvaldið fylgja almennum reglum og eiga við undirtyllur þegar þeir gátu talað beint við ráðherrann sjálfan, ráðherra em var líklegur til að skipa fyrir um smámál eins og ráðningu dyravarða, ráðherra sem lét ekkert mannlegt sér óviðkomandi? Stjórnkerfið sem þróaðist á Íslandi einkenndist þannig af miklum völdum stjórnmálamanna, litlum áhrifum embættismanna og fáum almennum reglum og þar með miklum afskiptum lýðkjörinna fulltrúa af öllum þáttum framkvæmdavalds og stjórnsýslu.

Þá er fjallaðu um upphaf fjórflokksins á árunum 1916-30 og að þeir hafi þróast með öðrum hætti en í nágrannalöndunum:

… þeir voru skipulagslega veikar einingar, þátttaka almennings skipti ekki mjög miklu máli – nema helst í kosningum – og valdið lá áfram hjá forystumönnum og þingflokki í enn ríkari mæli en meðal nágranna okkar. Fyrirgreiðslupólitík varð áberandi og meiginmarkmið flokkanna virtist fremur það að vinna í kosningum og komast í ríkisstjórn til þess að hafa aðgang að kjötkötlunum en að vinna ákveðinni stefnu framgang. Stefnan var hentistefna, tæki til að öðlast kjörfylgi.

Svo er fjallaðu um það kerfi ríkisafskipta sem mótaðist á fjórða áratugnum á tímum innflutningshafta, skömmtunaseðla og ýmissa afskipta af efnahagskerfinu, svo sem með lánafyrirgreiðslu og afskipta flokkanna og stjórnmálaforingja á flestum sviðum samfélagsins með útgáfustarfsemi, ráðningum í störf og lóðaúthlutunum svo einhver dæmi séu nefnd.

Þetta kerfi færði flokksforingjunum gífurleg völd á flestum sviðum og ásóknin eftir því að fara með ríkisvaldið jókst. Kjósendur veittu flokksforingjum lítið aðhald; stéttarstaða og flokkshollusta réðu miklu um það hvar menn skipuðu sér í sveit í kosningum.

Auðvitað hefur ýmislegt breyst. Mér skilst að á veggjum Alþingis hafi fyrir ekki svo löngu síðan verið standar fyrir víxileyðublöð. En hefur okkur tekist að breyta nægilega miklu? Grunnreglurnar – stjórnarskráin, er í megindráttum sú sama. Ráðherrar er líka þingmenn og geta vasast í fleiru en gott er eins og dæmin sanna. Og eins og lesa má í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er foringjaræðið svakalegt.

En nú er tækifæri til að taka risastórt stökk inn í nútíðina, 21. öldina þar sem allir eiga að sitja við sama borð og kóngurinn, nei afsakið, forsetinn, getur ekki veitt mönnum undanþágu frá lögum eins og hann getur samkvæmt 30. grein þeirrar stjórnarskrár sem nú gildir. Kjósum 20. október um hverjar grunnreglur samfélags okkar eiga að vera!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is