Miðvikudagur 10.10.2012 - 10:44 - FB ummæli ()

Peningar og stjórnmál

Nú í morgunsárið hlustaði ég á nánast súrealískar umræður um styrki til stjórnmálaflokka í þeim ágæta þætti Í bítið á Bylgjunni. Í upphafi gafst þó hlustendum kostur á að hringja inn og segja skoðun sína á ríkisstyrkjum til stjórnmálaflokka. Sitt sýndist hverjum um þær hundruðir milljóna sem stjórmálaflokkarnir fá á hverju ári – eðlilega. Gestir þáttarins voru svo Sirrý Hallgrímsdóttir, formaður Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna í Reykjavík, sem skrifaði grein í Moggann í gær þar sem hún vakti athygli á því að 89% af tekjum VG hafi komið frá ríkinu á síðasta ári og Álfheiður Ingadóttir, þingflokksformaður VG.

Lítið fór fyrir því í umræðunni að Sjálfstæðisflokkurinn fær auðvitað líka sinn ríkisstyrk og samkvæmt lögum er það eftir fylgi í síðustu kosningum. Á vef Ríkisendurskoðunar má kynna sér fjármál hvers stjórnmálaflokks fyrir sig. Þar kemur fram að Sjálfstæðisflokkurinn fékk kr.  90.027.578.- á síðasta ári frá ríkinu! VG fékk hins vegar „bara“ kr.  78.217.588.- Sjálfstæðisflokkurinn fær því töluvert meira frá ríkinu en „dyggðin“ að mati Sirrýjar er að hann er líka svo ljómandi duglegur að afla sér tekna með öðrum hætti. Flokkurinn tók t.d. við kr.  16.103.756.- frá lögaðilum, sumum tengdum eins og bent hefur verið á í trássi við anda laganna.

Það er klikkað að heyra að aðeins fjórum árum eftir hrun sem samkrull viðskiptalífs og stjórnmála orsakaði að miklu leyti, komi fram fólk sem finnst að stjórnmálaflokkar eigi í meira mæli að vera á framfæri fjármagnsins.  Áttunda bindi skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis ber heitið „Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008“. Í kafla II. 3 segir: „Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög, bæði til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna“. (Bls. 164). Enn fremur segir í niðurlagi kaflans þar sem ályktanir eru dregnar og komið er inn á þá lærdóma sem draga þurfi af fortíðinni:  „Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins.” (Bls. 170). Höldum þessu til haga, það veitir ekki af.

Í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn fær hærri ríkisstyrki en VG og reyndar allir stjórnmálaflokkar aðrir en Samfylkingin var undarlegt að heyra málflutning Sirrýjar sem vildi ekki að sitt skattfé færi til VG. Hún ætti ef til vill að beita sér fyrir því að hennar eigin flokkur afþakkaði alla styrki frá ríkinu?

Samkrull viðskiptalífs og stjórnmálaflokka er eitruð blanda. Það er alltaf hægt að halda því fram að styrkir hafi ekki áhrif á gjörðir manna en halló! Hver myndi færa öðrum 25 eða 30 milljónir án þess að ætlast til þess að fá eitthvað í staðinn? Tannálfurinn?

Hvorki Hreyfingin né Dögun, hið nýja stjórnmálaafl sem bjóða mun fram í næstu kosningum þyggja styrki frá lögaðilum. Lögaðilar hafa nefnilega ekki atkvæðarétt né skoðanir – aðeins hagsmuni.

Mér finnast stjórnmálaflokkar fá allt of mikla peninga frá ríkinu og þeim er svo sannarlega misskipt. Lausnin við því er ekki að leyfa styrki frá lögaðilum, tengdum aðilum eða aðra vafasama gjörninga. Lausnin fellst í því að minnka fjárþörfina. Einfaldasta leiðin til þess er að taka fyrir auglýsingar flokkanna í ljósvakamiðlum og efla lýðræðislegar skyldur fjölmiðla, einkum þó RÚV, auðvelda nýjum framboðum að koma boðskap sínum á framfæri og efla umræðu um málefnin. Auglýsingar eru ekki sprottnar úr lýðræðislegri grasrót flokkanna, þær eru glansmyndir, búnar til á auglýsingastofum. Þær efla ekki umræðu, skauta á yfirborðinu og skortir alla dýpt og rökræðu. Lýðræði er ekki bara það að mæta á kjörstað á fjögurra ára fresti, lýðræði er samtalið sem alltaf þarf að eiga sér stað á milli stjórnmálaafla og fólksins í landinu. Það verður ekki búið til á auglýsingastofum.

Hreyfingin hefur enn og aftur lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um fjármál stjórnmálaflokka. Breytingarnar eru í samræmi við markmið gildandi laga um fjármál stjórnmálasamtaka til að draga úr hættu á hagsmunaárekstrum, tryggja gagnsæi í fjármálum, auka traust á stjórnmálum og efla lýðræði.

Í frumvarpinu eru ýmis nýmæli sem jafna stöðu framboða til þátttöku í lýðræðissamfélagi bæði fyrir og eftir kosningar. Helstu breytingar frumvarpsins eru bann við framlög frá lögaðila til stjórnmálasamtaka og takmörk á fjárframlögum einstaklinga við 200 þúsund á ári, auk þess sem framlög hærri en 20 þúsund þurfa að verða opinber innan þriggja daga frá greiðslu. Með því móti verði bókhald stjórnmálasamtaka opið fyrir kosningar.

Þá leggjum við til að að stærri stjórnmálasamtök sem eiga sæti á Alþingi fái ekki hærri fjárframlög en þau smærri. Ríkisstyrkurinn miðist við rekstur á hóflegri skrifstofu og fundaraðstöðu í hverju kjördæmi, auk framlaga til launa framkvæmdastjóra og starfsmanns í hálfu starfi í hverju kjördæmi fyrir sig. Félagsgjöld er réttari vettvangur til aðstöðumunar varðandi fjármuni en að gengið sé að styrkjum úr ríkssjóðum til reksturs.

Auk þess hefur Eygló Harðardóttir vakið athygli á hugmyndum um fjármála flokkanna sem mér hugnast vel þar sem hver og einn ræður til hvaða stjórnmálahreyfingar hans framlag færi á hverju ári. Það myndi veita flokkunum meira aðhald, refsa þeim eða verðlauna fyrr, og koma í veg fyrir spillingu tengdri fjáraustri frá lögaðilum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is