Laugardagur 06.10.2012 - 00:22 - FB ummæli ()

Herskylda á Íslandi?

Nú í vikunni var ég stödd í Osló í afar gagnlegri ferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Megintilgangur ferðarinnar var að kynna okkur störf samsvarandi nefndar í norska þinginu sem starfað hefur síðan 1993 en okkar nefnd er ný. Við vorum meðal annars viðstödd opin fund þar sem fyrrverandi og núverandi ráðherrar voru yfirheyrðir í marga klukkutíma vegna máls sem upp kom fyrr á árinu og varð til þess að ráðherra sagði af sér. Hann hafði styrkt ungliðahreyfingu eigin stjórnmálaflokks með skúffupeningunum sínum. Slíkt var ekki liðið og meðal gagna í málinu voru SMS skilaboð sem hann hafði sent til samflokksmanna um styrkinn.

Við heimsóttum líka norska ríkisendurskoðandann og umboðsmann Stórþingins. Hvoru tveggja var afar gagnlegt.

Og svo var þingið sett. Á mánudeginum, 1. október, vorum við viðstödd stuttan þingfund þar sem allir þingmenn voru lesnir upp, varaþingmenn teknir inn fyrir þá sem eru í burtu og í lokin var kosin sérstök þingnefnd til að taka á móti kónginum sem kom daginn eftir og las upp stefnuræðu forsætisráðherra og afhenti hana ríkisstjórninni til framkvæmdar. Þann daginn gengum við frá ríkisendurskoðanda að þinginu og virtum fyrir okkur hermenn, flesta unga að árum marsera fram og til baka frá konungshöllinni að Stórþinginu. Vopnaðir hermenn, vart komnir af barnsaldri, stóðu vörð um Karls Johans götu, margir með riffla og byssustinga. Mér varð hugsað  til sona minna, örlítið yngri. Ekki vildi ég að þetta biði þeirra.

Ég vil ekki her á Íslandi og mér finnst rétt að stjórnarskrárbinda bann við herskyldu eins og frumvarp Stjórnlagaráðs leggur til en þar segir:

31. gr.
Bann við herskyldu.

Herskyldu má aldrei í lög leiða.

Í greinargerð með frumvarpinu segir:

Markmið greinarinnar er að stjórnarskrárbinda bann við herskyldu á landinu þannig að aldrei verði hægt að skuldbinda íslenska ríkisborgara til að þjóna í her. Greinin er ný og því mikil breyting að henni. Réttaráhrif eru þó ekki talin verða mikil þar sem aldrei hefur verið rekinn formlegur íslenskur her og ólíklegt þykir að stjórnvöld í fyrirsjáanlegri framtíð muni vilja setja hann á stofn. Um leið á að vera ljóst að enginn annar aðili, innlendur eða erlendur, getur skyldað íslenska ríkisborgara til herþjónustu.

Þetta ákvæði er til samræmis við óskir Þjóðfundar um að stjórnarskráin fjalli um og taki af­ stöðu til friðar, hernaðarbandalaga og þátttöku í stríði, að Ísland tæki ekki þátt í stríði gegn öðrum þjóðum, væri hlutlaust friðarríki, og væri herlaust og hernaðarlega hlutlaust. Þá bárust Stjórnlagaráði nokkur erindi þar sem óskað var eftir banni við herskyldu, herleysi og frið­ lýsingu frá kjarnorkuvopnum.

Ekki var berum orðum rætt um bann við herskyldu á Þjóðfundi, en talið var ljóst að í hinni eindregnu afstöðu gegn hernaði sem birtist á Þjóðfundi væri hið minnsta falin afstaða gegn rekstri íslensks hers og þar með stuðningur við bann við herskyldu. Upphaflega var rætt að setja inn ákvæði sem gengi lengra þar sem kveðið væri á um að Ísland skyldi vera herlaust land. Við umræður í Stjórnlagaráði komu fram ólík sjónarmið um þetta. Töldu sumir að Ís­ land hefði lengi ekki verið herlaust vegna veru Bandaríkjahers á Miðnesheiði og allt eins lík­ legt væri að þær aðstæður gætu risið á ný að stjórnvöld myndu óska aðstoðar erlends hers við varnir landsins. Aðrar raddir voru uppi þess efnis að við greinina skyldi bæta „né herútboð gera“ og að í henni ætti að vísa til landsins sem friðelskandi þjóðfélags. Þessar hugmyndir nutu ekki stuðnings meirihluta ráðsfulltrúa.

Þau sjónarmið komu fram að með því að banna herskyldu yrði íslenskum stjórnvöldum gert ókleift að kalla landsmenn til varna ef ráðist yrði á landið. Þetta er ekki talið koma í veg fyrir það þar sem ekki er gert ráð fyrir banni við stofnun hers en hann þyrfti þá að vera mannaður af sjálfboðaliðum. Þykir frekar líklegt að ef á landið yrði ráðist myndu borgarar vilja leggja hönd á plóg við varnir landsins. Þá má telja ólíklegt að ef til árásar kæmi að tími gæfist til að stofna formlegan her. Í stuttu máli ætti þetta bann á engan hátt að koma í veg fyrir að íbúar landsins gætu skipulagt mótstöðu við utanaðkomandi árás.

Við fáum að segja okkar skoðun þann 20. október. Mætum á kjörstað!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is