Fimmtudagur 27.09.2012 - 22:39 - FB ummæli ()

Að skrifa eða leggja fram frumvarp að lögum

Ég er áhugamanneskja um nýja stjórnarskrá og stundum set ég inn eitthvað sem mér finnst sniðugt um stjórnarskrármálefni á fésbókarsíðuna mína. Margir setja „like“ á það og stundum skapast skemmtilegar umræður. Og stundum halda einhverjir því fram að Alþingi sé samkvæmt núgildandi stjórnarskrá óheimilt að fá einhverja aðra til að skrifa frumvarp að nýrri stjórnarská.

Sko. Duglegir og klárir þingmenn skrifa bæði frumvörp og þingsályktunartillögur. Stundum fá þeir aðstoð frá lögfræðingum á nefndarsviði þingsins eða geta keypt aðstoð sérfræðinga ef á þarf að halda. Og stundum hjálpast þeir að. En langflest þingmál sem lögð eru fram og samþykkt eru skrifuð af einhverju öðru fólki; embættismönnum, sérfræðingum og jafnvel hagsmunaaðilum. Og oft eru þau skrifuð af einhverjum nafnlausum útlendingum því stór hluti löggjafarinnar kemur frá ESB í gegnum EES samninginn. Langflest frumvörp sem verða að lögum eru stjórnarfrumvörp og eru nær alltaf skrifuð af einhverjum öðrum en ráðherranum sem leggur þau fram og mælir fyrir þeim. Samkvæmt 55. grein stjórnarskrárinnar má Alþingi ekki taka við neinum málum nema ráðherra eða þingmaður flytji það. Það stendur hins vegar ekkert um að þeir þurfi að skrifa þingmálin sjálfir.

Þar með er ekki sagt að hugmyndirnar sem verið sé að leggja fram og stundum lögfesta séu embættismannanna eða sérfræðinganna. Þvert á móti. Stjórnmálaflokkar hafa ólíkar leiðir til að móta stefnu sína en mér finnst æskilegast að sem flestir komi að stefnumótuninni. Og enginn á einkarétt á hugmyndum. Kjósendur velja svo þá flokka, frambjóðendur og stefnu sem þeim lýst best á og treysta. Ráðherrar meirihlutans reyna svo (í fullkomnum heimi) að koma stefnumálum flokksins að með því að leggja fram þingmál – sem einhverjir aðrir skrifa.

Það er ekkert öðru vísi þegar kemur að breytingu á stjórnarskránni nema Alþingi þarf að samþykkja hana, rjúfa svo þing, svo er kosið og nýtt þing á nýju kjörtímabili þarf að samþykkja hana aftur. Það eina sem er óvenjulegt við það ferli sem unnið hefur verið eftir við ritun nýrrar stjórnarskrár er að þjóðinni er aftur og aftur boðið að segja sína skoðun. Með þjóðfundinum þar sem 950 manns, fullkomið þversnið af þjóðinni, sagði hvað ætti að vera í stjórnarskrá, með úrvinnslu sérfræðinga og valinkunnra manna í stjórnlaganefndinni, með því að þjóðinni var gefið færi á að velja fulltrúa til að skrifa stjórnarskrá þjóðarinnar og nú með því að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðurnar til að sjá hvort hún sé ánægð með afraksturinn áður en lengra er haldið.

Ábyrgðin verður þó alltaf þingsins og því hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lagst í mikla vinnu við að skoða tillögurnar og bera þær undir sérfræðinga.

Ef einhver heldur enn að þingmenn skrifi öll frumvörp sjálfir vil ég benda á þetta frumvarp hér um útgáfu og meðferð rafeyris. Dettur einhverjum í hug að íslenskir þingmenn hafi skrifað þetta sjálfir? Eða ráðherrann?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is