Mánudagur 24.09.2012 - 22:35 - FB ummæli ()

Upplýsingafrelsi og vernd uppljóstrara

Kastljós kvöldsins var magnað.

Viðbrögð Ríkisendurskoðunar eru að umfjöllunin geti stefnt almannahagsmunum í voða.

Þá finnst mér við hæfi að benda á tvö ákvæði í frumvarpi stjórnlagaráðs sem eru nýmæli í mannréttindakaflanum miðað við núgildandi stjórnarskrá. Mannréttindakaflanum sem margir benda á að alveg sé óþarfi að uppfæra því það sé nýbúið að því. Þessar greinar eru líka verulega andstyggilegar fyrir þá sem hafa eitthvað að fela.

15. gr. Upplýsingaréttur

Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum.

Stjórnsýsla skal vera gegnsæ og halda til haga gögnum, svo sem fundargerðum, og skrásetja og skjalfesta erindi, uppruna þeirra, ferli og afdrif. Slíkum gögnum má ekki eyða nema samkvæmt lögum.

Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af. Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur.

Söfnun, miðlun og afhendingu gagna, geymslu þeirra og birtingu má aðeins setja skorður með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem vegna persónuverndar, friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. Heimilt er í lögum að takmarka aðgang að vinnuskjölum enda sé ekki gengið lengra en þörf krefur til að varðveita eðlileg starfsskilyrði stjórnvalda.

Um gögn sem lögbundin leynd hvílir yfir skulu liggja fyrir upplýsingar um ástæður leyndar og takmörkun leyndartíma.

16. gr. Frelsi fjölmiðla

Frelsi fjölmiðla, ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra og gegnsætt eignarhald skal tryggja með lögum.

Vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara skal tryggja í lögum. Óheimilt er að rjúfa nafnleynd án samþykkis þess sem veitir upplýsingar nema við meðferð sakamáls og samkvæmt dómsúrskurði.

Það verður þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta þann 20. október 2012! Frumvarpið í heild má lesa hér.

Og takk Kastljós!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is