Fimmtudagur 06.09.2012 - 09:55 - FB ummæli ()

Kosningavetur

Nú í september verður Alþingi sett á nýjan leik. Þingmenn munu þramma til kirkju og ef til vill fá egg eða tómat í hausinn frá reiðum kjósendum. Vonandi komast allir stórslysalaust frá því.

Ég verð að viðurkenna að ég er með hnút í maganum vegna komandi þingveturs. Ég hef ekki mikla reynslu í þessum efnum en kosningavetur ku vera sérstakur; baráttan enn harðari þótt menn brosi allan hringinn og reyni að telja kjósendum trú um eigið ágæti. Þó er erfitt að ímynda sér að baráttan geti enn harðnað. Er hreinlega svigrúm til þess án þess að það brjótist hreinlega út hópslagsmál?

Markmið mitt í stjórnmálum hefur alltaf verið alveg skýrt. Ég ætlaði að leggja hönd á plóg, hjálpa til við uppbygginguna eftir hrunið, uppræta spillingu og leiðrétta það sem miður fór. Laga Ísland. Í fyrri störfum mínum átti ég því að venjast að vera mikilvægur hlekkur í langri keðju þar sem allir unnu saman að því að gera verkefnið að veruleika. Þar voru helstu “óvinirnir” kostnaður, tíminn (sem var oft af skornum skammti) og hugsanlega samkeppnisaðilar sem buðu upp á eitthvað svipað. Á þinginu búum við hins vegar við það að fólk af holdi og blóði telur það í sínum verkahring að reyna allt hvað það getur til að skemma fyrir öðrum. Kostnaður samfélagsins og tíminn sem fer í þetta allt saman þykja eðlilegur fórnarkostnaður til að upphefja eigið egó.

Nú er staða mín í þessu öllu saman nokkuð sérstök. Ég tilheyri minnsta þingflokknum og við ráðum litlu enda ekki í stjórn. Þessa dagana vinnum við hins vegar lítið með hinni svokölluðu stjórnarandstöðu. Það er ekki vegna þess að við séum sammála öllu sem ríkisstjórnin gerir, þvert á móti. Ég hef hins vegar enga trú á þeim vinnubrögðum sem stjórnarandstaðan ástundar en hún felst að mínu mati aðallega í því að bregða fæti fyrir stjórnarflokkana, vera í prinsippinu á móti bara til að vera á móti og bíða eftir að komast sjálf að kjötkötlunum.

Því er oft haldið fram að eina vopn stjórnarandstöðunnar sé málþóf og því hefur verið beitt ótæpilega á síðasta kjörtímabili. Ég er algjörlega ósammála því að engin önnur leið sé til áhrifa. Við höfum komist að því að hægt er að hafa mun meiri áhrif til góðra verka með annarri nálgun. Auk þingmanna Hreyfingarinnar hafa nokkrir aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar, einkum þó Framsóknarflokks, unnið með uppbyggilegri hætti. Það er nefnilega hægt að hafa mikil áhrif á mál í þinginu með ábendingum, tillögum og rökstuðningi. Það er hins vegar mun meiri og krefjandi vinna en hið stanslausa niðurrif sem krefst engra sérstakra hæfileika annarra en að geta vakað fram á nætur í botnlausu málþófi.

En hvernig getum við breytt þessu? Hvað er til ráða? Við því hef ég enga töfralausn. Engir geta í raun breytt þinginu nema þingmenn sjálfir og enginn hefur vald til að breyta öðru en eigin hegðun. Þó geta landsmenn reynt að veita stjórnmálamönnum meira aðhald með því að fylgjast með því sem er að gerast, gagnrýna störf þeirra með uppbyggilegum hætti (eggjakast telst ekki slíkt) og koma með málefnalegar tillögur og ábendingar. Það er auðvitað auðveldara að kveikja á sjónvarpinu og reyna að gleyma veruleikanum með góðri sápuóperu. En því að vera borgari fylgja ekki bara réttindi heldur líka skyldur. Og það er skylda okkar allra að láta okkur málin varða því þingmenn eru ekki bara fulltrúar sjálfs síns heldur þjóðarinnar allrar.

Greinin birtist fyrst í héraðsfréttablaðinu Selfoss – Suðurland, 6. september 2012.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is