Sunnudagur 02.09.2012 - 23:55 - FB ummæli ()

Styrkir til stjórnmálaflokka og Ríkisendurskoðun

Þórður Björn Sigurðsson, starfsmaður þinghóps Hreyfingarinnar, ritaði bloggfærslu á föstudaginn þar sem hann velti fyrir sér hvort lög um fjármál stjórnmálasamtaka hefðu verið brotin þegar fyrirtæki í sjávarútvegi sem hafa verið í fréttum vegna viðskipta í Vestmannaeyjum styrktu Sjálfstæðisflokkinn en bæjarfélagið telur að um tengd félög sé að ræða. Í grein á Smugunni er svo bent á að hugsanlega hafi fleiri stjórnmálasamtök tekið við vafasömum styrkjum.

Samkvæmt lögunum má ekki styrkja frambjóðanda eða stjórnmálasamtök um meira en 400 þúsund krónur á ári (var reyndar 300 en var hækkað) og skal telja tengda aðila saman. Í 5. lið 2. gr. í lögunum er skilgreining á tengdum aðilum og er hún eftirfarandi:

5. Tengdir aðilar: Lögaðilar þar sem svo háttar til að sami aðili eða sömu aðilar eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í báðum eða öllum lögaðilunum, enda nemi eignarhlutur hvers þeirra um sig a.m.k. 10% af hlutafé, stofnfé eða atkvæðafjölda í viðkomandi lögaðilum. Sama á við ef einstaklingar eða lögaðilar, sem eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðila og hver um sig á a.m.k. 10% hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðilanum, eiga ásamt viðkomandi lögaðila meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í öðrum lögaðila. Til eignarhluta og atkvæðisréttar einstaklinga í lögaðilum samkvæmt þessum tölulið telst jafnframt eignarhlutur og atkvæðisréttur maka og skyldmenna í beinan legg.

Lögin tóku gildi 1. janúar 2007 en fyrir þann tíma var „villta vestrið“ ágætis skilgreining á ástandinu; reglur voru afar frjálslegar og peningar flæddu frá fyrirtækjum til einstakra frambjóðenda og stjórnmálaflokka eins og dæmin sanna. Eftir hrun þótti rétt að skoða þetta enn betur og skipuð var nefnd með fulltrúum allra flokka til að fara yfir lögin. Fulltrúi Hreyfingarinnar var Þórður Björn. Hreyfingin lagðist alfarið gegn því að lögaðilar gætu styrkt stjórnmálahreyfingar eða einstaka frambjóðendur. Lögaðilar hafa engar skoðanir og ekki heldur kosningarétt. Þeir hafa hins vegar hagsmuni sem hægt er að reyna að tryggja með höfðinglegum styrkjum. Slíkt er stundum kallað mútur.

Skemmst er frá því að segja að hinir flokkarnir féllust ekki á að banna styrkji frá lögaðilum. Ítrekað var bent á að þetta væru lágar upphæðir og að tengdir aðilar teldust sem einn. Og Ríkisendurskoðun tryggði að farið væri að lögum. Við treystum okkur ekki til að vera með á málinu og vildum að mun lengra yrði gengið. Málið var því lagt fram og samþykkt af fjórflokknum.

Í hádegisfréttum RÚV í dag var viðtal við Ríkisendurskoðanda. Hann viðurkennir að stofnunin fylgist ekki með því hvort lögunum sé fylgt eftir, til þess vanti bæði hugbúnað og starfsfólk. Minnst tveir aðilar sérhæfa sig á þessu sviði, Creditinfo og Jón Jósef Bjarnason kerfisfræðingur sem sett hefur upp Rel8 gagnagrunninn sem birtir tengsl manna og félaga með myndrænum hætti. Eftir fréttina á RÚV var mér bent á að Jón Jósef hafi í tvígang boðið Ríkisendurskoðun aðgang að kerfinu sínu en í bæði skiptin hafi stofnunin tjáð honum að þeir hefðu engin not fyrir slíkan hugbúnað. Ríkisendurskoðun virðist því ekki hafa haft mikinn áhuga á að sinna lögbundnu hlutverki sínu og tryggja að tengdir aðilar geti ekki styrkt stjórnmálaflokka um meira en 400 þúsund krónur á ári.

Á meðan frumvörp eru í vinnslu í þinginu er leitað eftir umsögnum víða en þær má lesa á vef alþingis. Ef Ríkisendurskoðun hefði talið útilokað að fylgjast með tengslum lögaðila eða hún þurft til þess meira fé hefði hún getað varað löggjafann við og sent inn umsögn. Enga umsögn frá stofnuninni er þó að finna meðal þeirra sem sendu inn ábendingar við málið þegar það var fyrst lagt fram. Gylfi Magnússon sendi hins vegar inn skemmtilega umsögn sem kemur beint að kjarna málsins. Þegar lögunum var breytt sendi Ríkisendurskoðun hins vegar inn minnisblað og biðst undan því að úthluta styrkjum. Ekkert kemur þar fram um vandkvæði þess að fylgjast með tengslum þeirra sem útdeila fé til stjórnmálasamtaka.

Jón Jósef birtir á heimasíðu sinni mynd úr gagnagrunninum sem sýnir tengsl þeirra fyrirtækja sem Þórður Björn bendir á að hafi öll styrkt Sjálfstæðisflokkinn á sama ári:

Myndin sýnir stærstu eigendur Síldarvinnslunnar samkvæmt ársreikningi árið 2010 en það ár tók Sjálfstæðisflokkurinn við 400 þúsund krónum frá Samherja, 400 þúsund krónum frá Gjögri og 100 þúsund krónum frá Síldarvinnslunni.

Í 12. gr. laganna er kveðið á um viðurlög við brotum af þessu tagi:

12. gr.Viðurlög.

Hver sem tekur við framlögum, eða jafnvirði þeirra, sem óheimilt er að veita viðtöku skv. 6. gr. eða hærri framlögum en heimilt er skv. 7. gr. skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

Hver sem skilar ekki upplýsingum eða skýrslum samkvæmt ákvæðum laga þessara til Ríkisendurskoðunar innan tilgreindra tímamarka skal sæta sektum. Sama gildir séu veittar upplýsingar ekki í samræmi við settar reglur.

Gera skal lögaðilum sekt fyrir brot á 1. eða 2. mgr.

Refsa skal fyrir brot samkvæmt þessari grein séu þau framin af ásetningi eða gáleysi.
Tilraun og hlutdeild í brotum samkvæmt þessari grein er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.

Heimilt er að gera upptæk til ríkissjóðs framlög sem tekið er við án heimilda eða umfram heimildir samkvæmt lögum þessum eftir því sem segir í VII. kafla A almennra hegningarlaga.

Stjórnmálasamtök, og þeir sem þar bera ábyrgð, sem hafa veitt fé móttöku að upphæð hærri en 400 þúsund kall á ári frá tengdum aðilum gætu því verið í verulega vondum málum. Og það er líka spurning hverjir innan stjórnmálasamtaka bera ábyrgð. Er það stjórn flokksins, formaður og varaformaður eða kannski framkvæmdastjóri? Þetta þarf allt að skoða. Og það þarf að leggjast yfir tengsl þeirra sem styrkja stjórnmálasamtök, hvort sem Ríkisendurskoðandi telur sig hafa mannskap til þess eður ei. Ónýtt eftirlit er verra en ekkert.

Þá barst mér ábending frá konu sem unnið hafði í verslun og innflutningsfyrirtæki. Þar tíðkaðist að ákveðinn stjórnmálaflokkur hefði tekið út vörur í stórum stíl gegn frekar ómerkilegum og litlum auglýsingum í fréttablaði flokksins. Þetta var reyndar á þeim tíma er lögmál villta vestursins voru enn í gildi en fróðlegt væri að vita hvort slíkt tíðkist enn og hvort ríkisendurskoðun fylgist með því hvað greitt sé fyrir auglýsingar í flokkssneplum og með hverju. Geta stjórnmálasamtök gefið út blöð og selt auglýsingar dýrum dómum og þannig hagnast á útgáfunni?

Hreyfingin hefur aldrei tekið við styrkjum frá lögaðilum og í samþykktum hennar er það óheimilt. Það sama á við um Dögun, okkar nýja vettvang.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is