Föstudagur 17.08.2012 - 00:14 - FB ummæli ()

Að lifa lífinu til fulls …

Ég verð að viðurkenna að áður en ég varð þingmaður velti ég ekki mikið fyrir mér þeim aðstæðum sem við sem samfélag bjóðum mörgu fötluðu fólki upp á og hafði litla innsýn inn í veruleika margra sem þurfa aðstoð við athafnir daglegs lífs vegna fötlunar. Hann var fjarri mínum reynsluheimi. Ég er með tvo fætur sem hafa meira að segja tvisvar náð að hlaupa 21 kílómetra, hendur sem geta gert ýmislegt og haus sem virkar svona nokkurn veginn – yfirleitt. Og oftast tekst mér að gera það sem mig langar til án aðstoðar. En sumir þurfa aðstoð og hana eiga þeir að fá.

Eitt það dýrmætasta við þingmannsdjobbið er að maður fær innsýn í ýmsa hluti sem maður fengi annars ekki og aðstæður fólks sem voru manni áður huldar eða framandi. Og stundum getur maður lagt til breytingar til góðs, jafnvel byltingarkenndar grundvallarbreytingar, eða lagst á plóginn til að framkvæma eitthvað sem skiptir sköpum fyrir fullt af fólki og eykur lífsgæði þess svo um munar.

Ég heyrði fyrst um NPA sem stendur fyrir „notendastýrða persónulega aðstoð“ snemma árs 2010 þegar Guðmundur Steingrímsson bað mig um að flytja með sér þingmál um fyrirbrigðið. Ég fór að kynna mér málið og varð alveg heilluð af þeirri hugmyndafræði sem liggur á bak við NPA. Við fengum málið samþykkt og nú er NPA að fara af stað sem tilraunaverkefni á vegum nokkurra sveitarfélaga. Áður höfðu nokkir eldhugar riðið á vaðið og nokkur hópur fólks hefur nú stýrt þeirri aðstoð sem það þarf sjálft í nokkurn tíma og getað lifað sjálfstæðu lífi sem það gæti annars ekki í sama mæli. Í því fellst að sá sem á aðstoðinni þarf að halda fær fjármuni til að ráða til sín fólk sem aðstoðar það í athöfnum daglegs lífs. Það ræður sjálft hvaða fólk það hefur í vinnu, ræður vinnutíma þess og hvað fellst í starfinu – allt eftir þörfum og aðstæðum þess – ekki þess sem aðstoðina veitir, sveitarfélagsins eða stofnunar.

Ef mann langar að skoða NPA í hnotskurn eru ágætar upplýsingar í þingskjalinu, á síðum Velferðarráðuneytisins  og NPA miðstöðvarinnar. En þetta er í raun fáránlega einfalt. Málið í hnotskurn er bara að allt fólk á að geta blómstrað og til þess þarf það þau sjálfsögðu mannréttindi að geta ráðið lífi sínu sjálft og lifað sjálfstæðu lífi á eigin forsendum sem er því miður ekki sjálfgefið á Íslandi í dag. Fatlað fólk á bara að geta fengið þá aðstoð sem það þarf til að geta lifað lífinu eins og aðrir. Og það sem meira er – reynsla annarra þjóða þar sem NPA hefur rutt sér til rúms er að þjónusta í formi NPA er ódýrari en hefðbundin þjónusta sem felur í sér mikla yfirbyggingu og oft stofnanavist. Og í hefðbundna kerfinu er þjónustan oftar en ekki skipulögð eftir vöktum starfsfólksins en ekki þörfum eða áhuga notandans. Og það finnst mér óásættanlegt! Og við græðum öll á þessu því samfélag okkar verður ríkara fyrir vikið, fjölbreyttara og ánægjulegra fyrir okkur öll þegar þessi hópur er virkur þátttakandi í samfélaginu og atvinnulífinu en ekki jaðarsettur.

Til er apparat sem heitir NPA miðstöðin, samvinnufélag í eigu og undir stjórn fatlaðs fólks sem sér um utanumhald fyrir NPA, fræðslu og þjálfun, ráðningar, starfsmannamál og slíkt en síðast en ekki síst eru þar öflugir talsmenn NPA.Og á laugardaginn ætla ég að athuga hvort þessar ágætu lappir mínar geti hlaupið 21 km í þriðja sinn og í leiðinni vil ég vekja athygli á því frábæra starfi sem unnið er í NPA miðstöðinni og gefa fólki tækifæri til að styrkja hana með því að heita á mig (þótt það sé í raun óvíst hvort ég skili mér í mark) eða aðra hlaupara sem hlaupa fyrir NPA.

Þeir sem nota NPA lýsa þessu auðvitað best sjálfir eins og sjá má á þessum myndum sem eru af kynningarspjöldum fyrir NPA miðstöðina:

 

Þetta er nefnilega spurning um að fá að lifa lífinu til fulls. Og það eru sjálfsögð mannréttindi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is