Þriðjudagur 14.08.2012 - 22:24 - FB ummæli ()

Að reyna að fá slæman samning …

Það hefur ekki farið framhjá neinum að ástandið í Evrópusambandinu er tvísýnt. Óvissan er mikil og aðstæður að mörgu leyti töluvert aðrar en þegar við sóttum um aðild að sambandinu, bæði þar og reyndar líka hjá okkur. Því er skiljanlegt að menn staldri nú við og velti fyrir sér hvort rétt sé að halda umsóknarferlinu áfram – ná samningum og bera undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu – eða hreinlega hætta við. Þriðji möguleikinn er nú einnig kominn í umræðuna, að bíða og sjá hvernig mál þróast. Mögulegt er að þingið tæki ákvörðun um hvað gera skuli eða að málið verði borið undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá finnst mér nauðsynlegt að allir þrír kostirnir verði í boði en slíkt gæti kallað á tvöfalda kosningu því það er ekki boðlegt að minnihluti kjósenda ráði hvaða kostur yrði fyrir valinu. (Það er reyndar það fyrirkomulag sem tíðkast við forsetakjör en við myndum varla sætta okkur við það nema af því að við erum svo vön því.) Annar möguleiki og hagkvæmari væri að vera með varaatkvæði, þ.e. kjósendur velja annan möguleika til vara. Þá er varaatkvæðum þeirra sem vildu helst óvinsælasta kostinn dreift á hina tvo og þannig fundin sú leið sem flestum er að skapi. Til þess að það yrði mögulegt þyrfti væntanlega að breyta lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur eða setja sérlög um þessa.

Þrátt fyrir að Evrópusambandið snúist um margt fleira en evruna og margt megi gott um það segja þá er ekki hægt að neita því að það var gjaldmiðillinn sem landsmönnum með krónu í höftum fannst helsti kostur aðildar þegar sótt var um 2009. Samfylkingin sem helst barðist fyrir aðild halaði inn atkvæðum á evruna, stöðugan og traustan gjaldmiðil. Ég held að segja megi að flestir hafi hugsað fyrst og fremst um hvað Ísland gæti grætt á aðild en ekki hvað við hefðum fram að færa í þessu stóra samfélagi Evrópskra þjóða. Og sennilega er það enn þannig. Ef við „græðum“ ekki, ætlum við ekki að vera með.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur verið nokkuð í fréttum í dag. Hann hefur viðrað það sjónarmið að þjóðin eigi að fá að kjósa um hvort hún vilji ganga inn í Evrópusambandið eða ekki sem allra fyrst. Ekki komi til greina að ljúka málinu ekki á þessu kjörtímabili. Hann vill sem sagt ekki spyrja hvort draga eigi umsóknina til baka eða bíða heldur spyrja sem fyrst þeirrar spurningar sem ráðgert var að leggja fyrir þjóðina að samningaferlinu loknu.

Eins fylgjandi og ég er því að spyrja þjóðina og láta hana ráða sem mestu um hag sinn og bera ábyrgð á ákvörðunum sínum finnst mér þessi spurning ekki tímabær fyrr en samningur liggur fyrir. Ég gæti alla vega ekki svarað því fyrirfram hvort ég vilji ganga í Evrópusambandið áður en samningur liggur fyrir því þótt ég viti heilmikið um ESB eru ýmis atriði sem við eigum eftir að sjá hvernig verða leyst. Og ég kann því illa að vera stillt upp við vegg. Þetta er stór ákvörðun og ég tel mig ekki hafa nægar upplýsingar til að taka ákvörðun fyrr en samningur liggur fyrir. Ég myndi hins vegar vel treysta mér til að svara því hvort halda skyldi viðræðum áfram, geyma þær þar til mál skýrast eða draga umsóknina til baka.

Í frétt RÚV um málið er haft eftir Ögmundi:

„Það á einfaldlega að spyrja þjóðina hvort hún vilji ganga inn í Evrópusambandið og það er hún sem á að hafa úrslitavaldið. Það er svo margt sem er að breytast líka frá því að þetta ferli hófst og ég verð var við það að margir sem voru þess fýsandi að Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu eru annarrar skoðunar nú, enda hvernig ætti annað að verða? Í Evrópusambandinu loga nú mikil vandræðabál og ég held að þeim fækki sem að vilja ganga inn í það bál,“

Og svo segir hann að það sé hagur þeirra sem vilja ganga í Evrópusambandið „hvað sem það kostar“ að málið dragist á langinn.

„Vegna þess að ef þú ætlar að fá niðurstöðu sem er þínum málstað hagstæð, og augljóst er að það gerist ekki á næstunni, þá er málið látið dragast.“

Nú er ég ekki sérfræðingur í samningatækni en einhvern veginn fæ ég ekki skynsamlegan botn í þetta hjá Ögmundi.

Þeir sem eru í samningaviðræðum af heilum hug hljóta að hafa það að markmiði sínu að fá sem bestan samning. Það getur tekið tíma. Og þegar annar aðilinn er undir tímapressu, t.d. ef klára þyrfti samninginn fyrir áramót, veikist samningsstaða hans, sérstaklega ef hinum liggur ekkert á. Og hún yrði hreinlega hörmuleg ef þjóðinni yrði stillt upp við vegg nú í haust áður en samningar hafa náðst eins og mér sýnist Ögmundur vilja, hún spurð hvort hún vilji í ESB og svarið væri já. Hver væri samningsstaða Íslands ef þjóðin hefði lýst þeirri skoðun sinni að hún vildi ganga í Evrópusambandið „hvað sem það kostaði“?

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is