Mánudagur 06.08.2012 - 22:46 - FB ummæli ()

Heppna þjóðin

Fyrr á þessu ári heimsótti ég bróðir minn í Kanada. Ég flaug til Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna og þar tók á móti mér landamæravörður sem skannaði fjölskylduna hátt og lágt, spurði okkur um tilgang ferðarinnar, dvalarstaði og undarleg eftirnöfn. Honum stökk ekki bros á vör og mér finnst svona athuganir alltaf örlítið óþægilegar. Hvað ef hann trúir okkur ekki eða er bara í vondu skapi? Loks spurði hann okkur um störf okkar. Ég sagðist vera þingmaður. Þá breyttist allt.

Þessi maður, sem var um það bil eini maðurinn í Bandaríkjunum sem ég átti orðastað við, hafði nefnilega heyrt af þessari þjóð út í ballarhafi sem hafði lent í hruni og ákveðið í kjölfarið að breytinga væri þörf.

„Þið eruð að semja nýja stjórnarskrá með þátttöku fólksins! That´s awesome!“ Í ljós kom að hann vissi allt um stjórnlagaráð og þjóðfundinn, hafði bæði lesið um stjórnarskrárferlið í blöðum og séð af þessu í sjónvarpi. Og honum fannst þetta stórkostlegt og ljómaði allur. „Ég vildi að svona nokkuð gæti gerst hér, fólkið fengi eitthvað um málin að segja og það væri hlustað á það. Þið eruð heppin!“ sagði svo þessi útvörður Ameríku og bauð okkur velkomin.

Þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram um tillögur stjórnlagaráðs 20. október næstkomandi. Við erum heppin!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is