Miðvikudagur 01.08.2012 - 11:50 - FB ummæli ()

Kjólföt, heiðursmerki …

Fyrir nokkru fékk ég gerðarlegt umslag í pósti. Inni í því var boðskort, ja eða eitthvað þannig, þar sem fram kemur að Ríkisstjórn, Alþingi og Hæstiréttur (hvorki meira né minna) biðji frú Margréti Tryggvadóttur alþingismann að vera við athöfn þegar forseti Íslands taki við embætti á ný þann 1. ágúst 2012. Neðst í hægra horninu stendur svo: “Kjólföt, heiðursmerki”. Og þetta fannst mér fyndið.

Ég sendi æskuvinkonum mínum strax línu enda fermdumst við allar árið 1986 þegar kjólföt úr Karnabæ voru það heitasta í bænum, gjarna úr skærlitum, glansandi efnum. (Hugsið um ICY tríóið og Gleðibankann.) Ég fermdist reyndar í hvítum smóking með rauðan linda og slaufu en kæmist ekki í þann búning nema hugsanlega með því að sarga af mér útlimi. Og kjólföt vinkvennanna voru ekki uppi við, ein höfðu reyndar verið gefin á viðeigandi stað – á búningasafn Þjóðleikhússins. En mér bauðst að fá lánað “heiðursmerki” skreytt semelíusteinum sem þótti gífurlega smart á brjósti einnar fermingastúlkunnar árið 1986. Hver veit nema ég næli því í svarta kjólinn úr Rauðakrossbúðinni.

Það er þó eitthvað við þetta boð og kortið sem truflar mig. Ég hef áður fengið formleg boðskort með ábendingum um klæðaval, svo sem “dökk föt” og einu sinni “dökk föt, þjóðbúningar” á korti frá indverska sendiráðinu. Aldrei áður hefur mér þó fundist gert ráð fyrir að allir sem boðaðir séu við athöfnina séu karlkyns. Og sennilega var það einmitt þannig þegar samsvarandi kort var sent út í fyrsta sinn. Karlar gengdu helstu embættum og til að aðgreina sig frá pöpulnum klæddu þeir sig í það allra fínasta – föt sem voru þannig hönnuð að lífsins ómögulegt var að gera nokkuð annað í þeim en vera fínn, halda ræðu, éta, drekka og pissa standandi. Og ef konur fengu að fljóta með voru þær fylgifé; eiginkonur, og klæddar í eitthvað sem passaði við herrann.

En nú er árið 2012. Aldrei hafa fleiri konur verið kosnar á þing, meirihluti ráðherra er kvenkyns, forseti þingsins er kona, sömuleiðis biskupinn og helmingur forsetaframbjóðendanna í nýliðnum kosningum. En samt talar boðskortið bara til karla, feðraveldisins.

Og svo er það hitt. Ég ber virðingu fyrir forseta Íslands og embættinu. Hann og allir þeir sem verða við þessa athöfn eru hins vegar bara venjulegt fólk. Og eftir göngur til og frá kirkju, ættjarðarsöngva og eftir að forsetinn hefur tekið við embættinu í fimmta sinn mun hann fara út á svalir Alþingishússins og veifa lýðnum sem væntanlega á að standa á Austurvelli, prúður og góður. Minnir þetta ekki frekar á kóngafólk í útlöndum en almannaþjónustu á 21. öldinni?

Í nýliðinni kosningabaráttu var mikið rætt um hlutverk forsetans og hvert það ætti að vera. Forsetinn er talsmaður þjóðarinnar í útlöndum og við ýmis tækifæri og svo er hann “neyðarhemill” – getur synjað lögum staðfestingu þegar þingið er úti að aka. Sá forseti sem nú tekur við embætti í fimmta sinn hefur verið í góður í hvoru tveggja. Sumum finnst að forsetinn eigi að vera sameiningartákn. Þá þarf hann að vera stilltur og hætt við að hann gagnist lítið sem neyðarhemill.

Þegar 90% þjóðarinnar treysta ekki Alþingi er skiljanlegt að kallað sé eftir sterkum leiðtoga – bjargvætti. Sagan er þó full af slíkum mönnum sem ollu þjóðum sínum miklum harmi. Mér dettur ekki í hug að líkja Ólafi Ragnari við þá en hugmyndin um hinn sterka leiðtoga finnst mér – rétt eins og kjólfötin – ekki viðeigandi árið 2012. Og fólkið í landinu þarf að geta haft áhrif og skipt sér af stjórnvöldum með öðrum hætti en að kasta eggjum í þingmenn og biðla til forsetans. Málskotsrétturinn þarf að vera í höndum þjóðarinnar sjálfrar. Hún má gjarna deila honum með forsetanum og minni hluta þings því betur sjá augu en auga.

Aðalatriðið er að völdin verði raunverulega hjá fólkinu, þjóðinni sjálfri. Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu. Og samfélag jafnaðar hefur ekkert að gera með yfirstétt sem spangar um á kjólfötum með heiðursmerki.

Greinin birtist fyrst í DV 1. ágúst 2012.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is