Sunnudagur 22.07.2012 - 23:05 - FB ummæli ()

Gamla fólkið, búsið og elliheimilin

Það ætti í raun ekki að þurfa að fara mörgum orðum um þetta: Sjálfræðisaldurinn er 18 ára, áfengiskaupaaldurinn 20 ára. Íbúar á dvalar- og hjúkrunarheimilum hafa náð þeim aldri og eiga að fá að drekka áfengi ef þeim sýnist svo. Og ekki ætla ég að setja út á það að Hrafnista geri huggulegt hjá sér.

Mig langar samt að velta upp öðrum fleti á þessu og það er hve lengi fólk dvelur á slíkum heimilum í stað þess að vera í góðu yfirlæti heima hjá sér þar sem það getur fengið sér sérrítár ef og þegar því sýnist, leyft hundinum að sofa uppi í rúmi (eða ekki) og haft hlutina nákvæmlega eftir sínu höfði með aðstoð samfélagsins eins lengi og mögulegt er.

Árið 2003 skilaði stýrihópur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skýrslu um stefnumótun í málefnum aldraðra til 2015. Þar segir meðal annars:

Það er grundvallaratriði að aldraðir haldi sjálfstæði sínu eins lengi og kostur er þannig að sem minnst röskun verði á högum þeirra þegar aldurinn færist yfir. Forsenda þess er að tekið sé mið af þörfum aldraðra á öllum sviðum samfélagsins, svo sem varðandi heilbrigði, félagslega þjónustu, efnahag, húsnæði og aðrar aðstæður. (bls.5)

Þar segir einnig:

Í könnun, sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið gerði meðal forstöðumanna hjúkrunarheimila í október 2002, var spurt hvort talið væri að einhverjir sjúklingar á viðkomandi stofnun gætu verið í þjónustuíbúðum með góðri heimahjúkrun og heimilishjálp. Forstöðumenn tíu hjúkrunarheimila töldu að svo væri en ellefu töldu það ekki mögulegt. Á níu heimilum af tíu var talið að 5–10% prósent sjúklinga gætu verið í þjónustuíbúð með viðeigandi þjónustu. Á einu þessara hjúkrunarheimila var talið að 10–20% íbúanna gætu búið í þjónustuíbúð með viðeigandi þjónustu. Athygli er vakin á því að eingöngu var spurt um sjúklinga í hjúkrunarrýmum en ekki aldraða í dvalarrýmum. Ætla má að hlutfall þeirra sem gætu verið heima með góðri þjónustu væri mun hærra í dvalarrýmum.

Af framansögðu er ljóst að margir þættir aðrir en heilsufarslegar ástæður geta verið orsök þess að aldraðir sækjast eftir vistun á stofnunum. Af samtölum stýrihóps í stefnumótun um málefni aldraðra við starfsfólk og stjórnendur í öldrunarþjónustu hefur komið fram að einsemd, öryggisleysi og kvíði fyrir framtíðinni þegar heilsunni hrakar er oft meginvandi aldraðra sem búa einir. Þá hefur verið bent á að skortur á vistrýmum á öldrunarstofnunum, löng bið eftir vistun og ónóg heimaþjónusta geti leitt til þess að aldraðir reyni að tryggja sig með því að sækja um stofnanavistun fyrr en efni standa til. Af þessu er ekki óvarlegt að draga þá ályktun að markviss og góð þjónusta við aldraða í heimahúsum geti dregið verulega úr eftirspurn eftir stofnanavistun, ekki aðeins vegna þeirra sem þurfa aðstoð, aðhlynningu og hjúkrun, heldur einnig vegna þeirra sem hafa fyrst og fremst þörf fyrir það öryggi sem felst í reglubundnu innliti og vissu um að fá nauðsynlega hjúkrun og umönnun þegar þess gerist þörf. Samanburður við nágrannaþjóðir hefur leitt í ljós að hlutfall aldraðra á stofnunum er mun hærra hér á landi en annars staðar. Til að bregðast við þessu er nauðsynlegt að fjölga úrræðum, veita aukna og fjölbreyttari þjónustu og skapa öldruðum félagslegar og fjárhagslegar aðstæður sem gera þeim kleift að búa á eigin heimili, eins lengi og nokkur kostur er á að koma til móts við þarfir þeirra utan stofnana.  (bls. 47-8)

Á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í vor spurðist ég fyrir um kostnað samfélagsins við einstakling á dvalar- eða hjúkrunarheimili á móti því að fá nauðsynlega aðstoð, hjúkrun og liðveislu heim. Samkvæmt þeim svörum sem ég fékk má veita gamalli konu eða karli 28 tíma þjónustu á viku áður en kostnaðurinn við það fer yfir kostnað hins opinbera við dvöl á öldrunarstofnun – á þá er eftir að taka tillit til þess að hinn aldraði borgar með sér.

Það er þó ekki nóg að tryggja nægilega marga klukkutíma í þjónustu heima – aðstoðin verður að vera á forsendum þess aldraða. Það á ekki að vera þannig að sá gamli sé bara baðaður þegar sveitarfélaginu hentar – eða starfsfólki á dvalarheimili, fái að borða þegar það hentar félagsþjónustunni að keyra til hans matinn og að heimilið verði eins og umferðarmiðstöð þar sem alls konar fólk kemur og fer. Það skapar ekki öryggi. Við ættum að skoða þá hugmyndafræði sem liggur til grundvallar notendastýrðri persónulegri aðstoð þegar við hugum að þörfum aldraðra en um hana má meðal annars lesa á www.npa.is og http://www.velferdarraduneyti.is/npa/.

Mér eru minnisstæð orð eins sveitarstjórnarmanns sem féllu á fundi með okkur, þingmönnum suðurkjördæmis. Hann hvatti okkur til að þrýsta á að byggð væru hjúkrunarheimili á svæðinu sem fyrst. Af hverju? Jú, það voru svo margir verktakar verkefnalausir í kreppunni.

Það má líka skapa störf með því að veita betri þjónustu – það þarf ekki alltaf að fjárfesta í steypu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is