Þriðjudagur 17.07.2012 - 21:14 - FB ummæli ()

Börn í hólf

Í aldanna rás hefur það gerst að foreldrar, þó einkum konur, hafa í neyð sinni, skömm eða örvæntingu borið út börn sín. Á síðasta ári bárust fréttir af slíku hér á landi og nýlega hlaut hin ólánsama móðir tveggja ára fangelsisdóm fyrir að hafa deytt nýfætt barn sitt. Erfitt er að gera sér í hugarlund líðan þeirra kvenna sem slíkt gera.

Íslandssagan geymir fjölda dulsmála. Hér á landi var saknæmt að eignast barn utan hjónabands og fátækar, einhleypar stúlkur sem urðu barnshafandi voru í vondum málum. Frá árinu 1600 – 1900 er vitað um 100 dulsmál en sennilega voru þau mun fleiri. Refsingar voru grimmilegar og frá 1654 voru konur jafnvel teknar af lífi. Síðasta aftaka fyrir dulsmál fór fram árið 1792.

Víða í Evrópu skapaðist sú hefð að konur gátu skilið börn eftir við klaustur, kirkjur, barnaheimili og sjúkrahús og má rekja það til fyrirmæla Innocentíus III páfa frá lokum 12. aldar. Víða má enn sjá sérstök op eða hólf á gömlum byggingum  þar sem örvæntingafullar nýbakaðar mæður gátu komið börnum sínum í skjól og treyst því að hinum meginn við vegginn væri einhver sem hugsaði um það og kæmi því til manns. Þessi siður hélst í Bretlandi allt til loka 19. aldar.

Í dag höfum við getnaðarvarnir, félagslega aðstoð, fæðingadeildir, félagsráðgjafa, ættleiðingar, fæðingarorlof, meðlag og allt fullt af alls konar. Og víðast hvar er ekki lengur dauðasynd að eignast barn utan hjónabands eða barn sem ekki á föður. Engu að síður kemur sú staða upp að konur bera út börnin sín, ekki oft en það gerist og hvert skipti sem það gerist er of mikið.

Víða um heim er útburður barna reyndar enn nokkuð algengur. Miðað við algengt hlutfall karla og kvenna eru til að mynda 25 milljón færri konur í Kína en búast mætti við. Eins og flestir vita mega flestar fjölskyldur í Kína aðeins eignast eitt barn og meiri eftirspurn er eftir drengjum en stúlkum. Reynar má skýra skekkjuna að hluta með fóstureyðingum í kjölfar „ólöglegra“ ómskoðanna þar sem eingöngu er reynt að komast að kyni barnsins og því eytt ef það er stúlka. Kínverks munaðarleysingjahæli eru einnig full af stúlkubörnum sem hafa verið skilin eftir einhvers staðar. Á Indlandi þar sem drengir eru einnig eftirsóttir ættu stúlkur og konur að vera um 50 milljónum fleiri en þær eru.

Víða virðist því enn full þörf á barnahólfunum, alla vega hljóta þau alltaf að vera örvæntingafullri móður sem heldur þungun sinni leyndri og sér enga leið til að sjá um barn sitt betri kostur en að deyða það. Og víða eru slík enn að finna. Það kemur kannski ekki á óvart að þau fyrirfinnist í fátækari löndum. Í Pakistan eru til að mynda um 300 staðir þar sem skilja má börn eftir og talið er að það hafi bjargað um 16.000 mannslífum. En þetta þekkist einnig á Vesturlöndum og fjölmörg lönd hafa á síðustu árum sett upp nútímaleg barnahólf við sjúkrahús og stofnanir þar sem hægt er að skilja nýfædd börn eftir án þess að ljóst sé hvaðan það kemur. Í Þýskalandi voru slík hólf fyrst sett upp fyrir 15 árum en nú eru þau um eitt hundrað talsins. Á þessum 15 árum hafa um 500 börn verið skilin eftir í hólfunum. Hólfin eru upphituð og mjúk og þegar barni er komið þar fyrir fer viðvörunarkerfi í gang sem gerir starfsfólki viðvart svo það geti sótt barnið eftir að sá sem skilur það eftir er farinn. Í hólfinu eru einnig upplýsingar fyrir þann sem skilur barnið eftir þar sem kemur fram að hægt sé að gera kröfu um að fá barnið aftur innan átta vikna frá því það er skilið eftir án þess að það hafi nokkrar lagalegar afleiðingar. Slík hólf er einnig að finna í Ungverjalandi, Belgíu, Austurríki, Japan, Póllandi, Hollandi, Ítalíu og fleiri og fleiri löndum. Víða í Bandaríkjunum má skilja börn eftir á öruggum stað, við sjúkrahús og slökkvistöðvar en lögin eru mjög mismunandi eftir löndum.

Auðvitað getum við ekki vitað hvað yrði um öll þessi börn ef þessi kostur væri ekki fyrir hendi. Það er erfitt að trúa því að 500 börn hefðu verið borin út í Þýskalandi síðustu 15 ár án barnahólfanna. Engu að síður virðast 500 fæðingar hafa átt sér stað, utangarðs ef svo má að orði komast – án aðstoðar heilbrigðiskerfisins og án þess að mæður þeirra telji sig geta hugsað um þau. Þær eiga það sameiginlegt að hafa haldið meðgöngunni leyndri eða jafnvel ekki vitað af henni sjálfar.

Gæti verið þörf fyrir slíkt hólf hér á Íslandi?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is