Mánudagur 16.07.2012 - 19:03 - FB ummæli ()

Kreppan búin? En …

Nú er búið að aflýsa kreppunni. Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor hefur kveðið upp sinn dóm og ekki lýgur hann. Hann bendir á að hagvöxtur hér á landi sé nú með því mesta sem gerist á vesturlöndum og sjá megi merki um uppsveiflu víða. Atvinnuleysi er á undanhaldi og hefur ekki mælst minna frá því þessi ósköp dundu yfir okkur og kaupmáttur launa er heldur á uppleið. Erlendir hagfræðingar og fjölmiðlar hafa tekið í sama streng og ausið okkur lofi; á meðan allt er á hverfanda hveli úti í hinum stóra heimi er litla Ísland bara að spjara sig vel með sundkúta og hjálpardekk í formi gjaldeyrishafta. Og sennilega er það rétt ef aðeins er litið á hina þröngu, efnahagslegu merkingu orðsins kreppa og litið framhjá því að hrunið var einnig siðferðislegt og hugmyndafræðilegt. Ástandið í Evrópu og annars staðar í heiminum getur þó auðveldlega sett allt úr skorðum hér líka. Og aflétting gjaldeyrishafta, snjóhengjan ógurlega af fjármagni sem vill úr landi sem og ónýtur gjaldmiðill eru allt óleyst vandamál. Við erum því vart úr allri hættu.

En hvað svo? Eigum við nú bara öll að fara að græða á daginn og grilla á kvöldin? Reyna að gleyma því sem gerðist, taka útrásarvíkingana í sátt (einhver verður að sjá um að stunda bisness hérna) og kaupa nýjan og stærri flatskjá á vísa-rað? (Nei takk, ómögulega …)

Hamfarir og uppbygging

Þann 23. janúar árið 1973 fór að gjósa í Heimaey.  Allir íbúar eyjarinnar voru fluttir á land og þar mátti fólk dúsa fram á sumar er gosinu lauk. Um 400 heimili grófust undir hraun og ösku og allur bærinn var undirlagður ösku og eimyrju. Þegar óhætt var að snúa aftur í eyna var ljóst að margir höfðu misst heimili sín og mikið starf var óunnið þegar kom að því að gera eyjuna fögru hæfa til búsetu aftur. Strax var hafist handa við hreinsun og uppbyggingarstarf en þó má telja að samfélagið hafi verið um 10 ár að ná sér að fullu eftir gosið. Og eins og menn vita hafa sum húsin aldrei verið grafin upp og margir íbúanna fluttu ekki aftur í eyjuna.

Ég held að ég sé ekki ein um að hafa upplifað haustið 2008 eins og náttúruhamfarir þótt þær hafi verið mannanna verk. Vissulega velti ég vöngum yfir mörgu í gróðærinu –gengi krónunnar jók kaupmáttinn út fyrir öll velsæmismörk – sumt var svo ódýrt að maður fékk samviskubit þegar hugurinn hvarflaði til fólksins sem bjó góssið til fyrir nánast ekki neitt. Og þessi endalausa þensla gat varla gengið til lengdar? En þótt upptakturinn hafi verið nokkur kom hrunið samt sem reiðarslag.

En hvað nú?

Þótt hinum efnahaglega samdrætti sé lokið er mikið verk eftir óunnið. Mörg heimili eru enn á kafi í “ösku og eimyrju” stökkbreyttra skulda sem þau ráða ekki við. Enn höfum við ekki borið gæfu til að afnema verðtrygginguna og í landi þar sem verðbólga hefur sögulega séð verið stórkostlegt vandamál verður ekki séð að þau óverðtryggðu lán sem fólk er umvörpum að skipta yfir í séu fullkomin lausn því bönkunum er í sjálfsvald sett hverjir vextirnir á þeim verða í framtíðinni og fyrirséð að fólk muni lenda í vandræðum með þau líka þegar vextir verða hækkaðir.

Verkefnið framundan hlýtur að vera að aflétta skuldaklafanum af heimilum með leiðréttingu á þeim forsendubresti sem varð við hrunið, afnema verðtryggingu og smíða löggjöf um neytendalán sem tryggir heimilum landsins öryggt og sanngjarnt lánaumhverfi. Fólk á vissulega að borga skuldir sínar – en það á ekki að þurfa að greiða þær margfallt til baka vegna hruns sem orsakaðist af glæpsamlegri hegðuna fjármálafyrirtækja og sinnuleysis stjórnvalda sem þó vissu í hvað stefndi en lugu því að okkur að hér væri allt í stakasta lagi. Án sanngjarnrar leiðréttingar grær aldrei um heilt.

 

Greinin birtist fyrst í DV 16. júlí 2012.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is