Þriðjudagur 10.07.2012 - 17:50 - FB ummæli ()

Beisik mannréttindi

Þessi dagur byrjaði vel. Ég lá í rúminu, nývöknuð, hlustaði á morgunfréttir á Bylgjunni og heyrði sagt frá því að  blaðamennirnir Erla Hlynsdóttir og Björk Eiðsdóttir hafi unnið mál sín gegn Íslandi fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Eins fáránlegt og það hljómar voru þær dæmdar bæði í héraðsdómi og hæstarétti fyrir að segja fréttir, byggðar á orðum viðmælenda sinna, voru dæmdar sekar um meiðyrði fyrir að hafa orðrétt eftir viðmælendum sínum setningar sem ekki var hægt að sanna að væru réttar. Nú hefur þessum dómum verið hrundið og þeim Erlu og Björk verið dæmdar bætur og það er gott.

Reyndar hefur löggjafinn þegar girt fyrir að hægt sé að dæma blaðamenn fyrir ummæli höfð orðrétt eftir öðrum í nýlegum fjölmiðlalögum en enn eru að falla fáránlega harðir dómar vegna meintra meiðyrða – einn sá fíflalegasti kostar ungan mann 950 þúsund krónur fyrir bloggfærslu sem var uppi innan við sólarhring og sárafáir sáu. Hann fær ekki einu sinni að áfrýja þeim dómi.

Tjáningarfrelsið eru grundvallarmannréttindi. Stundum segir fólk eitthvað sem manni finnst óþægilegt, tjáir sig um einkamál sem öðrum kemur ekki við eða fer jafnvel með helber ósannindi. Mannréttindi má hins vegar ekki skerða og þótt tjáningarfrelsinu kunni einstaka sinnum að vera misbeitt verðum við að líta á það sem eðlilegan fórnarkostnað við frjálst flæði upplýsinga og tjáningar.

En er ekki eitthvað bogið við það að verða svona glaður þegar Ísland tapar máli? Segir það ekki sína sögu um hvar við erum stödd?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is