Sunnudagur 01.07.2012 - 17:05 - FB ummæli ()

Okkar eigin hetja!

Þann 1. desember árið 1955 fór kona í strætó í Alabama-fylki í Bandaríkjunum. Bílstjórinn bað hana að færa sig svo annar farþegi gæti fengið sætið hennar en hún sagði nei. Í kjölfarið var hún handtekin fyrir borgaralega óhlýðni. Konan hét Rosa Parks og í strætóum Alabama ríkti kynþáttaaðskilnaður eins og víðast hvar annars staðar í svæðinu. Og Rosa var dökk á hörund en sætið ætlað hvítum. Nú, rúmlega hálfri öld síðar, er erfitt fyrir okkur að skilja þá mannfyrirlitningu sem felst í lögum um kynþáttaaðskilnað og ég held að flest myndum við berjast með kjafti og klóm gegn slíkri lagasetningu stæði hún til.

Í gær voru forsetakosningar. Okkur finnast það líka sjálfsögð mannréttindi að kjósa þótt við vitum að það er ekki alls staðar svo. Og við viljum að kosningarnar séu leynilegar. Við myndum fæst taka það í mál að starfsfólkið á kjörstað kæmu með okkur inn í klefann og krossaði fyrir okkur á kjörseðilinn. Ekki frekar en við myndum standa upp í strætó vegna þess að einhver af öðrum kynþætti ætti, samkvæmt heimskulegum lögum settum af hroka og mannfyrirlitningu, rétt á sætinu.

Engu að síður er þetta veruleiki fjölmargra Íslendinga sem þurfa aðstoð við kosningaþátttöku vegna fötlunar. Og því miður er þetta ekki eina dæmið um heimskulega lagaframkvæmd hér á landi sem mismunar fólki með fötlun. En í gær sagði huguð, ung kona nei takk, þetta læt ég ekki bjóða mér. Freyja Haraldsdóttir gerði boð á undan sér, mætti með aðstoðarkonu sína og fjölmiðla og krafðist þess að fá að kjósa með aðstoð að eigin vali. Og það fékk hún að lokum. Ég vil hvetja alla til að lesa og íhuga vel yfirlýsingu Freyju sem birt er í þessari frétt: „Freyja braut kosningalög í dag„. Reyndar finnst mér fyrirsögnin ekki rétt – eðlilegra væri að greina frá því að þennan dag brutu yfirvöld stjórnarskrárbundinn rétt fjölda fólks til friðhelgi einkalífs og leynilegra kosninga og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Rétt eins og Rosa Parks var ekki fyrst til að neita að standa upp í strætó var Freyja ekki sú fyrsta til að krefjast þess að fá að velja aðstoðarmann sinn sjálf á kjörstað. En hún náði þessu í gegn í þetta skiptið og nú getum við sem skipum löggjafavaldið ekki heykst á því lengur að breyta kosningalögunum svo allir sem þurfa geti fengið aðstoð frá þeim sem þeir vilja á kjörstað. Og reyndar þyrfti að gera svo ótalmargt fleira svo hægt væri að segja að við byggjum í samfélagi án mismununar.

Mannréttindi koma aldrei af sjálfum sér, það þarf alltaf að berjast fyrir þeim. Og þess vegna erum við heppin að eiga konu eins og Freyju.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is