Fimmtudagur 28.06.2012 - 17:23 - FB ummæli ()

Lýðræði í hættu

Sem barn hitti ég Vigdísi Finnbogadóttur, sem þá var forseti Íslands. Hún sagði okkur krökkunum að við værum sérstaklega heppin því við byggjum í lýðræðisríki, að lýðræðið væri dýrmætt en því miður ekki sjálfgefið. Á Íslandi ætti fólk rétt á að velja sína fulltrúa í frjálsum kosningum.

Og nú reynir aldeilis á fólkið sem þjóðin valdi til verka. Sigurvegarar síðustu kosninga mynda nú stjórn, hinir minnihluta eða stjórnarandstöðu. Báðir hópar hafa mikilvægu hlutverki að gegna. Stjórnin sér um stefnumótun og ber í raun ábyrgð á öllu draslinu. Þeirra er framkvæmdavaldið og forseti þingsins með dagskrárvaldið. Minnihlutinn hefur víðtækt eftirlitshlutverk og ber að vera gagnrýninn á störf stjórnarinnar. Stjórnarandstaðan á að setja spurningamerki við allt sem stjórnin leggur til – velta því upp hvort fara megi aðrar leiðir og tryggja að ríkisstjórn sé gerð ábyrg gjörða sinna.

Sú stjórnarandstaða sem við búum við á Alþingi í dag virðist hins vegar halda að hlutverk sitt sé ekki eingöngu að spyrja spurninga og veita aðhald heldur hreinlega koma í veg fyrir framgang allra mála meirihlutans. Þar finnast mér menn vera farnir að misskilja bæði hlutverk sitt og völd.

Leikreglurnar

Þingið starfar eftir lögum um þingsköp Alþingis. Eins og í fótboltanum þarf að gæta að því að leikurinn sé sanngjarn og er það gert með því að búa bæði stjórn, og þar með forseta þingsins, og stjórnarandstöðu vopnum. Eitt af vopnum stjórnarandstöðunnar er málþófið. Fyrir nokkrum árum var þingsköpum breytt þannig að í stað þess að hver þingmaður gæti talað eins lengi og hann héldi vöku tvisvar sinnum voru ræðurnar styttar og leyfð andsvör en enginn fjöldi á ræðum tiltekinn. Ég var ekki á þingi þegar þessar löngu ræður voru mögulegar en get rétt ímyndað mér þau leiðindi, enda vísindalega sannað að hlustendur halda ekki athygli nema 20 mínútur í einu þegar hlýtt er á einn ræðumann. Þetta vita allir góðir kennarar og brjóta upp kennslustundir með verkefnum og spurningum. Nú geta þingmenn hins vegar endalaust skipst á að halda stuttar ræður. Og það er þetta “endalaust” sem skapar vandræðin því lítill hópur herskárra stjórnarandstæðinga getur auðveldlega tekið þingið í gíslingu.

Neyðarhemillinn

Stjórnarandstaðan á hverjum tíma verður að hafa neyðarhemil til að grípa í ef í óefni stefnir. Málþófsrétturinn er slíkur neyðarhemill en ekki endilega sá heppilegasti, sérstaklega ekki þegar þingmenn geta talað endalaust eins og nú er og gera það. Ég er mun hrifnari af því að minnihlutinn geti sent stór og umdeild mál í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og í Danmörku. Þar hefur það aðeins einu sinni verið gert. Í flestum ríkjunum í kringum okkur er ræðutími um hvert mál ákvarðaður fyrirfram. Ræðutími þjóðþinga norðurlandanna er því töluvert styttri en hér á landi þótt þingmennirnir séu mun fleiri og örugglega jafnúttroðnir af skoðunum og sjálfumgleði og íslenskir starfsbræður þeirra.

Vopn meirihlutans

En meirihlutinn hefur líka vopn. Forseti eða níu þingmenn geta til dæmis lagt til að umræðu sé slitið eða hún takmörkuð samkvæmt 64. gr. þingskapanna. Slíka tillögu þarf að bera undir þingið en alvöru meirihluti ætti að geta fengið hana samþykkta. Og þar liggur hundurinn grafinn. Á meðan stjórnarandstaðan notar öll vopnin sín, alltaf og hefur töglin og hagldirnar í þinginu, þorir meirihlutinn varla að opna vopnabúrið sitt, hvað þá beita því. Lögð er áhersla á að leysa öll mál í samkomulagi þegar allt eins væri hægt að reyna að ná samkomulagi við ánamaðka eða villta úlfa. Á meðan meirihlutinn sýnir þennan undirlægjuhátt er engin von til þess að nokkuð breytist og stjórnarandstaðan mun hafa neitunarvald í öllum málum áfram.

Meirihlutinn þarf að ná völdunum aftur

Ef áfram heldur sem horfir mun næsti þingvetur verða enn skelfilegri. Á dagskrá verða helstu stórmál ríkisstjórnarinnar, svo sem rammaáætlun og nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi – auðlindir okkar verða undir. Auk þess þarf þingið að afgreiða nýja stjórnarskrá. Við núverandi ástand er vonlaust að nokkuð af þessu komist í gegnum nálarauga stjórnarandstöðunnar. Þetta er eins konar valdarán. Lýðræðislega kjörinn meirihluti kemur litlu í verk og alls ekki sínum helstu stefnumálum sem meirihluti þjóðarinnar kaus hann til að framkvæma. Stjórnarandstaðan er með þingið í gíslingu. Og málþófið veldur því að umræða um þingmálin er í raun ónýt því það er tilgangslaust að koma með ábendingar í þingræðu um hvað betur megi fara því þær drukkna í öllum gífuryrðunum. Þetta ástand er hættulegt og meirihlutinn verður að axla þá ábyrgð að stýra skútunni. Það eru nefnilega svik við kjósendur að láta minnihlutann ráða förinni.

Greinin birtist fyrst í DV 27. júní 2012.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is