Þriðjudagur 26.06.2012 - 23:55 - FB ummæli ()

Gengislánaflækjan

Í morgun var ljómandi gott viðtal við Lúðvík Bergvinsson, lögmann og fyrrverandi þingmann Samfylkingarinnar um gengislánaósómann þar sem hann lýsir furðu sinni á því hvernig fjármálafyrirtækin komast upp með að segja dóma sem falla þeim í óhag óskýra og framkvæmdavaldið gengur ekki á eftir því að dómum sé fullnægt. Ég mæli með því að fólk hlusti á viðtalið til að minna sig á í hvers konar bananalýðveldi við búum.

Ég hef reynt eftir bestu getu að vinna að úrlausn skuldavanda heimilanna og þau voru einn helsti hvatinn fyrir mig að bjóða mig fram til þings. Ég er fertug og tilheyri sennilega þeirri kynslóð sem er að fara verst út úr þessu hruni, þótt vissulega hafi ég séð hörmuleg dæmi úr öllum aldurshópum, ekki síst hjá eldra fólki sem hefur misst heilsuna, kannski þurft að skipta um húsnæði í kjölfarið og er að missa allt vegna skulda sem einu sinni voru litlar og viðráðanlegar. Fólk á mínum aldri er oftar en ekki með vaxandi fjölskyldur og hefur þurft að koma upp öruggu húsnæði fyrir fjölskylduna. Það á ekki og má ekki vera áhættufjárfesting en þannig er það á klikkaða Íslandi.

Frá því fyrsti gengislánadómurinn féll, dómurinn sem kvað upp úr að gengistryggingin væri ólögleg, hef ég haft það á tilfinningunni að verið væri að reyna að flækja þessi mál eins og hægt væri til að kaupa kerfinu tíma til að koma undir sig löppunum. Það hefur gengið ágætlega og Árna Páls lögin tryggðu að stjórnvöld gátu sagt að búið væri að leiðrétta lánin og að mikilvægt væri „að menn hætti að fiska stöðugt í gruggugu vatni í þessum málum“ eins og og Árni Páll, þá ráðherra, orðaði það þegar hann svaraði fyrirspurn minni um afturvirku útreikningana. Og bankakerfið malar gull enda fékk það lánasöfnin á gífurlegum afslætti.

Það 15. febrúar féll svo dómur í hæstarétti sem hnekkti afturvirku útreikningunum hans Árna Páls. Engu að síður er enn verið að rukka þessi lán og engir endurútreikningar hafa farið fram því „óvissan“ um hvað dómurinn þýðir er svo mikil. Síðast þegar ég vissi var ekki einu sinni búið að leiðrétta lánið sem dómurinn fjallaði um!

Í vikunni fékk ég bréf frá ungum Íslendingi sem tók bílalán árið 2007 – frábært tilboð, kaupir einn bíl en greiðir þrjá. Með leyfi bréfritara vil ég deila hugleiðingum hans með lesendum.

Ég er 29 ára viðskiptafræðingur með bs gráðu frá Háskóla Íslands. Ég fylgist vel með öllum helstu fréttamiðlum landsins. Ég las bloggið þitt varðandi gengislánin. Ég get sagt þér að þetta er nákvæmlega það viðmót sem ég mætti hjá Landsbankanum.
Frá barnsaldri hefur mér alltaf verið kennt að fara vel með peninginn minn. Mér hefur ávallt verið sagt að betra sé að eiga fyrir hlutnum heldur en að taka lán.
Í góðærinu svonefnda 2007 ástandi keypti ég mér einn bíl. Ég átti fyrir honum þ.e gat staðgreitt hann 1340.000. Mér var ráðlagt af bílasalanum að taka lán fyrir öllu í erlendri mynt og eiga bara peninginn. Ég fór milliveginn, borgaði 500 út og tók 840 á láni.
Þegar hrunið kom fór lánið í 1740 þ en svo þegar Hæstiréttur dæmdi þessi lán ólögleg þá hefði lánið átt að lækka í 300 en Árni Páll var svo elskulegur að setja lög sem hækkuðu eftirstöðvar lánsins.
Í dag skulda ég ennþá 160 þ af bíl sem er 7 ára og ekinn yfir 100 þ. Landsbankinn segir mér að þeir séu að athuga hvaða fordæmi þessi dómur sem er nýfallinn hefur fyrir lántakanda hjá Avant. Það geti vel verið að það gerist ekkert fyrr en eftir langan tíma og mörg málaferli. Á meðan á maður að þegja, borga og brosa. Maður er kannski að borga peninga þegar maður er nú þegar búinn að greiða of mikið.  Peninga sem maður fær ekki til baka fyrr en eftir langan tíma og þá ekki á vöxtum? Réttlæti? Ónei. Íslendingar eru of miklar rolur og láta of margt yfir sig ganga. Það þorir enginn að mótmæla því ósýnilega fjármagnsvaldi sem stýrir öllu baksviðs. Fólk þarf að rísa upp, hnefann á borðið og hingað og ekki lengra.
Þess skal getið að Landsbankinn fékk þessar kröfur þ.e frá AVANT og SP gefins þegar hann tók yfir reksturinn.
Ég tók lánið hjá Avant.
Er eitthvað réttlæti í þessu?
Ég er líka að leita að íbúð annaðhvort til að leigja eða kaupa. Ég bý inni hjá foreldrum og er það ansi þreytandi. Þú þarft að eiga lágmark 20% upp í útborgun í dag og það er enginn sem lánar manni það háar fjárhæðir. Bankarnir segja þvert nei. Við erum að tala um íbúðir sem kosta um 15-17 millj. Þá er útborgunin yfir 3,0 millj. Það er ekki nokkur leið að eignast húsnæði á þeim launum sem maður fær í dag. Sama er með leigumarkaðinn. 50-60 fm íbúðir fara á lágmark 120 þ á mánuði plús stjarnfræðilega há trygging. Það er ekki fyrir nokkurn mann að standa undir slíkum kostnaði.
Ég er ekki að biðja um að fá eitthvað lúxuslíf upp í hendurnar. Ég vil bara vinna í þessu þjóðfélagi og borga mínar skyldur og eignast bíl og húsnæði. Eins og ástandið er í dag er slíkt ómögulegt.
Ég er Íslendingur sem er stoltur af landi og þjóð. Ég vil vera hér áfram og ala upp mín börn. Ég er af framtíðarkynslóðinni sem á að taka hér við. En ef aðstæðurnar breytast ekki þá neyðist ég til að flytja af landi brott. Ég veit að það eru margir aðrir í svipuðum sporum og mun verr staddir. Hvert stefnir landið okkar ef þeir sem eiga að taka við flýja?
Ég er barnlaus og er ekki í sambúð.
Ég vildi leyfa þér að heyra aðeins frá mínum raunum í von um að þú getir breytt einhverju.
Kv.
Nafnleynd

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is